SunnudagsMogginn - 11.09.2011, Blaðsíða 17

SunnudagsMogginn - 11.09.2011, Blaðsíða 17
áhöldum sem notuð eru við björg- unarstörfin. Á þessu svæði er undarlega þögult – aðeins heyrast dynkir frá björg- unarstarfinu eða leitinni sem fer fram nokkrum húsaröðum neðar. Alvaran er allsráðandi, því þótt enn hafi ekki verið gefin upp öll von um að fólk finnist á lífi þá gera menn sér grein fyrir því að lík- urnar á því eru hverfandi. Eða eins og Kristján Tómas Ragnarsson, yfirlæknir á Mt. Sinai-sjúkrahúsinu, segir þegar ég næ sambandi við hann: „Annaðhvort sluppu menn heilir eða sluppu alls ekki.“ Dóttir Kristjáns Tómasar missti eig- inmann sinn í hryðjuverkaárásinni.    Á gangstéttinni við litla slökkvistöð í Litlu Ítalíu er mikið af blómum, þau liggja þar eða hallast upp að vegg stöðv- arinnar. Þar eru líka logandi kerti, handskrifuð skilaboð og hugleiðingar sem fólk hefur lagt með blómunum og myndir af brosandi slökkviliðsmönnum. Þeir hafa allir farist. Tvær konur halda utan um hvor aðra í súldinni og gráta. Önnur þeirra, Irene McMann, segir mér grátklökk að fimm manna sé saknað frá þessari litlu slökkvistöð og einn þeirra sé sonur hennar, Bobby. Hin kon- an, Amy Poll, er mágkona hans. „Bobby var búinn að vinna hér í níu ár,“ segir Irene. „Hann var 35 ára gam- all. Hann átti tuttugu mánaða gamlan son og konan hans á von á sér í janúar.“ Hún strýkur tár af kinn. „Þegar þetta gerðist var ég að passa strákinn hans, var að gefa honum morg- unmat og hafði sett eitthvert rokk á í útvarpinu. Honum finnst það svo gam- an,“ segir hún og smábros kviknar þegar hún segir frá sonarsyninum. „Svo leit ég á sjónvarpið og sá eldinn. Fyrst í stað var ég ekkert hrædd, þótt ég vissi að Bobby væri að vinna. Svo helltist óttinn yfir …“ „Guð gefi okkur styrk,“ bætir Poll við. Í þeim orðum sögðum kemur prestur aðvífandi, faðmar konurnar að sér og þær ganga með honum inn á slökkvi- stöðina.    Um alla Manhattan eru andlit á blöðum. Þau eru fest upp hér og þar: á ljósa- staurum, í símaklefum, á húshliðum, í gluggum verslana. Og þau eru hundr- uðum saman á minningastöðum sem hafa sprottið upp í görðum, á götuhorn- um og í jarðlestarstöðvum. Maður horf- ist í augu við sama fólkið aftur og aftur og allt eru þetta myndir frá ham- ingjustundum. Í lestarstöð undir Times Square er ég að rýna í myndir sem hafa verið límdar á súlu, með upplýsingum um fólkið og símanúmerum ættingja sem spyrja: hefur þú séð …? þegar ung kona brestur í grát við hlið mér. Hún hefur séð andlit vinar. Venjulega er Union Square-garður friðsæll staður með grænum flötum, fólk situr á bekkjum og spjallar og íkornar skjótast um. Strax að kvöldi ellefta sept- ember tók garðurinn að breytast í minn- ingareit þar sem fólk mætti hundruðum og þúsundum saman, kveikti á kertum og sameinaðist í sorginni. Settar voru upp myndir af þeim sem var saknað, fólk skrifaði hugleiðingar og orðsend- ingar og festi á girðingar, börn sem full- orðnir teiknuðu myndir og tónlistarfólk lék á hljóðfæri. Skilaboðin voru mörg og ólík; sumir vildu hefna, aðrir óskuðu sér friðar eða leituðu huggunar í trúnni: Guð var sofandi! Ekki fleiri morð í nafni Guðs. Sameinuð stöndum við, sundruð föll- um við. Guð blessi Ameríku. Stríð? Nei! Hin skínandi tákn okkar kunna að falla – en andinn mun sigra! Nýjustu englar Guðs. Sorg okkar er ekki krafa um stríð. Sum átakanlegustu