Morgunblaðið - 15.07.2009, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 15.07.2009, Blaðsíða 18
18 Umræðan MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 15. JÚLÍ 2009 LAUGARDAGINN 11. júlí birtust á sömu síðu í Morgunblaðinu tvær greinar um Ice- save-hneykslið. Í fyrri greininni (eftir Jón Daníelsson og Kára Sigurðsson) voru rakt- ar staðreyndir og á þeim byggð sú ályktun að Alþingi ætti að hafna Icesave- samningnum. Seinni greinin (eftir Jónas Haralz og Gylfa Zoëga) var fyrst og fremst pólitísk, í henni voru nánast engar staðreyndir heldur tilbúnar forsendur og vanga- veltur um hvað gæti gerst ef hinar ímynduðu forsendur gengju allar upp. Munurinn á greinunum er þó meiri en munurinn á staðreyndum og getgátum. Forsendurnar í seinni greininni eru hverjar um sig afar ólíklegar miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Í öðru lagi þyrftu for- sendurnar allar að ganga upp sam- tímis sem væri líkindafræðilega nán- ast útilokað ef raunin væri ekki sú að í þriðja lagi eru forsendurnar þess eðlis að ein útilokar aðra. Það er því ekki bara nánast heldur fullkomlega útilokað að dæmið gangi upp. Loks eru nokkrar hreinar og klárar mót- sagnir í greininni. Auk vaxta Í greininni er gert ráð fyrir að skuld ríkisins vegna Icesave verði 170 milljarðar auk vaxta. Ekki er tekið fram að vextirnir verða líklega einir og sér nærri tvöfalt hærri en 170 milljarðarnir sem eftir standa af höfuðstólnum, eða um 330 milljarðar á núverandi gengi, þegar kemur að því að borga af skuldabréfinu ógur- lega (komið hefur í ljós að líklega verður ekkert greitt út úr þrota- búinu inn á lánið á næstu árum). Samtals verður skuldin því um 500 milljarðar þegar greiðslur hefjast. 2 + 1 = 2 Upplegg greinarinnar sést hvað best á þeirri staðhæfingu greinarhöf- unda að hækkun virðis- aukaskatts (sem nefnt er sem ein af leiðunum til að standa undir vaxtagreiðslunum) úr 24,5% í 27,39% nemi rúmlega tveimur pró- sentustigum. Þegar menn byrja rökstuðn- ing sinn á að skilgreina 2,89 sem rúm- lega 2 en ekki tæplega 3 má ljóst vera að verið er að leggja út á hálan ís. Íslenskir neytendur borga ekki skatta í evrum eða pundum. Það er því ekki hægt að greiða niður erlend lán með skattahækkunum. Ríkið þarf að kaupa erlenda mynt fyrir skatt- tekjurnar af þeim sem hafa tekjur í erlendri mynt. Það dregur úr fram- boði gjaldeyris fyrir aðra og hækkar verðið (fellir krónuna). Upptaka evru í millitíðinni mundi ekki leysa vand- ann enda skiptir það ekki máli þar sem greinarhöfundar gera í for- sendum sínum ráð fyrir að notast verði við íslenskar krónur a.m.k. til ársins 2025 (sem er athygli vert í ljósi þess að höfundarnir hafa fram að þessu talað mjög fyrir upptöku evru). Jónas og Gylfi virðast gleyma því að tæplega 3 prósentustiga hækkun neysluskatta mundi hækka skulda- byrði heimilana gífurlega og auka þannig skuldir þjóðarinnar. Jafn- framt er litið framhjá því að fall krón- unnar leiðir til meiri verðbólgu sem hækkar þessar skuldir enn meira. Auk þess líta þeir framhjá því að ef ríkið hækkar skatta og leggur auka- tekjurnar inn í banka er ríkið með því að taka fjármagn úr hagkerfinu og það á versta hugsanlega tíma. Áhrif á rekstur fyrirtækja og atvinnuleysi eru ekki metin