Saga - 1979, Qupperneq 248
Ritfregnir
Haraldur Sigurðsson: KORTASAGA ISLANDS FRÁ
LOKUM 16. ALDAR TIL 1848. 279 síður, 119 myndir á
textasíðum og 43 myndsíður yfir opnu með eftirprent-
unum af 40 kortum, þar af 14 í lit, útdráttur á ensku,
heimildaskrá, myndaskrá og nafnaskrá. Bókaútgáfa
Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins, Reykjavík, 1978.
Er fyrra bindið af kortasögu Haraldar Sigurðssonar, Kortasaga
Islands frá öndverðu til loka 16. aldar, kom út þótti mönnum sem
fáar bækur glæsilegri og vandaðri hefðu komið út á íslandi. Dómar
imi bókina, sem ég hef séð, allir eftir þekkta erlenda sérfræðinga
á sviði kortasögu (Crone 1972, Koeman 1972, Kejlbo 1972), eru mjög
lofsamlegir. Annað bindið, sem út kom síðastliðið haust, er ekki síð-
ur glæsilegt að ytra búnaði og einkennist, eins og fyrra bindið, af
ótrúlega víðfeðmum lærdómi og traustum, fræðimannlegum vinnu-
brögðum.
í fyrra bindinu leitaðist höfundur við að tína til öll þekkt kort af
íslandi, sem hann gat náð í, og gera nokkra grein fyrir þeim. í
þessu bindi verður hann að hafa annan hátt á: „Þegar kemur
fram á 17. öld, svo að ekki sé talað um síðar, vex gerð og prentun
korta og kortasafna svo gríðarlega, að þess var enginn kostur og
enn minni þörf að tína þar allt til. Annað var þá ekki til ráða en
að velja þau kort, sem helzt mörkuðu veginn og frekast urðu til
fyrirmyndar ...“ segir hann sjálfur í formála. En skilningur
höfundar á því, hvaða kort „mörkuðu veginn“ og „urðu til fyrir-
myndar“ er, sem betur fer, rúmur. Það er ekki líklegt að vænta
megi nokkurs, sem breyti þeirri heildarmynd, sem hér er dregin
upp af þróun íslandskorta á þessu tímabili.
Tímabilið, sem fjallað er um myndar eðlilega og rökræna heild.
Það hefst með birtingu nýrra og stórum bættra gerða Islandskorta,
sem eiga rætur að rekja til fyrstu tilrauna Islendinga sjálfra, sem
sögur fara af, að kortleggja sitt eigið land, þ.e.a.s. korts eða korta
frá hendi Guðbrands biskups Þorlákssonar, og því lýkur með út-
komu korts Björns Gunnlaugssonar, fyrsta nákvæma íslandskorts-
ins, sem byggir á mælingum, er spanna landið allt. Efninu er skipað
í tímaröð en þó er einnig höfð hliðsjón af tegund kortanna eins og
sjá má af efnisyfirlitinu: