Morgunblaðið - 21.06.2009, Síða 32

Morgunblaðið - 21.06.2009, Síða 32
32 Umræðan MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 21. JÚNÍ 2009 Seljum og merkjum fatnað, húfur og töskur. Vel merkt vara er góð auglýsing Bróderingar og silkiprentun www.batik.is • sími: 557 2200 27. N áðin Drottins birtist í mörgum mynd- um og er þó alltaf söm. Hún er æðri öllum skilningi, alveg eins og sá friður Guðs í hjarta og huga, sem hún gefur (Fil. 4,7). Allur vöxtur eða þroski í trú og bæn einkennist af og lýsir sér í því, að þakklætið vex, gleðin yfir því að vera til í ríki þeirrar náðar, sem varir að eilífu. Náð Guðs umvefur okkur eins og lífsloftið og sól- arljósið. Við getum ekki lifað án lofts og ljóss. Og hver er lykillinn að þeirri lífgjöf? Enginn annar en sá að loka ekki sjálfum sér, lofa þessum náð- argjöfum að komast að sér með blessun sína. Þeir bræður þrír, sem kenndir eru við Bakka, urðu frægir af mörgu. Meðal annars af því að ætla sér að bera sólskinið inn í bæinn sinn í húfunum sín- um. Þeim láðist að hafa glugga á bæ, sem þeir reistu sér. En þeim fannst, að þeir gætu gert hann bjartan samt með tæknibrögðum eða snjöllum handtökum. Þeir voru langt á undan sinni samtíð að því leyti, að þeir höfðu takmarkalausa trú á því, hve mikið þeir gætu gert sjálfir, en gleymdu hinu, sem menn verða blátt áfram að þiggja og skiptir öllu að ekki sé lokað úti. Gætu ekki einhverjir nútímamenn kannast við sjálfa sig í þessum hetjum? Það er vissulega rétt- mætt og nauðsynlegt að eiga sjálfstraust og áræði og hugvitssemi til gagnlegra úrræða. En takmörk sín verða menn líka að þekkja og virða, ef vel á að fara. Og kunna að meta það, sem er gefið og enginn getur til unnið eða verðskuldað. Aldrei missir spurningin forna gildi sitt: Hvað hef- ur þú, sem þú hefur ekki þegið? (1. Kor. 4,7). Bóndinn í Syðra-Firði í Lóni, löngu liðinn, minntist í vísu á sálargluggann sinn. Samt er á mínum sálarglugga sæmilega bjart. Þetta gat hann þakkað, þótt ekki sæi til sólar á bænum hans nær allan veturinn. Ef þú gleymir glugga sálarinnar eða byrgir hann, hvernig nærðu þá að sjá hamingjugeisla eða von- arstjörnur? Við getum lokað á Guð. Það er meinið, skuggahlið- in, sem fylgir því, hvað maðurinn er mikill og er mik- ið ætlað. Hann hefur þegið þá náð að eiga frjálsan vilja. Það var mikil áhætta að veita honum þá miklu gjöf. En óhjákvæmileg, ef maðurinn átti að verða annað en strengjabrúða, vélmenni, og þar með óhæf- ur til vaxtar og þroska. En við eigum lykil. Þann lykil, sem er bæn. Hann opnar laundyr hins innra manns. Og inn um þær berst birta og heilnæmur andvari, endurnæring, styrkur, friður. Um þetta eru allir trúmenn á einu máli. Það er margt sérstætt, sem Jesús segir um Guð. Meðal annars það, sem hann segir um gleði hans. Það verður gleði hjá Guði, í hjarta hans og í kring- um hann í himni hans, þegar einhver snýr sér til hans, vaknar til hans, kemur til hans, opnar fyrir honum, vill vera hjá honum. Þetta gerist ekki aðeins, þegar menn vakna við það, að þeir eru komnir í ógöngur, snúa þá af óheilla- braut og áleiðis heim til föður síns og mæta hinni miklu gleði heima þar (sbr. Lúk. 