í greininni þar sem all- ar forsendur eru látnar gerast í tóma- rúmi þótt viðfangsefni hagfræðinnar sé einmitt sú staðreynd að eitt leiðir af öðru í hagkerfinu. Í skefjalausri bjartsýni sinni miða þeir félagar við að hagvöxtur verði 3% og verðbólga 3% til framtíðar. Engin rök eru færð fyrir því hvernig slíkur viðsnúningur á að eiga sér stað á sama tíma og gríðarlegum erlend- um skuldum er bætt á hagkerfi sem þegar er komið í neikvæðan spíral (sjá t.d. Indónesíu 9́7-́98 og Argent- ínu 0́1-́02). Bjartsýnin breytist svo í hreina þversögn þegar greinarhöf- undarnir gefa sér þá forsendu að gengi krónunnar muni styrkjast um 20% á næsta ári og haldast stöðugt eftir það. Nokkrum málsgreinum síð- ar verður forsendan sú að gengi krónunnar veikist enda gangast Jón- as og Gylfi við því að frekara fall krónunnar sé óhjákvæmileg afleiðing Icesave-skuldbindingana (enda eru þau áhrif fullkomlega augljós). Að færa debet en gleyma kredit Peningana sem ríkið fær út á skattahækkunina stendur, sam- kvæmt hinum þversagnakenndu for- sendum, til að leggja inn í Seðlabank- ann þar sem þeir eiga að safna vöxtum til að standa undir vaxta- greiðslum af Icesave-láninu. Vonandi gæti Seðlabankinn notað peningana til að borga niður eldri lán en það breytir ekki því að ríkið væri að greiða sjálfu sér vexti. Þessu virðast Jónas og Gylfi gleyma. Næst er farið út í umræðu um kosti þess að Icesave-samningarnir felli enn gengi krónunnar. Einhverra hluta vegna virðast greinarhöfundar halda að áhrifin verði mest þegar líð- ur á niðurgreiðslutímabilið (íslenska krónan verður semsagt í notkun til a.m.k. 2025). Þeir virðast ekki gera sér grein fyrir því að ólíkt íslenskum stjórnvöldum taka markaðir, þ.m.t. gjaldeyrismarkaðir, framtíðarhorfur og skuldbindingar með í reikninginn strax í stað þess að láta eins og þær séu ekki til þar til kemur að því að greiða þær. En jæja, félagarnir telja að þar sem gengi krónunnar verður enn veikara vegna Icesave dragist innflutningur saman (sem er rétt a.m.k. í magni talið) og það auki á sparnað (sem er hæpið þegar þjóðin stendur frammi fyrir hækkandi vöru- verði og hækkandi sköttum). Sem- sagt, enn ein þversögnin. Þeir gleyma líka hinni hliðinni á veikari mynt, þ.m.t. því að vaxtagreiðslur af lánum í erlendri mynt hækka til muna í krónum talið, ekki hvað síst af Icesave-láninu. Þetta veldur ekki bara hækkun á lánum ríkisins. Sam- hliða hækka að sjálfsögðu skuldir ís- lenskra heimila, fyrirtækja (ekki hvað síst útflutningsfyrirtækja) og sveitarfélaga í erlendri mynt. Þar fer ágóðinn af auknum útflutnings- tekjum en tjónið vegna fárveikrar krónu eykst. Félagarnir bjartsýnu viðurkenna reyndar í greininni að forsendurnar gætu brugðist en telja að þá komi endurskoðunarákvæði Icesave- samninganna til bjargar. Ákvæði sem lögfræðingar hafa hæðst að og lýst sem tilgangslausu. Enda kveður það ekki á um annað en „kaffiboð með skyldumætingu“ eins og Jón Daníelsson og Kári Sigurðsson orð- uðu það. Vextirnir Jónas og Gylfi telja 5,55% vexti góða þótt þeir gangist við því að Bretar og Hollendingar séu að hagn- ast aukalega með álagi á þá vexti sem þeim bjóðast sjálfum. Þeir líta framhjá því að við uppgjör þrotabús eru yfirleitt ekki greiddir vextir og að