Saga - 1991, Page 97
LEIÐIN FRÁ HLUTLEYSI 1945-1949
95
Meðan svo stóð, gerði stjórnin ekkert til varnar landinu, eins og
Bjarni Benediktsson ýjaði að við Butrick sendiherra í nóvember 1948.
Butrick þurfti ekki lengur að sannfæra Bjarna um hættuna á skyndi-
árás, en hann vildi augsýnilega tala til þeirra ráðherra, sem enn voru
ekki vissir í sinni sök: íslendingar yrðu að átta sig á því, að landið
væri „varnarlaust". Því væri ekki að neita, „að eitthvað af hermönn-
um kynni af tilviljun að vera statt út á Keflavíkurflugvelli á Ieið til
Þýskalands, þegar í odda skærist, ef illa færi." En slíkir ferðalangar
hefðu hvorki „útbúnað eða æfingu til nauðsynlegra varna". Styrjöld
kynni að hefjast „skyndilega og fyrirvaralaust, og þá væri ekkert
öruggt til varnar nema það, sem áður hefði verið undirbúið beinlínis
1 því skyni." Menn væru að vakna til vitundar um þetta; „fjöldi
Islendinga víðsvegar að hefði snúið sér til starfsmanna [bandaríska]
sendiráðsins og látið uppi ótta sinn".
Hvað var til ráða? Utanríkisráðherra hafði séð í breskum blöðum,
aö stofna ætti „Norður-Atlantshafsvarnarbandalag" og bjóða íslend-
ingum þátttöku. Butrick hafði engin boð fengið um viðræður, en
Bjarni hafði greinilega eygt hér nýja lausn á vandanum, sem ríkis-
stjórnin hafði glímt við frá því um sumarið.80
Butrick taldi ekkert áhorfsmál, að íslendingar ættu að ganga í vænt-
anlegt bandalag, en gat það ekki orðið um seinan? Því fór fjarri, að
sendiherrann hefði verið að reyna að blekkja Bjarna Benediktsson,
þegar hann fullyrti, að Keflavíkursamningurinn veitti landinu litla
eða enga vörn. Þá um sumarið hafði hann látið yfirvöld í Washington
vita, að ríkisstjórn íslands ætlaðist til, að eitthvert herlið yrði tiltækt á
Keflavíkurflugvelli, ef í nauðir ræki. Enn sá hann þó engin merki
þess, að Bandaríkjaher væri að undirbúa varnir gegn skyndiárás eða
skemmdarverkum á flugvellinum. Butrick blöskraði þetta aðgerða-
leysi hersins engu síður en vangaveltur ríkisstjórnarinnar íslensku.
Hann rakti fyrir yfirboðurum sínum vísbendingar Dana um innrásar-
undirbúning Rússa. Hann fullyrti að hinar ískyggilegu upplýsingar,
sem danski boðberinn hefði miðlað til bandarískra og breskra sendi-
ráðsmanna, hefðu verið staðfestar enn frekar af erindreka njósna-
deildar Bandaríkjahers, Vestur-íslendingnum Ragnari Stefánssyni
majór, sem hér var skráður sendiráðsritari til málamynda. Til að verj-
GBB: Bjarni Benediktsson, minnisblað [8. nóv. 1948].