SunnudagsMogginn - 11.09.2011, Blaðsíða 30

SunnudagsMogginn - 11.09.2011, Blaðsíða 30
30 11. september 2011 Þ að er erfitt að ímynda sér það en Svíþjóð var stórveldi Norður-Evrópu á 17. öld. Það var ekki brotið á bak aftur fyrr en nánast öll ríki Norður-Evrópu sameinuðust gegn Svíum í Norðurlandaófriðnum mikla frá 1700-1721. Það var ein- mitt á þessum degi, árið 1708 eftir stanslausa sig- urgöngu Svía, að niðurleið þeirra hófst. Þá var Karl XII Svíakonungur kominn langt inn í Rússland með ósigr- andi her sinn og horfði til Moskvu sem hann hafði ætlað að hernema. En á þessum degi sneri hann höfðinu og hernum við. Níu mánuðum seinna voru þeir sigraðir við Poltava og uppgangur Péturs mikla Rússlandskeis- ara hófst fyrir alvöru og hrun Svíaveldis varð algjört. Þessi uppgangur Svíþjóðar er sérdeilis skemmtilegur þegar litið er til þess að þetta var smáþjóð alveg fram á 16. öld enda voru Danir þá einráðir á Eyrarsundi, réðu Suður-Svíþjóð, Skáni, og þar bjuggu bara Danir. Litið var á Svíana sem sveitamenn og barbara í þessum skóg- um þarna fyrir norðan Skán. En þessir sveitamenn fyrir norðan fengu fjárhagslegan stuðning mikilla við- skiptavelda Hollendinga og Breta sem voru orðnir þreyttir á háum tollum sem Danir tóku af skipum sem ferðuðust inn á Eystrasaltið. Þessum viðskiptamönnum fannst það ágætisthugmynd að Svíar myndu taka Skán og þá myndi ekki lengur eitt land ráða Eyrarsundinu. Svíum tókst á endanum að leggja Skán undir sig. Nið- urlægðir Danir ákváðu að reyna fyrir sér í hinum hrika- lega ófriði Mið- og Norður-Evrópu sem nefndist 30 ára stríðið og stóð yfir frá 1618-1648. Þar börðust þjóðir Austurríkismanna, Tékka, Þjóðverja, Frakka og svo Norðurlandaþjóðirnar í trúarbragðastríði. Danirnir réð- ust inn í Þýskaland til að hjálpa mótmælendum gegn kaþólikkum en voru gersigraðir. Þá kom her sveita- manna frá Svíþjóð og öllum að óvörum gersigruðu Sví- arnir kaþólikkana. Í lok stríðsins urðu stór svæði í Þýskalandi sænsk. Undir lok aldarinnar voru þeir alls- ráðandi á Norðurlöndunum og áttu auk svæðanna í Þýskalandi svæði í Póllandi og réðu Eystrasaltsríkj- unum. Upphaf Norðurlandaófriðarins má rekja til metnaðar Péturs mikla Rússlandskeisara sem bjó til bandalag við konung Danmerkur og Ágúst II. konung Póllands, stór- hertoga Litháens og Yfirráðsmann Saxlands. Þeir réðust allir gegn Svíum en réðu ekkert við þá. Rússar settust um um mikilvægustu borg Svía í Eistlandi, Narva, með um 40.000 manna her. En Karl XII kom með 8.500 manna herlið frá Finnlandi og gersigraði Rússana. Karl þótti afbragðsherforingi en lélegur diplómat. Sænski herinn var mjög agaður á þessum tíma þótt hann væri fámennur og sýndi yfirburði á vígvellinum í öllum bar- dögum sínum. Þegar sex ár voru liðin af stríðinu og Svíar höfðu unnið allar orrustur sínar leit út fyrir að þeir myndu hafa sigur. Danir og Pólverjar höfðu verið þvingaðir til uppgjafar og aðeins Rússarnir stóðu eftir og vildu ekki gefast upp þótt þeir hefðu tapað öllum sínum bardögum. Þá ákvað Karl XII. að ráðast inn í Rússland og leggja undir sig Moskvu. En það var sama hversu margar orrustur Karl vann, Moskva var aðeins of langt í burtu fyrir hann. Á þessum degi árið 1708 sneri hann frá þeirri hugmynd og lagði af stað heim aft- ur. En heimleiðin var erfið þar sem hann var staddur í víðfeðmu Rússlandi. Rússarnir