Saga - 2005, Page 22
20
EVA S. ÓLAFSDÓTTIR
dauðanum. Menn vissu einfaldlega hvenær dauðann bar að
garði.47 Á þessari stundu er ljóst að Þórður hefur misst móðinn.
Hann treystir ekki á griðin enda hafði hann áður sagt við bræður
sína og aðra vini að „þá mundi hann feigur ef hann tryði Gissuri
jarli."48 Hann kveður dansinn „Mínar eru sorgir þungar sem
blý."49 Þegar Gissur jarl kemur í stofudyr, þar sem þeir bræður
höfðust við, þá segir hann í sundur griðin og bætir við að þeir
verði allir drepnir. Bræðurnir taka vopn og berjast úr stofunni en
gefast fljótt upp eftir að hafa verið grýttir. Þeir óska þá eftir prests-
fundi og taka menn að biðja þeim griða. Á endanum fengu allir
grið nema umræddur Þórður. Gissur kvað annan hvorn þeirra
verða að deyja:
Þórður mælti þá: „Þess vil eg biðja þig Gissur jarl að þú fyrir-
gefir mér það er eg hefi af gert við þig."
Gissur jarl svarar: „Það vil eg gera þegar þú ert dauður."
Sigurðr jarlsmaður helt á treyjublaði Þórðar. Þórður drap
hendi hans af sér og varð laus og ætlaði að taka á rás. Þá tók
hann Andrés Gjafvaldsson og féllu þeir báðir. Þá lagðist Þórð-
ur niður annars staðar og rétti hendur frá sér í kross. Geir-
mundur þjófur hjó á háls Þórði.50
Enn er Gissur grimmastur í hefndinni. Hann fullvissar sig um að
erkióvinirnir séu drepnir. Þórður gerir mislukkaða flóttatilraun.
Sigraður býr hann sig undir dauðann með hinsta hjálpræði deyj-
andi manns: hann krossleggur hendur.51
í dauðalýsingum kristinna manna er tákn krossins oft notað. En
samkvæmt Norsku hómilíubókinni merkja krossar meinlætismenn
sem bera píslarmark Krists á líkamanum.52 Krossirtn er sagður öll-
um helgum dómum helgari og af honum helgast öll kristni og sú
þjónusta er tengist helgum anda. Krossinn tengist vígslu, skriftum
og pínsl Krists.53 Öllum þeim sem gera krossmark yfir sér eða öðr-
47 Philippe Ariés, The hour of our death (New York, 1991), bls. 6-7 og Philippe
Ariés, Dodens historie i Vesten: fra middelalderen til nutiden (Árósum, 1986), bls.
72,154-159.
48 Sturlunga saga II, íslendinga saga, bls. 754.
49 Sturlunga saga II, íslendinga saga, bls. 755.
50 Sturlunga saga II, íslendinga saga, bls. 756.
51 Gunnar F. Guðmundsson, „Iðrun og yfirbót. Nokkur orð um skriftamál á
miðöldum", bls. 222.
52 Gamal norsk homiliebok, bls. 97.
53 Gamal norsk homiliebok, bls. 105.