samningurinn átti að taka sérstakt mið af aðstæðum á Íslandi og ekki að íþyngja hagkerfinu (Færeyingar veittu okkur lán á 0% vöxtum). Stein- inn tekur svo úr þegar þeir félagar reyna að sýna fram á að raunvext- irnir verði ekki nema 3,55% ef verð- bólga verður 2% í Bretlandi og Hol- landi. Þar gleyma þeir verðbólgunni á Íslandi en í eigin forsendum, fram- ar í greininni, gerðu þeir ráð fyrir að verðbólga hér á landi yrði 3%, þ.e. hærri en í Bretlandi og Hollandi! Verðbólga fellir sem kunnugt er verðmæti gjaldmiðils og það hækkar skuldina. Útrásarrök Loks er því haldið fram að aðal- atriðið sé að setja skuldsetninguna í samhengi við landsframleiðslu. Það hefur áður verið bent á að það hafi til- tölulega lítið að segja að líta til lands- framleiðslu þegar um er að ræða skuld í erlendri mynt. Því til viðbótar er kaldhæðnislegt að röksemd þeirra félaga um hlutfall skuldarinnar af landsframleiðslu (sem mælir veltu) er sú sama og bankarnir notuðu til að rökstyðja gríðarmikla lántöku sína. Rökin voru þau að veltan væri stöð- ugt að aukast svo mikið að hin háa skuldabyrði væri ekki vandamál. Annað kom á daginn þótt veltan hafi aukist fram á síðasta dag. Þjóðin öll undir Nokkrir bankamenn notuðu óhóf- lega bjartsýni og gallaðar forsendur til að rökstyðja óviðráðanlegar lán- tökur sem leiddu til hruns íslenska fjármálageirans. Rökin sem þeir Jón- as og Gylfi setja fram, og sambæri- legir töluleikir viðskiptaráherra, byggjast á enn meira óraunsæi en því sem fyrr nefndir bankamenn lögðu til grundvallar áætlunum sínum. Auk þess er mun auðveldara að áætla af- leiðingarnar af Icesave-lántökunni en af viðskiptamódeli bankanna. Í báð- um tilvikum er hvatinn sá sami, vilji til að halda áfram ósjálfbærum leik aðeins lengur þótt með því sé enn aukið á hið óumflýjanlega tjón. Mun- urinn er sá að þeir sem stóðu að skuldsetningu bankanna spiluðu með eignir fjárfesta þótt áhættan hefði mátt vera ljós en þeir sem tala fyrir Icesave-skuldsetningunni leggja alla íslensku þjóðina undir þegar áhættan er augljós. Hvort er verra? Eftir Sigmund Dav- íð Gunnlaugsson »Rökin sem þeir Jónas og Gylfi setja fram, og sambærilegir tölu- leikir viðskiptaráðherra, byggjast á enn meira óraunsæi en því sem fyrrnefndir bankamenn lögðu til grundvallar áætlunum sínum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Höfundur er formaður Framsóknarflokksins Ef og ef og ef og ef … Lagalegir þættir tengdir rekstri Trygg- ingasjóðs innistæðu- eigenda og fjárfesta hafa verið nokkuð til umræðu. Verður inn- tak þeirrar umræðu þeim mun torskildara sem fleiri lögfræð- ingar leggja orð í belg, enda ætla ég mér ekki þá dul að bæta þar úr. Lítið hefur farið fyrir umfjöllun um hinn hagfræðilega grundvöll rekstrar sjóðsins. Er það miður, því hagfræðilegur grundvöllur rekstrar hans er verulega frábrugðinn hag- fræðilegum grundvelli hefðbund- inna skaðatrygginga. Margir þeirra sem fjallað hafa um sjóðinn virðast ekki gera sér grein fyrir þessum mun. Hlutverk banka Hlutverk banka og fjármálastofn- ana er að safna saman skamm- tímainnlánum og lána út til lengri tíma. Þjóðhagslegur ávinningur er mikill. Almenningi gefst tækifæri til að ávaxta skammtímasparnað sinn og einstaklingar og atvinnulíf eiga greiðari aðgang að fjármagni en ef þessara stofnana nyti ekki við. Það eru hins vegar alvarlegir þver- brestir í rekstrarlíkani banka og fjármálastofnana: Meginhluti skuldanna, þ.