eltu hann uppi og í fyrsta skipti unnu þeir Svía í orrustu við Poltava árið 1709. Þá breyttist allt. Allir risu upp gegn Svíum og þrátt fyrir afburðahernaðarhæfileika Karls XII. mátti hann ekki við margnum og Svíar gáfust upp. Karl sjálf- ur lést í orrustu í Noregi árið 1718 enda er víst að hann hefði aldrei gefist upp. Það er talið að stríðsþreyttir Sví- ar hafi sjálfir skotið konung sinn í bardaganum. Enda gáfust þeir upp skömmu síðar og uppgjafarsamning- arnir voru undirritaðir árið 1721. borkur@mbl.is Metnaður smáþjóðar Við Narva gersigraði Karl XII 40.00 manna her Rússa með aðeins 8.500 manna liði. Öll Evrópa stóð á öndinni. ’ Níu mánuðum seinna voru þeir sigraðir við Poltava og uppgangur Péturs mikla Rússlandskeisara hófst og hrun Svíaveldis varð algjört. Þrátt fyrir hernaðarhæfileika Karls XII færði hann Svíum að- eins eymd. Talið er að hans eigin hermenn hafi skotið hann. Á þessum degi 11. september 1708 F átt er mikilvægara í þjóðfélagi, sem byggist á lýðræði en að farið sé að grundvallarreglum, þegar um stjórnskipan lýð- veldisins og æðstu stofnanir þess er að ræða. Þegar Ólafur Ragnar Grímsson, for- seti Íslands, beitti ákvæðum 26. gr. stjórnarskrárinnar snemma sumars 2004 notfærði hann sér ákvæði stjórnarskrár sem almenn samstaða hafði verið um frá lýðveldisstofnun að ekki yrði notuð og enginn forseti fram að því hafði gert. Í kjölfarið urðu harðar deilur en hins vegar engin samstaða á Alþingi um að breyta þessum ákvæðum stjórnarskrár af þessu tilefni. Þeir sem nú fara með stjórn landsins voru þá í stjórnarandstöðu. Þeir stóðust ekki þá freistingu að taka dægur- pólitíska afstöðu til grundvallarmáls. Þegar þeir hinir sömu stóðu frammi fyrir ákvörðun forsetans um að beita þessu ákvæði stjórnarskrár vegna Icesave gátu þeir ekkert sagt. Þar sem hann komst upp með ákvörðun sína 2004 án þess að lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar næðu samstöðu um að afnema ákvæðið var það þar með orðið virkt og er enn og verður þangað til því verður breytt. Þetta var skýrt dæmi um það, hvernig pólitísk tækifærismennska getur afvopnað stjórn- málamenn gersamlega. Þegar forsetinn tók sér fyrir hendur málsvörn fyrir íslenzku þjóðina á al- þjóðavettvangi á síðasta ári vegna Ice- save-málsins var hægt að velta því fyrir sér, hvort það væri hans hlutverk, eins og við höfum skilið og skynjað embætti for- seta fram að þessu. Hann gekk hins vegar inn í tómarúm vegna þess, að hvorki Jó- hanna Sigurðardóttir forsætisráðherra né Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráð- herra, leiðtogar stjórnarflokkanna, sinntu skyldum sínum í þessum efnum að nokkru marki. Ólafur Ragnar tók hins vegar að sér þessa málsvörn á þann veg að eftir var tekið úti um allan heim, hann gerði það vel enda öllum hæfileikum bú- inn til þess. Efasemdum var ýtt til hliðar vegna þess hversu mikilvægt þetta var fyrir þjóðina. En hann gekk út á yztu nöf að því er varðar stöðu og hlutverk forseta Íslands. Þegar forsetinn tók hins vegar til við að gagnrýna núverandi ríkisstjórn fyrir ves- aldóm og aumingjaskap í Icesave-málinu um síðustu helgi tel ég að hann hafi farið langt út fyrir þau mörk, sem embætti hans eru sett. Þó skal tekið fram að ég var sammála hverju einasta orði sem hann sagði um þátt ríkisstjórnarinnar í málinu. En það er