Saga - 2005, Page 14
12
EVA S. ÓLAFSDÓTTIR
bragði. Þegar komumenn bera eld að bænum er leitað eftir sáttum;
ekkert svar er hins vegar að fá frá höfðingja árásarmanna, Þorvaldi.
Hrafn óskar þá eftir að klerkar þeir er með honum voru syngi óttu-
söng. Þegar reykurinn fer að berast um bæinn biður Hrafn um að
konum og börnum séu veitt grið, auk þess sem hann býðst sjálfur
til að ganga suður og snúa aldrei aftur heim ef Þorvaldi sýndist
sómi sinn aukast þar af. Þorvaldur biður heimamenn þá um að
leggja niður vopn og gefa sig honum á vald, sem þeir og gera. Um
leið og Hrafn gengur út er hann handtekinn ásamt fleirum úr hans
hópi. Þorvaldur skipar svo fyrir að taka skuli Hrafn af lífi. Hann
óskar samstundis eftir prestsfundi og skriftar. En með skriftum
bættu menn Guði misgjörðir og sættust við almættið.12 Því næst fer
Hrafn með andlátsbænina og svo er bæn hans innileg að hann fell-
ir tár.13 Slík tjáning er afar algeng í játarasögunum og ber merki um
einlægni og djúpa iðrun Guði til dýrðar og vegsemdar. Iðrun var
grundvallaratriði skrifta. Hún afmáði sektina til fulls og hreinsaði
mannorðið. Iðrunin varð þó að vera full kærleika til Guðs. Prestur-
inn skar síðan úr um hvort veita ætti aflausn synda.14 Innileg bæn
og tár Hrafns sýna fölskvaleysi hans.
Eftir bænastundina er Kolbeinn Bergsson kvaddur til að vega
Hrafn. Hann harðneitar. Hér er á ferðinni nokkuð algengt minni í
Sturlungu þegar um aftökur merkra manna er að ræða. Höfðingj-
arnir skipa einhvern í böðulsstarfið og hinn útvaldi neitar eða geng-
ur tregur til verksins. Jafnvel hinir mestu vígamenn eiga síður en
svo auðvelt með að höggva varnarlausa liggjandi menn, einkum ef
þeir voru í miklum metum hjá almenningi. Tregðuna má eflaust
rekja til ótta þeirra við hefnd, veraldlega sem og að handan. Guð-
rún Nordal hefur bent á þrjár líklegar ástæður fyrir því að höfðingj-
ar sáu ekki um aftökur sjálfir heldur skipuðu undirmenn sína í böð-
ulsstarfið. í fyrsta lagi sýndu þeir þannig vald sitt, í öðru lagi vildu
þeir ekki vera dæmdir vígamenn í augum kirkjunnar og í þriðja
lagi beindist hefndin þá ekki eingöngu að þeim.15 Ekki er ólíklegt
að böðlarnir hafi óttast um afdrif sín tækju þeir af lífi sér merkari
12 Gunnar F. Guðmundsson, „Iðrun og yfirbót. Nokkur orð um skriftamál á
miðöldum", Líndæla. Sigurður Líndal sjötugur (Reykjavík, 2001), bls. 215.
13 Slurlunga saga I, Hrajns saga Sveinbjarnarsonar, bls. 243.
14 Gunnar F. Guðmundsson, „Iðrun og yfirbót. Nokkur orð um skriftamál á
miðöldum", bls. 221-222.
15 Guðrún Nordal, „Eitt sinn skal hverr deyja", bls. 80.