Saga - 1991, Page 150
148
GUNNAR KARLSSON
okkur nokkurn veginn við þau lengdarmörk sem okkur voru sett.
Aíleiðingin er sú að saga landnáms, stjórnskipunar, stjórnmála og
atvinnumála næstum fjögurra fyrstu alda byggðar í landinu er
afgreidd á 98 blaðsíðum. Kristni- og kirkjusaga sama tímabils fær ein-
ar 154 blaðsíður, eða rúmlega þriðjungi meira rúm. Bókmenntasaga
um það bil sama tíma þekur rúmlega 200 blaðsíður eða yfir helmingi
meira en almenn saga okkar Jakobs. Norska öldin, um 1262-1400, í
frásögn Björns Þorsteinssonar, Guðrúnar Ásu Grímsdóttur og
Sigurðar Líndals, tekur yfir 292 blaðsíður í þriðja og fjórða bindi. Par
er sagt frá nokkurn veginn sömu þáttum þjóðlífs og í sögu okkar
Jakobs, og má því reikna út að þau gefi hverju ári á norsku öldinni
rúmar tvær blaðsíöur þar sem við létum hverju ári nægja um fjórðung
úr blaðsíðu.
Þannig hlýtur ævinlega að fara þegar riti margra höfunda eru ekki
sett lengdarmörk í alvöru; það lengist ekki aðeins, það afbakast, verð-
ur eins og hús sem sífellt er byggt við og ofan á í trássi við upphaflega
teikningu. Jafnframt dregst útgáfan á langinn. Pað sem fyrst er skrif-
að verður æ úreltara, og því verður æ ógirnilegra fyrir unga og metn-
aðarfulla fræðimenn að ganga til liðs við verkið.
Pað gengur kannski ekki alveg nákvæmlega upp að segja að
skakkaföll þessara þriggja stórvirkja stafi öll af sömu ástæðu, en það
er ekki fjarri lagi. Þau hafa öll liðið fyrir oftrú á frumrannsóknir í
samanburði við það heildstæða sköpunarverk sem yfirlitsrit þarf að
vera. Menn hafa jafnan gert þá skyssu að halda að besta sagan verði
til við það að allir fróðustu sérfræðingarnir leggi hver sín fræði af
mörkum. Jafnan hafa menn vanmetið hlutverk ritstjóra.
Nú langar mig að taka tvö dæmi af öðru tagi sem eiga þó að styðja
staðhæfinguna sem ég setti fram í upphafi. Þegar ég var við nám í
íslenskum fræðum í Háskóla íslands, á árunum 1962-70, las Stein-
grímur J. Þorsteinsson fyrir okkur stúdenta sína fyrirlestra um bók-
menntir íslendinga frá því á 14. öld og eitthvað fram á þá 20. Jafnvel
á þeim tíma var ekki laust við að sumum nemendum hans fyndist að
hann væri dálítið gamaldags í aðferðum sínum, og sjálfur hefur hann
vafalaust þóst of skammt á veg kominn að rannsaka efni sitt til að gefa
fyrirlestrana út á prenti. Engu að síður gripum við nokkrir nemendur
hans til þess að vélrita það sem við höfðum skrifað upp í tímum
Steingríms. Við skiptum bókmenntasögunni upp á milli okkar, einir
sex talsins, bárum uppskriftir okkar saman og vélrituðum hver sinn