aukaatriði. Aðalatriðið er að forseti Íslands er ekki beinn aðili að stjórnmálabaráttunni í landinu. Hann á ekki og má ekki blanda sér í dægur- pólitískar deilur með þeim hætti sem hann gerði fyrir viku. En það verður ekki aftur snúið. Ólafur Ragnar hefur örugglega ekki talað svona að óathuguðu máli. Hann er bersýnilega þeirrar skoðunar að svona eigi forseta- embættið að vera. Forseti eigi að geta skammað stjórnmálamenn við og við finnist honum tilefni til. Það er sjónarmið sem sjálfsagt er að ræða og raunar óhjá- kvæmilegt að ræða úr því sem komið er. Bjóði Ólafur Ragnar Grímsson sig fram á ný til forseta á næsta ári er ljóst að hann hlýtur að bjóða sig fram á þessum for- sendum. Hann hlýtur að gera íslenzku þjóðinni grein fyrir sínum sjónarmiðum, færa sín rök fyrir því að svona eigi að reka forsetaembættið og svona eigi forsetinn að geta talað telji hann tilefni til. Þá er auðvitað æskilegt að fram komi annar frambjóðandi eða aðrir frambjóð- endur sem hafi aðra skoðun á stöðu for- setaembættisins þannig að raunverulegar umræður fari fram í landinu um framtíð þess embættis. Það er of lítið um það í okkar samfélagi að fram komi frambjóð- endur sem hafi það ekki sízt í huga að kynna ákveðin sjónarmið, halda fram ákveðnum málstað, hvað sem líður þeim embættum sem um er að ræða. Þegar talsmenn núverandi stjórnar- flokka mótuðu sína afstöðu til 26. gr. stjórnarskrárinnar 2004 hugsuðu þeir ekki svo langt að kannski væri hægt að nota þessa grein gegn þeim sjálfum. En í umræðum um grundvallarmál, sem þessi, er mikilvægt að hafa í huga að það, sem snýr að einum í dag, getur snúið að öðrum á morgun. Og þótt nú sitji á Bessastöðum forseti sem kemur úr röðum vinstrisinn- aðra stjórnmálamanna getur sú stund runnið upp að þar komi maður úr annarri átt. Þess vegna m.a. er hyggilegt að fólk láti á móti sér að taka tækifærissinnaða af- stöðu til grundvallarmála eins og þeirra hver staða forseta skuli vera í stjórn- skipun okkar eða hvort það embætti eigi yfirleitt að vera til. Ólafur Ragnar hefur hins vegar boðið upp í þennan dans. Þess vegna finnst mér að það hafi verið röng afstaða hjá Álfheiði Ingadóttur, alþingismanni Vinstri grænna, þegar hún í samtali við Morgun- blaðið hvatti Ólaf Ragnar til að snúa sér að stjórnmálum á ný til þess að hægt væri að ræða við hann á jafningjagrundvelli um þessi mál. Hann hefur sjálfur boðið upp á þessar umræður með ummælum sínum um síðustu helgi og stjórnmálamenn og aðrir eiga ekki að víkja sér undan því að taka þátt í þeim. Það er bæði æskilegt og nauðsynlegt að í aðdraganda næstu forsetakosninga fari fram víðtækar og almennar umræður í samfélagi okkar um forsetaembættið, stöðu þess og hlutverk, hvort það eigi fyrst og fremst að vera valdalaust samein- ingartákn eins og það var hugsað eða hvort eigi að móta því annan ramma og annan grundvöll. Og þá þarf auðvitað að ræða 26. gr. sem slíka. Er eðlilegt að slíkt vald sé í höndum eins manns eða er eðlilegra og meira í takt við nútímann að ákveðinn fjöldi þjóð- félagsþegna geti knúið fram þjóðar- atkvæðagreiðslur um tiltekin mál. Og er kannski ástæða til að í stjórnarskrá séu ákvæði um að sum mál skuli alltaf bera undir þjóðaratkvæði. Forsetinn gekk alltof langt Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@mbl.is

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.