á m. innlána, er upp- segjanlegur með skömmum fyr- irvara, meginhluti eignanna, útlán- anna, er til lengri tíma. Venjulega skapar þessi staðreynd engin vandamál. Komi innistæðueigandi í bankann og vitji innistæðu sinnar getur bankinn notað fé úr lausa- fjársjóði sínum, eða fé sem síðasti við- skiptavinur lagði á reikning sinn, til að sinna þörfum þess sem taka vill út. En komi upp sá kvittur, með réttu eða röngu, að bankinn sé í kröggum kann málið að vandast. Tilraunir innistæðu- eigenda til að bjarga sparnaði sínum með því að taka út fé sitt kann að enda með greiðsluþroti bankans og jafnvel gjaldþroti. Starfshæfni banka ræðst af því hvort almenningur treystir honum eða ekki. Bankar sem al- menningur treystir ekki fá ekki inn- lán og eru því ekki rekstrarhæfir. Það er erfitt, kannski ógjörn- ingur, fyrir banka að byggja upp traust almennings án einhvers at- beina hins opinbera. Algengt er að hið opinbera krefjist innistæðu- trygginga í einhverri mynd. Þá eru reknir innistæðutryggingasjóðir sem bönkum er gert að greiða inn á í hlutfalli við innlán. Sé inngreiðslu- hlutfallið 100% eru innlán full- tryggð, en nýtast bankanum ekki til útlána. Almennt talað minnkar þjóðhagslegur arður af banka- starfseminni eftir því sem trygg- ingahlutfallið er haft hærra. Arður og öryggi stangast á. Hvað er þá til ráða? Innistæðutryggingakerfið Innistæðutryggingakerfi það sem rekið er hér á landi á grundvelli til- skipana Evrópusambandsins leysir innistæðutryggingavandann á ein- faldan en þó hugvitssaman hátt. Innlánastofnanir greiða tiltölulega lága upphæð (1% af tryggðum inni- stæðum) sem er nokkurskonar að- göngumiði að kerfinu. Inn- greiðslukvöðin hefur því sáralítil áhrif á rekstur fjármálafyrirtækj- anna. Á móti tryggir innlánatrygg- ingasjóðurinn aðgang hvers inni- stæðueiganda að ríflega 20 þúsund evrum. Útgreiðsluskylda inn- lánatryggingasjóðsins myndast ef fjármálaeftirlit ákveður að stöðva rekstur innlánastofnunar. Skv. lög- um nr. 98/1999 skal eigandi óbund- ins reiknings fá kröfu sína greidda af þrotabúi eða úr hendi inn- lánatryggingasjóðs eigi síðar en 3 mánuðum eftir að fjármálaeftirlitið hefur opinberað það álit sitt að við- komandi banki geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart inni- stæðueigendum. Kveðið er á um að stjórn innlánatryggingasjóðsins geti tekið lán til að standa við skuld- bindingar sínar að þessu leyti. Út- greiðslur innlánatryggingasjóðsins mynda kröfu sjóðsins á þrotabúið og er sú krafa meðal forgangskrafna í búið. Flýtir greiðslu hluta forgangskrafna Hlutverk innlánatryggingasjóðs- ins er því að tryggja fjármagn til greiðslu lágmarksfjárhæðarinnar til innistæðueigenda frá þeim tíma að banki fer í þrot uns þrotabú bank- ans hefur verið gert upp. Með því að gera kröfur innlánatryggingasjóðs- ins að forgangskröfu er tryggt eins og hægt er að útlagt fé endurheimt- ist. Það er því grundvallarmunur á rekstrarlíkani innlánatrygg- ingasjóðsins og hefðbundinna tryggingafélaga. Hefðbundin trygg- ingafélög dreifa kostnaði vegna áfalla á alla þá sem