15). Það gerist hverju sinni sem þú lætur Guð finna, að hann sé ekki gleymdur þér. Þá verður gleði í hjarta hans. Það máttu vita. Og gleði hans endurspeglast hið innra með þér og lýsir upp huga þinn og síðan veginn, sem þú ert á. Pistlar sr. Sigurbjörns Einarssonar, sem Morg- unblaðið birti á sunnudögum á síðasta ári, vöktu mikla ánægju meðal lesenda. Um það samdist, milli sr. Sigurbjörns og Morgunblaðsins, að hann héldi áfram þessum skrifum og hafði hann gengið frá nýj- um skammti áður en hann lést. Leit og svör Sigurbjörn Einarsson » Náð Guðs umvefur okkur einsog lífsloftið og sólarljósið. HVERNIG má skapa atvinnu? Hvern- ig ætlar núverandi rík- isstjórn að skapa þau 6.000 ársverk sem stefnt er að í rík- isstjórnarsáttmál- anum? Hvernig kom- um við hinum títtnefndu hjólum at- vinnulífsins af stað á nýjan leik? Oft er fátt um svör er stórt er spurt, og virðist sú vera raunin þessa dagana. Ein- sýnt er að hjólin margfrægu eiga mjög erfitt með að komast af stað af sjálfsdáðum. Rafgeymirinn virðist hreinlega tómur og því þarf að gefa start. En hvernig gefum við hagkerfi start? Tvennt geta stjórnvöld gert. Tvennt sem stjórnvöld virðast ekki ætla að gera. Í það minnsta draga menn lappirnar. Annars vegar þarf peninga inn í bankakerfið. Lánsfé þarf að vera til staðar til að koma fyrirtækjum yfir þann erfiða hjalla sem staðið er frammi fyrir. Í fjármálakrísum er peningainnspýting iðulega sú upp- skrift sem beitt er. Ekki svo mjög gamalt dæmi er frá frændum vorum Svíum. Þegar kreppti að hjá þeim við upphaf tíunda áratugarins og bankar þar í landi höktu, þá komu stjórnvöld til hjálpar. Lögðu þau peninga inn í bankana gegn eignaraðild. Hversu mikla peninga var um að ræða? U.þ.b. 4% af landsframleiðslu Sví- þjóðar á þeim tíma. Jafngildir tæp- lega 59 milljörðum króna íslenskra, miðað við okkar landsframleiðslu í fyrra. Ríkisvaldið hér hefur tekið alla banka yfir sem máli skipta. Eitthvað virðist hins vegar fara lítið fyrir end- urfjármögnun þeirra og greinilegt að nýju bankarnir hafa ekki tök á því að stunda þau lánaviðskipti sem nauð- synleg eru. Stjórnvöld verða að setja peninga inn í bankakerfið. Hins vegar þarf ríkið að verða framkvæmdaglaðara en í stefnir. Nú er nauðsyn. Ríkið má ekki hætta við framkvæmdir, heldur ætti að auka þær. Eitt sinn fyrir mörgum árum vann ég sumarlangt með manni sem hóf sinn starfsferil á þriðja áratug síðustu aldar. Lýsti hann fyrir mér atvinnuástandinu þá. Hvernig menn stóðu í röðum þar sem einhverja vinnu var að fá. Óskuðu þeir þess að einhver myndi ekki mæta þann dag- inn þ.a. þeir kæmust að í staðinn. Jafnvel að einhver slas- aðist. Mér þóttu þetta ótrúlegar lýsingar. „Hvernig leystist at- vinnuleysið?