skilaboðin voru skrif skólabarna og myndir sem þau höfðu teiknað. Oft teikningar af Tvíburaturnunum. Á sumum voru þeir að brenna eða flugvél að fljúga inn í þá. Börnin stíluðu bréfin gjarnan á slökkvi- liðsmenn borgarinnar og sögðu á ein- lægan hátt hvað þeim þætti leiðinlegt að svo margir þeirra skyldu hafa dáið við að bjarga öðrum. Önnur bréf voru per- sónulegri, eins og þetta: Farþegi á Staten Island-ferjunni horfir til Manhattan-eyju í New York þar sem reykjarmökkurinn frá rústum World Trade Center grúfir enn yfir, nokkrum dögum eftir árás hryðjuverkamannanna. Vinstra megin grillir í Empire State-bygginguna en hún er nú aftur orðin hæsta byggingin. Rústin: skelfileg og yfirþyrmandi sjón. Haugurinn eins og hann blasti við vegfarendum þegar aftur var opnað fyrir umferð fólks niður Broadway í fjármálahverfið. ’ Þegar seinni þotan kom vissum við að þetta var ekki slys. Allir öskruðu. Margir flýttu sér að loka búðunum. Svo hrundi fyrri turninn. Eftir að sá seinni fór lokuðum við. Og svo var bara að hlaupa eins hratt og maður gat. Ruslið var með ólík- indum, og reykurinn. Þetta var eins og í kvikmynd, bara verra.“ Morgunblaðið/Einar Falur Kæri litli bróðir – Þú getur ekki komið út á þessu ári. Allir flugvellir eru lokaðir. Ég er hrædd um að önnur flugvél muni springa. Jackie    Stjörnur og rendur – Stars and stripes. Þessa daga eftir hryðjuverkaárásina flagga Bandaríkjamenn þjóðfánanum hvar sem hægt er að flagga honum. Á hefðbundnum fánastöngum blaktir hann í hálfa en svo eru fánar á bílum, þeir eru utan á húsum, úr pappa eða taui, hanga frá svölum eða niður af gluggasyllum. Þeir eru í útstilling- argluggum verslana, bílskúrar hafa ver- ið málaðir í fánalitunum, bakarar gera kökur í fánastíl. Svo klæðast borgarar fánanum; eru með fánahálsklúta, fána- húfur og fánaslæður; björgunarmenn í rústunum hafa límt fánann á hjálmana, fánar standa upp úr bakpokum náms- manna. Svo ekki sé minnst á allar fá- naútfærslurnar á bolum og peysum. „Það er yfirþyrmandi að sjá þessa notkun á bandaríska fánanum; ég hef aldrei fyrr upplifað slíka þjóðern- iskennd hér,“ segir ljósmyndarinn kunni Mary Ellen Mark. „Hér eru allir lamaðir,“ segir Margrét Hjaltested víóluleikari sem býr í Queens. „Allir eru að takast á við sorg- ina og hver á sinn hátt.“ Viku eftir að Tvíburaturnarnir féllu fer ég inn á hverfisbar rétt við rústa- svæðið að fylgjast með George W. Bush Bandaríkjaforseta ávarpa sameinað þing og þjóðina í beinni útsendingu. Fólk fylgist grannt með ræðunni, margir taka undir og klappa þegar forsetinn lýsir áherslum sínum í baráttunni gegn hryðjuverkum. Annaðhvort eru þjóðir með Bandaríkjamönnum eða með hryðjuverkamönnum, segir hann. „Þetta er stríð, það er gott á þessa andskota,“ segir barþjónn. En ung kona er áhyggjufull á svipinn og segir að þetta sé bara upphafið á meiri hörm- ungum. Fólk er hrætt og óttast óvissuna. Það er enn að reyna að átta sig á því sem gerst hefur. Ummerkin eru svo sláandi; ekki þarf annað en fara á neðri hluta Manhattan og sjá viðbúnaðinn – her- menn á öllum götuhornum og skilríki fólks skoðuð. Þetta er eitthvað sem fólk bjóst ekki við að myndi gerast í þessu landi, í þessari borg frelsisins. Textinn er úr væntanlegri bók höfundar, Án vegabréfs – ferðasögur. Crymogea gefur út. 11. september 2011 17

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.