kaupa trygg- ingu. Innlánatryggingasjóðurinn gerir það ekki. Hlutverk hans er að flýta útgreiðslu forgangskrafna í þrotabú banka. Þeir lögfræðingar sem hafa fjallað um skuldbindingar innlánatryggingasjóðsins op- inberlega virðast ekki hafa áttað sig fyllilega á þeirri staðreynd. Ekki er kveðið á um það í lögum eða tilskipunum hvar sjóðurinn skuli leita fanga varðandi lánveit- ingar. Hinn skammi tímafrestur sem veittur er til útgreiðslu trygg- ingafjárhæðarinnar og sú staðreynd að sjóðurinn starfar á grundvelli beinna lagafyrirmæla og að ráð- herra viðskiptamála hefur aðkomu að stjórn sjóðsins með skipun stjórnarmanna og með lögbundinni skýrslugjöf gefur ákveðnar vísbend- ingar um hvert skuli leitað til þrau- tavara. Eins og frásögnin hér að ofan ber með sér er innlánatryggingakerfi ESB bæði einfalt og snjallt. Lítill kostnaður er lagður á innlánastofn- anir en innlánaeigendur geta full- komlega treyst því að fyrstu 20 þús- und evrurnar á reikningum þeirra hjá hverri innlánastofnun eru 100% öruggar. Gagnrýni byggð á misskilningi? Í kjölfar bankahrunsins á Íslandi hefur borið á gagnrýni á inn- lánatryggingakerfið, það sagt gallað og illa hannað. Þær fullyrðingar tel ég að hafi ekki verið rökstuddar með sannfærandi hætti. Að vísu má deila um hvort lágmarksupphæðin sem tryggð er sé of lág, enda hefur tilskipuninni nú verið breytt á þann hátt að lágmarkstrygginga- upphæðin verður 50 þúsund evrur frá og með 1. júlí 2009. Þessi upp- hæð mun síðar hækka í 100 þúsund evrur. Önnur vandkvæði sem upp hafa komið eru að mestu leyti tengd íslensku bönkum sem söfnuðu fé í pundum eða evrum í erlendum útibúum sínum. Vandinn sem snýr að íslenska tryggingasjóðnum er tvíþættur. Í fyrsta lagi virðist sem í tilfelli Landsbankans leiki veruleg- ur vafi á að nægilegt fé verði í þrotabúinu til að greiða forgangs- kröfur. Í öðru lagi skapar það ómæld vandræði að íslenski inn- lánatryggingasjóðurinn hefur tak- markaðan aðgang að erlendu fjár- magni. Í báðum tilfellum er við íslensk stjórnvöld að sakast. Fjár- málaeftirlitið íslenska og Seðla- banki Íslands áttu að hafa eftirlit með því hvernig Landsbankinn ráð- stafaði innlánum. Ennfremur var það og er í verkahring ríkisstjórnar Íslands og Seðlabanka Íslands að sjá til þess að gjaldeyrisvarasjóður og gjaldmiðilsstefna séu með ásætt- anlegum og ábyrgum hætti. Bretar og Hollendingar kusu að gera upp til bráðabirgða við breska og hol- lenska þegna í samræmi við skuld- bindingar hins íslenska inn- lánatryggingasjóðs af bresku og hollensku skattfé. Icesave- samningarnir snúast um það með hvaða hætti innlánatryggingasjóð- urinn endurgreiðir þær fjárhæðir. Á Evrópska efnahagssvæðinu hefur verið byggt upp einfalt, ódýrt og traust innlánatryggingakerfi. Það er á ábyrgð einstakra ríkja að byggja upp stofnanir kerfisins. Það er þá jafnframt á ábyrgð einstakra ríkja fari eitthvað úrskeiðis í þeim efnum. Eftir Þórólf Matthíasson » Innlánatrygging- arsjóður flýtir greiðslu sumra for- gangskrafna í þrotabú banka og er ætlað að fjármagna sig með eign- um slíks bús. Þórólfur Matthíasson Höfundur er prófessor í hagfræði við hagfræðideild Háskóla Íslands. Hagfræði innistæðutrygginga

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.