Saga - 2005, Page 21
HEIÐUR OG HELVÍTI
19
undir sér til að hætta á að þyrma lífi andstæðinganna. Þeir verða
því síðastir allra til að veita grið.
Þegar Sturla er lagður að velli hefur Kolbeinn Sighvatsson,
bróðir hans, forðað sér á hlaupum inn í kirkju á Miklabæ. Hann
hefst þar við ásamt liði sínu. Gissur kemur til kirkjunnar og gefur
öllum mönnum grið nema sex. Kolbeinn biður Sturlu Þórðarson,
föðurbróður sinn, um að biðja sér griða „og bjóða það allt fyrir
hann er honum sómdi til lífs að vinna. Hann bauð utanferð sína og
koma aldrei út. En ekki var á það litið."44 Kolbeinn fær leyfi til að
ganga til náðhúss og þegar hann gengur í gegnum skálann hittir
hann fyrir menn sína, þá sem höfðu fengið grið. Þeir fagna honum
vel en hann svarar biturt: „Víst er það vel en þó höfum vér eigi
griðin fengið."45 Þegar hann gengur út á vit örlaganna spyr hann
þá er inni voru hvort þeir vilji ganga út og sjá stór högg. Hans síð-
asta ósk er að vera höggvinn á undan Þórði bróður sínum. Hvorki
er minnst á skriftir né að óskað hafi verið eftir prestsfundi. Við-
brögð Kolbeins litast af beiskju. Hann bauð allt fyrir lífið en var
hafnað.
Þórður Andrésson er einn andstæðinga Gissurar síðar í íslend-
inga sögu. Hann er meðal þeirra veraldlegu manna sem sveiflast á
milli umræddra þriggja skauta; þess að taka dauða sínum hetju-
lega, kristilega og síðast en ekki síst að vilja gefa allt fyrir lífið. Frá-
sögnin er umfangsmikil að sama skapi og dauðalýsingar þeirra
höfðingja sem þegar hefur verið greint frá. Þórður og bræður hans
hafa allir átt í illdeilum við Gissur. Þórður hefur illt hugboð um
hvernig málum muni lykta og kvöld eitt fær hann óstöðvandi kláða
í hálsinn. Slíkir fyrirboðar eru algengir í sögunni og eru að því er
virðist notaðir markvisst í stigmögnun frásagnarinnar. En þar að
auki staðfesta þeir örlagatrúna sem felst í því að enginn megi sköp-
um renna. Þegar mál þeirra bræðra hafa verið lögð í hendur Giss-
uri, sem hefur séð fyrir griðum, veit Þórður að dagar hans eru tald-
ir: „Eg mun drepinn verða."46 Hugboð um eigin dauða voru þekkt
minni fram eftir öldum. Samkvæmt Philippe Ariés, sem skoðað hef-
ur dauðalýsingar frá miðöldum til nútímans, þá virðist þessi til-
finning manna fyrir eigin endalokum langt fram eftir öldum vera
gegnumgangandi minni í frásögnum af mönnum sem liggja fyrir
44 Sturlunga saga I, íslendinga saga, bls. 423.
45 Sturlunga saga I, íslendinga saga, bls. 423.
46 Sturlunga saga II, íslendinga saga, bls. 755.