“ spurði ég. „Herinn kom,“ var svar- ið. Með hernum fylgdu jú alls konar fram- kvæmir og fullt af störf- um. Herinn þurfti margvíslegar vörur og þjónustu og atvinnulífið fór allt í einu að blómstra. Atvinnuleysi hvarf og peningahirslur landsmanna fylltust. Reyndar var það svo að seinni heimsstyrjöldin átti stóran þátt í að koma böndum á kreppuna miklu. Ekki ætla ég nú að mæla með því að Íslendingar fari í hernað. En, krepputímar eru ekki rétti tíminn til að draga skyndilega úr öllum framkvæmdum. Hærri skattar og mikill sam- dráttur í ríkisútgjöldum draga úr framleiðslu og atvinnu. Þetta er svo augljóst að ég skammast mín næst- um fyrir að skrifa það. Þessar að- gerðir, eins og núverandi ríkisstjórn ætlar að takast á hendur, dýpka kreppuna. Þær hjálpa ekki til. Ástandið verður verra en það er í dag. Af hverju stefna stjórnvöld að því að ná hallalausum ríkisbúskap ár- ið 2013? Auðvitað er göfug hugsun að vilja ekki eyða um efni fram, en mið- að við aðstæður er þetta svolítið eins og að kaupa kampavínið til að halda upp á Íslandsmeistaratitilinn þegar æfingatímabilið er að hefjast og allt mótið er eftir. Komum fyrst hjól- unum af stað, náum okkur upp úr kreppunni og förum svo að vinna í að jafna út ríkisfjármálin. En verðum við ekki þá stórskuldug? Jú, vafa- laust. En þannig er nú líf okkar flestra. Við tökum okkur lán fyrir húsnæði og eyðum ævinni í að borga af því láni. Í kreppu gengur ekki að pakka í vörn. Við verðum að sækja fram völlinn. Því framkvæmd fylgir frami og gæfa. Framkvæmd fylgir frami og gæfa Eftir Vilhjálm Wiium Vilhjálmur Wiium » Þessar aðgerðir, eins og núverandi ríkis- stjórn ætlar að takast á hendur, dýpka krepp- una. Höfundur er hagfræðingur. MÆNUSKAÐI hef- ur mjög alvarlegar af- leiðingar til lífstíðar fyrir einstaklinginn sem hlýtur mænu- skaða og fjölskyldu hans. Afleiðingarnar eru ekki einungis vegna fötlunarinnar sem glíma þarf við, því að félagslegir og fjár- hagslegir hagir breytast einnig mikið. Mænuskaði hefur einnig al- varlegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir samfélagið. Í nýrri rannsókn okkar Herdísar Þórisdóttur sjúkra- þjálfara á Grensásdeildinni, end- urhæfingardeild Landspítala, skoð- uðum við breytingar á tíðni, aldri, kyni, orsökum og alvarleika fötl- unar vegna mænuskaða í slysum á 36 ára tímabili frá 1973 til 2008. Hverjir fá mænuskaða í slysi? Sambærilegar erlendar rann- sóknir sýna að á hinum Norð- urlöndunum er tíðni mænuskaða í slysum milli 10 og 15 á hverja millj- ón íbúa að meðaltali. Miðað við fólksfjölda á Íslandi mætti búast við fjórum til fimm nýjum mænusköðum að meðaltali á ári ef tíðnin væri svipuð og á hinum Norðurlöndunum. Tíðni mænuskaða í slysum hér á landi hefur þó verið mun hærri allt frá árinu 1973. Á síðustu fjórum ár- um var tíðnin meira en helmingi hærri en á hinum Norðurlöndunum eða u.þ.b. 10 á ári að meðaltali sem jafngildir 32 miðað við 1 milljón íbúa. Flestir mænuskaðaðir í slysum voru karlar en und- anfarin 8 ár hefur kon- um í hópi mænuskað- aðra fjölgað nokkuð. Langflestir voru innan við fertugt þegar slys- ið átti sér stað. Ungir karlar er stærsti áhættuhópurinn. Til- tölulega fáir ein- staklingar yfir sextugt hafa hlotið mænuskaða í slysum en fjöldi þeirra tvöfaldaðist á síðustu 8 árum miðað við hin 28 árin. Frístundaslysum fjölgar Umferðarslys voru helsta orsök mænuskaða eða í nær helming til- fella. Oftast var um bílveltu að ræða þar sem ökumaðurinn missti stjórn á bílnum, oft í beygju eða lausamöl. Því miður hefur meiri- hluti þeirra sem fengið hafa mænu- skaða í bílslysi ekki verið