Saga - 1991, Page 9
Björn Sigfússon
17. janúar 1905-10. maí 1991
Ef nýstúdent hætti sér inn fyrir dyr Háskólabókasafns á árunum upp
úr 1960 varð fyrst fyrir honum lestrarsalur með gangi eftir miðju, þar
sem nú eru afgreiðsla og spjaldskrár safnsins. Þar inn af voru aðrar
dyr, og fyrir innan þær var komið inn í sal með hilluröðum til hægri
en fremur óásjálegu afgreiðsluborði og dálitlu vinnurúmi til vinstri.
Ekki var öruggt að neinn væri staddur þar í svipinn, en sjaldan leið á
löngu áður en á vettvang snaraðist miðaldra maður, í meðallagi á hæð
með háan skalla, sérkennilega lifandi svip og áhuga í augum. Þar var
Björn Sigfússon kominn, tilbúinn að leysa hvers manns vanda af
atorku, eins og honum væri einmitt þessi vandi persónulegt áhuga-
mál. Það spurðist fljótt út meðal nýstúdenta, að minnsta kosti þeirra
sem lásu íslensk fræði, að Björn bjó yfir fróðleik og menntun til ann-
arra verka en snúast eftir bókum fyrir stúdenta. Hann var þá löngu
orðinn þjóðsagnapersóna fyrir þekkingu og minni og hafði unnið til
æðstu lærdómsgráðu í íslenskum fræðum sem Háskóli íslands bauð.
Björn Sigfússon var fæddur á Stóru-Reykjum í Reykjahverfi í Suð-
ur-Þingeyjarsýslu 17. janúar 1905, af þingeysku fólki í báðar ættir, og
ólst upp þar nyrðra. Hann lagði leið sína í Kennaraskólann og tók
kennarapróf árið 1928, en sneri sér þá að námi til stúdentsprófs og
lauk því utanskóla frá Menntaskólanum í Reykjavík árið eftir. Þá hóf
hann nám í íslenskum fræðum við Háskóla íslands og tók magisters-
próf árið 1934. Næsta vetur var Björn við framhaldsnám í Osló og
Kaupmannahöfn. Meðfram námi og næsta áratug á eftir lagði hann
stund á kennslu og ritstörf á vetrum, vakti meðal annars þjóðarat-
hygli með snjöllum þáttum um íslenskt mál í útvarpi, en stundaði
ýmsa verkamannavinnu á sumrin. En árið 1945 var hann skipaður
háskólabókavörður og gegndi því starfi í nær þrjá áratugi, til 1974.
Björn var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Droplaug Sveinbjarn-
ardóttir frá Viðvík við Stykkishólm. Þau eignuðust fimm börn, Hólm-
fríði skrifstofumann, Sveinbjörn háskólarektor, Sigfús prófessor í raf-