Saga - 1991, Page 253
RITFREGNIR
251
hópa og hugmynda. Til að skilja pólitíska refskák, jafnvel í litlum bæ eins og
Akureyri, verður að gera grein fyrir lagskiptingu á staðnum, jafnframt því
sem pólitíkin varpar ljósi á samtakamyndun og félagslega meðvitund íbú-
anna. Því miður gerir Jón hvorki alvarlega tilraun til að stéttgreina Akureyr-
inga, né dregur hann beinar niðurstöður af pólitískum deilumálum bæjar-
búa. Við rekumst að vísu á tölur um fjölda einstakra þjóðfélagshópa á víð og
dreif í textanum, en slíkt segir mér lítið um raunverulega stéttaskiptingu og
valddreifingu á staðnum. Eins sjáum við að kosningar vekja almennt lítinn
áhuga á Akureyri, á meðan hugmyndir um kirkjubyggingu fá mjög víðtækan
stuðning, þrátt fyrir að hún hafi haft í för með sér talsverð útgjöld. Greinilegt
er því að trú og kirkja skipuðu mun hærri sess í hugum fólks á Akureyri um
og eftir miðja 19. öld en það sem okkur finnst vera raunverulegt viðfangsefni
stjórnmála. Þessi staðreynd hefði mér fundist verð frekari umfjöllunar.
Hversu þverstæðukennt sem það kann að virðast, þá finnst mér Saga Akur-
eyrar vera of staðbundin um Ieið og hún gengur ekki nægjanlega út frá félags-
legum veruleika Akureyrar sjálfrar. Þannig er kaflaskipting bókarinnar mið-
uð við breytingar á lagalegri stöðu bæjarins, sem var ákvörðuð með stjórn-
valdsúrskurðum í Kaupmannahöfn, þó svo að breytingarnar hefðu lítil sem
engin bein áhrif á þróun Akureyrar. Hrynjandi frásagnarinnar fylgir því ekki
þróunarsögu bæjarins; langtíma ferli eru rofin og við missum yfirsýn yfir
þætti sem breyttust hægt í rás tímans. í bókinni er til dæmis ekkert yfirlit yfir
fólksfjölda í bænum yfir lengri tíma, sem verður enn bagalegra fyrir þá sök
að í öðrum hluta bókarinnar segir Jón íbúa bæjarins hafa verið 56 árið 1835
(94-95), en í þeim þriðja eru þeir sagðir hafa verið „í kringum eitt hundrað
1836" (99). Tenging tímabilanna tveggja (þ.e. 1776-1836 og 1837-62) er því
vægast sagt óljós. Á sama hátt eru hugtök í pólitískri sögu bæjarins aldrei
almennilega aðlöguð aðstæðum á Akureyri, heldur beint innflutt frá póli-
tískri umræðu 20. aldar. Notkun hugtaka eins og „frjálslyndi" og „þjóðernis-
kennd/tilfinning" veldur því að pólitísk hugsun Akureyringa og íslendinga
verður bæði þverstæðukennd og illskiljanleg. Athyglisverður mislestur for-
ráðamanna á Akureyri á kosningalögum bæjarins, sem olli því að maddama
Vilhelmína Lever kaus fyrst íslenskra kvenna í lýðræðislegum kosningum,
er til dæmis afgreiddur sem sambland misskilnings og frjálslyndis í garð
kvenna - sem óneitanlega stangast nokkuð á við aðra umfjöllun í bókinni um
stöðu akureyrskra kvenna á 19. öld. Misskilningur af þessu tagi ber að mínu
viti vott um ákveðinn skilning á stöðu kvenna sem stóðu fyrir sjálfstæðum
atvinnurekstri á íslandi. Hér var ekki um „frjálslyndi" að ræða, a.m.k. ekki í
þeirri merkingu sem ég legg í það orð, heldur merki um hvernig íslenskt
samfélag brást við þegar reglur um félagslegt misrétti stönguðust á. Kynferði
var ekki sjálfkrafa talið útiloka konur frá því að kjósa karla í bæjarstjórn, en
það átti auðvitað einungis við um þær fáu konur sem voru ekki undir húsaga
karla og uppfylltu að öðru leyti þær kröfur sem körlum voru settar um þátt-
töku í pólitísku lífi. Ég á líka erfitt með að átta mig á þjóðerniskennd Akur-
eyringa og annarra norðlendinga eins og hún birtist í Sögu Akureyrar. Baráttu
fyrir stofnun prentsmiðju á Akureyri skilur Jón sem vitnisburð um „vakn-
andi þjóðerniskennd fyrir norðan og austan" (211-12) eða um stórkostlega