í bílbelti og hafa margir þeirra kastast út úr bílnum í veltunni. Umferðarslysum sem valda mænuskaða hefur farið hlutfallslega fækkandi sérstaklega þegar tekið er tillit til mikillar fjölgunar bíla á síðustu árum. Það má að hluta þakka bættu vegakerfi og vonandi einnig almennari notkun bílbelta. Mótorhjólaslys voru fátíð orsök mænuskaða hér á landi eða ein- ungis sjö á þessum 36 árum en fjögur þeirra gerðust á síðustu 8 árum. Föll voru önnur algengasta orsök mænuskaða í slysum eða í þriðjungi tilfella. Fjórðungur þeirra voru vinnuslys, oftast í byggingariðnaði þrátt fyrir að reglur og eftirlit með öryggi í byggingariðnaði hafi batn- að verulega. Nærri helmingur vinnuslysanna áttu sér stað á síð- ustu 8 árum. Á þessum árum varð mjög mikill vöxtur í byggingariðn- aði sem getur skýrt þessa fjölgun. Föll voru ein helsta orsök mænu- skaða hjá aldurshópnum yfir 60 ára. Var þá oft um fall úr lítilli hæð að ræða. Mesta breytingin á orsökum mænuskaða tengist frístundaslys- um. Þau voru 20% af öllum slys- unum og helmingur þeirra hefur átt sér stað á síðustu 8 árum. Stærsti hópur frístundaslysa voru slys við hestamennsku. Aukinn fjöldi þeirra slysa tengist væntanlega mikilli fjölgun í hestaeign og hesta- mennsku á undanförnum árum. Slys í tengslum við vetraríþróttir fylgdu fast á eftir, bæði skíðaslys, snjóþotuslys og vélsleðaslys. Meðal annarra frístundaslysa sem valdið hafa mænuskaða voru hjólaslys, bæði reiðhjóla- og fjórhjólaslys, dýfingar í grunna laug og svif- fluguslys. Niðurstöður rannsóknar okkar sýndu þannig verulegar breytingar á tíðni, aldri og orsökum mænu- skaða í slysum á síðustu 8 árum miðað við hin 28 árin á undan. Svo virðist sem breyttir lífshættir fólks á Íslandi geti verið einn af orsaka- þáttunum fyrir fjölgun slysa sem valda mænuskaða. Forvarnir eru mikilvægar Þrátt fyrir töluverðar framfarir á sviði rannsókna á mænusköðum á undanförnum árum er enn engin meðferð til sem læknar mænu- skaða. Forvarnir sem beinast að því að draga úr tíðni mænuskaða í slys- um eru bráðnauðsynlegar og þjóð- hagslega hagkvæmar. Auk forvarna gegn umferðarslysum er sér- staklega mikilvægt að beina sjónum að forvörnum gegn frístundaslysum og föllum. Að lokum eru nokkur einföld ráð til að koma í veg fyrir slys sem geta valdið mænuskaða:  Höfum bílbeltið alltaf spennt við akstur, líka í aftursætinu.  Drögum úr hraðanum við akst- ur, sérstaklega í beygjum og lausamöl.  Förum gætilega ef við erum að príla uppi í einhverri hæð til að forðast fall.  Förum alltaf að öllum öryggis- reglum bæði í vinnu og í frí- stundum.  Förum gætilega og notum við- eigandi öryggisbúnað við frí- stundaiðkun.  Förum hóflega með áfengi – áfengisneysla eykur slysahættu. Ef þessum einföldu ráðum er fylgt, tekst vonandi að draga úr tíðni mænuskaða í slysum. Mænusköðum fjölgar – hvað er til ráða? Eftir Sigrúnu Knútsdóttur » Forvarnir sem bein- ast að því að draga úr tíðni mænuskaða í slysum eru bráðnauð- synlegar og þjóðhags- lega hagkvæmar. Sigrún Knútsdóttir Höfundur er yfirsjúkraþjálfari Grensásdeildar, endurhæfing- ardeildar Landspítala

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.