SunnudagsMogginn - 21.08.2011, Blaðsíða 47
21. ágúst 2011 47
G
estir á Bókakaffinu á Selfossi fletta ýmist bók-
um eða vöfflum. Elín Gunnlaugsdóttir sér um
veitingarnar og nýju bækurnar, en í ytri saln-
um bóndi hennar Bjarni Harðarson um heim
fornbóka. Ranghalarnir eru fleiri, því salan fer einnig fram
á veraldarvefnum og fyrir örlagabókaorma liggur leiðin í
bílskúr handan götunnar. Skúrinn stendur við húsið hans
Denna á Sólbakka, eins og Bjarni kallar húsið sem hann
býr sjálfur í.
„Það hafa aldrei verið teknar myndir þar og hann er
náttúrlega hræðilegur,“ segir Bjarni með áherslum á rétt-
um stöðum, orðið hræðilegt verður alveg hræðilegt í hans
meðförum. Hann lætur sig hafa það að opna dyrnar fyrir
blaðamanni og ljósmyndara. Eins og nærri má geta blasa
við sneisafullar hillur af bókum – einn veggur í bílskúrn-
um alþakinn ævisögum.
„Ég á eftir að raða þeim í stafrófsröð,“ lýgur Bjarni blá-
kalt. „Ég hélt þær væru aðalmálið þegar ég byrjaði, en þær
hreyfast sáralítið. Merkar ævisögur seljast, eins og Árna
Þórarinssonar og Björns Eysteinssonar, en almennt er
dræm sala á ævisögum sem skrifaðar eru um fólk í lifanda
lífi. Það er skemmtilegt við fornbókaverslun að slíkar
bækur afhjúpa sig og verða í endursölu álíka merkilegar
og gömul tímarit, sem eru óseljanleg. Og kannski voru
þær aldrei meira en löng tímaritsviðtöl.“
– Hvaða bækur eru eftirsóttastar?
„Mikið er spurt um Guðrúnu frá Lundi. Og hraðasta
endurnýjunin er í rekkanum undir ljóðabækur, þar er líka
mest af bókum, þannig að út frá sjónarhóli kaupmannsins
er það arðbærasta hilla hússins.“
– En aðrar skáldsögur?
„Örfáir klassíkerar seljast, Laxness, Gunnar og Þór-
bergur, ákveðnar bækur Sigurðar A. og Fátækt fólk
Tryggva Emilssonar, sem reyndar er vafamál hvort er
ævisaga eða skáldsaga og það á líka við um ævisögu séra
Árna. Ágætir höfundar eins og Hagalín, Kristmann og
Guðmundur Dan. hreyfast ekki, en það er vakning í bók-
um gömlu kvenhöfundanna, Jakobínu, Málfríðar og
Svövu. En mest verðmæti eru í ljóðabókum, þjóðsögum
og fræðiritum, allt frá sagnfræði til rita sem reyna að
höndla sannleikann. Sumir kalla það andleg rit, sumir
nota óvirðulegri orð, sem ég ætla ekki að skemmta les-
endum með – spíritismi, sjálfsrækt og allt þetta sem þykir
ekkert voðalega bókmenntalegt.“
Hann teygir sig í bók í hillunni.
„Þetta er ósköp tilviljanakennt, ekki þarf annað en að
lesin sé saga í útvarpi, eins og Monika á Merkigili, þá
kemur fjöldinn og spyr eftir henni. Ég átti eitt stakt ein-
tak, seldi það og sagði nei við hina. Ég hálfsá eftir því, því
ég átti fjögur heil sett af Hagalín og tímdi ekki að selja
Moniku út úr þeim, fyrir vikið á ég enn þessi fjögur sett.“
Skyndilega rifjast upp fyrir Bjarna að ljósmyndari er í
bílskúrnum.
„Er ég eins og andskotinn nokkuð?“
Svo hristir hann hausinn.
„Nei, ég er bara eins og ég er.“
Ekki fer hjá því. Enginn flýr sjálfan sig.
Penni og blað gægist upp úr brjóstvas-
anum. Bækurnar vaxa á honum. Enn
teygir hann sig í bók: „Hérna er Theodór
Friðriksson, sjálfsævisaga hans er ein af
örfáum sem standast tímans tönn, enda heimild um eitt-
hvað sem er horfið.“
Þó að sumar bækurnar standist tímans tönn, þá gildir
ekki endilega það sama um hillurnar. Bækurnar sjálfar
stoðirnar, sumar svigna undan þunganum og í „asanum í
byrjun“ hrundu nokkrar í gólfið. En þá festi Bjarni upp
staura sem varna því að hillurnar hallist fram eða loftið
hrynji, sem farið er að síga undan bókastöflum. Bjarni
opnar dyrnar í innra herbergi með gryfju í gólfinu.
