Saga - 2005, Page 32
30
EVA S. ÓLAFSDÓTTIR
aldar. Ofbeldi aldarinnar getur því ekki flokkast undir einberan
veraldlegan þátt. Hetjuskapur og kristindómur runnu saman á víg-
vellinum. Vígamaðurinn og píslarvotturinn áttu það sameiginlegt
að bera af sér sársauka og taka dauðanum með stillingu.92 Ávinn-
ingur bardagamannsins var ævarandi orðstír en píslarvotturinn
hlaut bæði velþóknun Guðs og manna.
Flestar dauðalýsingar Sturlungu bera vott um ofangreindar
þversagnir þar sem ólíkum hugmyndum er skeytt saman. Það
bendir til þess að menn hafi haft misjafnar hugmyndir um hvað var
við hæfi og hvað ekki hverju sinni. Ljóst er að frásögn er mótuð af
skrifara og þar af leiðandi undir miklum áhrifum frá skoðunum
hans og þekkingu á hinum ýmsu fræðum. Engu að síður er hún svo
fjölþætt og bregður í svo mörgu frá sagnahefð að hún hlýtur einnig
að vera stórlega lituð af raunverulegum atburðum og ríkjandi hug-
myndum. Sé miðað við hvort tveggja má gera ráð fyrir reikandi af-
stöðu í samfélaginu til hefða og siðaboða.
Siðferði og samfélag
Þrátt fyrir linnulausan ófrið bera sögur Sturlungu engu að síður
glögglega vitni um þrá manna eftir friði. Ávallt koma menn við
sögu sem ekki finna fróun í hefndinni.93 En mannlegur breyskleiki
virðist iðulega leiða til átaka. Deilur má yfirleitt rekja til fjárhags-
legs tjóns, svo sem vegna peninga, arfs, lands, þjófnaðar eða goð-
orðs.94 Heimskir menn, skammsýnir eða ágjarnir og valdagráðugir
stofna til illinda. Ójafnaðarmenn eru ávallt til ama. Sáttfýsi kristn-
innar hefur styrkt andúð manna á slíkum mönnum.95 En þegar ekk-
ert ríkisvald er fyrir hendi til að útkljá deilumál verða menn sjálfir
að finna leið til að viðhalda heiðri ættarinnar því að án hennar eru
þeir einskis metnir og fullkomlega berskjaldaðir. Þegar kemur að
því að verja sóma skyldmenna þá vegur líf eins ekki þungt ef
orðstír ættarinnar er í veði.96 Menn voru almennt orðsjúkir og við-
92 Gunnar F. Guðmundsson, Kristni á íslandi II, bls. 67.
93 Einar Ólafur Sveinsson, The Age ofthe Sturlungs, bls. 129.
94 Guðrún Nordal, Ethics and action in thirtcenth-century lceland (Óðinsvéum
1998), bls. 147.
95 Vésteinn Ólason, íslensk bókmenntasaga II (Reykjavík, 1993), bls. 78.
96 Vésteinn Ólason, íslensk bókmenntasaga II, bls. 76. — Sjá einnig Gro Steinsland,
Eros og dod i norrone myter (Ósló, 1997), bls. 99.