„Denni á Sólbakka byggði húsin, en þá var stefnan að
allir fylltu lóðirnar af kartöflum og væru með rollur,“
segir hann. „Denni sótti um fjárhús eins og aðrir. Gísli
Bjarnason frá Lambhúskoti í Tungum, velti umsókninni
lengi fyrir sér, en sagði á endanum nei, því Denni bjó við
Austurveginn. Þá endurnýjaði Denni umsóknina; hann
var vörubílstjóri, sótti um bílskúr með hlöðu og fékk. Nú
erum við í hlöðunni, sem varð um leið fjárhús og voru
grindur yfir gryfjunni. Þetta var því nútímalegt! Þegar ég
kom hingað fyrst voru enn lambaspörð í kjallaranum.
Þess vegna finnst mér við hæfi að nefna húsið bókhlöðu.“
Ósjálfrátt er hann kominn með bók í hendurnar.
„Þetta er dæmi um kláðabókmenntir,“ missir hann út
úr sér og flýtir sér að bæta við: „Þú mátt ekki hafa þetta
eftir mér í blaðinu.“ Of seint fram komið. Hann les á káp-
una: „Lífsgleði njóttu, bók um varnir gegn áhyggjum eftir
Dale Carnegie, hún selst alltaf. Það á líka við um Skugga
og Jóhannes Birkiland. Þeir seldust illa í lifanda lífi, tróðu
bókum sínum inn á menn og enginn vildi gefa þá út, en
urðu sígildir á jaðrinum. Þetta er bókaflokkur sem ég var
sjálfur svag fyrir, skrítnir kallar.“
– Enda höfundur Sigurðar sögu fóts!
„Hún sækir fyrirmynd í annað uppáhald hjá mér, ridd-
arasögurnar. Ég var spurður hvort þetta væri sunnlensk
beyging. Ég tel það, en jafnt sunnlensk sem íslensk. Beyg-
ingar voru ekki svona akkúrat fyrir tíma málvöndunar,
Benedikt Gröndal beygir aldrei nafn Egils bróður síns í
Dægradvöl, bara frá Egili, og var hann þó enginn aukvisi í
stíl. Ég man gamla menn í minni sveit sem
beygðu ekki Hjört í Austurhlíð og ekki bæinn
Gölt í Grímsnesi. Sama er með Sigurðar sögu
fóts, það er gömul alþýðleg beyging á heit-
inu.“
Hann færir til stiga til að ná í bækur.
„Hérna eru bækur sem bera vott um ís-
lenska bókmenningu, fallega innbundnir
þýddir alþýðureyfarar, gylltir og hvaðeina, oft nokkrar
bækur saman. Einu sinni rakst ég á Lilju Eysteins Ásgríms-
sonar með Rétti Íslendinga í ríkjasambandi við Noreg eftir
Boga Melsteð frá 1913 og sögunni um Alfred Dreyfus.“
– Það verður að nýta bókbandið!
„Já, og úr verður einstök bók alveg. Það er líka gaman
hvað maður sér stundum aftast í svoleiðis bókum. Kyn-
blöndnu stúlkuna hef ég séð tvisvar, það var allt að því
djörf bók um múlattastúlku á tímum þrælaverslunar. Ég
held að Jónas frá Hriflu hafi sagt að í þeirri bók megi finna
fleiri villur á einni blaðsíðu en annars í heilu bókasafni.
Hann var reiður yfir því að þjóðin læsi hana í stað Njálu, en
auðvitað er gott að lesa þetta allt í bland. Ég er með skúffu
úti í búð sem á stendur: Bannað börnum. Þar eru ekki
myndablöð, það þýðir ekkert að vonast eftir því, en þetta
er bókmenntagrein og miklu meinlausara en önnur teg-
und af …“
Hann klárar ekki setninguna.
„Kynblendingsstúlkan var önnur bók með svipaðan titil
en mun grófari,“ heldur hann áfram. „Við lásum velkt
eintak af innlifun úti í dæluskúr í Laugarási í Biskups-
tungum tólf ára, en síðan hef ég ekki séð hana. Nafnið er
svo líkt að ég var að velta fyrir mér hvort þetta væri sama
bókin og komst þá að því að Kynblendingsstúlkan var
svona hryllilega bönnuð að hún finnst ekki einu sinni í
Gegni. En eitt eintak hefur einhvern veginn sloppið upp í
Biskupstungur, þá heilögu sveit!“
Texti: Pétur Blöndal pebl@mbl.is
Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is
Síðasta orðið …
Bjarni Harðarson
Er ég eins og andskotinn nokkuð?
’
Eitt eintak
slapp í Bisk-
upstungur,
þá heilögu sveit!