Saga - 2005, Page 86
84
JÓSEF GUNNAR SIGÞÓRSSON
jafnframt að siðferðileg afstæðishyggja og þekkingarfræðileg efa-
hyggja geti myndað grundvöll fyrir samfélagslegt umburðarlyndi
og jákvæða viðurkenningu á mismunandi skoðunum. Þetta viðhorf
beinir um leið sjónarhorninu að sögunni sem sögu eigin samtíðar.6
Hvað sem mönnum kann að finnast um það kennimið þá er eitt að
minnsta kosti ljóst: Ef sagnfræðin á að standa undir nafni sem lif-
andi fræðigrein þá hlýtur hún að verða að vera í gagnvirku sam-
bandi við eigin samtíma.
Hin póstmóderníska (relatívíska) sýn á veruleika nútímans
framkallar vissar vangaveltur og spurningar um stöðu og eigin-
leika fortíðarinnar: Átti hún sér stað á öðrum og heildstæðari for-
sendum en hin relatívíska samtíð, til dæmis vegna hægari þjóðfé-
lagsbreytinga og kyrrstæðari samfélaga, eða er kannski túlkun
fræðimannsins á fortíðinni dæmd til að markast fyrst og fremst af
gildum og þekkingarfræði hans eigin samtíðar? Til að leita svara
við þeirri mikilvægu spurningu hlýtur hver og einn að þurfa að
taka meðvitaða afstöðu til þeirrar veruleikasýnar sem hugtakið
póstmódernismi vísar til, hvort sem hann vinnur með þeirri sýn
eða á móti í eigin fræðimennsku. Ég veit að margir fræðimenn eru
sammála mér í því að skilin á milli skáldskapar og veruleika séu
ekki eins skýr og skilmerkileg og löngum var talið7 og það setur
markalínur innan fræðanna um leið í visst uppnám. En kannski má
segja að bókmenntafræði og sagnfræði mætist í þeirri hugmynd að
saga/ samfélag/þekking/merking séu „mannvirki" á sama hátt og
bókmenntir/skáldskapur, enda gera ólíkar túlkanir á textum það
að verkum að merking þeirra breytist iðulega í tímans rás og þar
með þeir sjálfir, að minnsta kosti í viðtökufræðilegum skilningi.8
6 Keith Jenkins, Re-thinking history (London og New York, 1991), bls. 66, 68, 70.
7 Um vangaveltur íslenskra fræðimanna af þessum toga má t.d. lesa á eftirfar-
andi stöðum: Helgi Ingólfsson, „Satt og logið — Sagan og bókmenntimar,"
Sagnir 22 (2001), bls. 120-121; Már Jónsson, „Setningar og söguþræðir. Eða um
sagnfræði, skáldskap og bókmenntafræði," Sagnir 14 ( 1993), bls. 63-66; sami,
„Spuni og saga," Tímarit Máls og menningar 3, 51 (1990), bls. 103-110; Sigurður
Gylfi Magnússon, „Magnús og mýtan," Kraftbirtingarhljómur guödómsins. Dag-
bók, sjálfsævisaga, bréf og kvæði Magnúsar Hj. Magnússonar, skáldsins á Þröm
(Reykjavík, 1998), bls. 84-97; Svavar Hrafn Svavarsson, „Skáldleg sagnfræði,"
Saga XXXIV (1996), bls. 255-271.
8 Hugmyndir manna um fortíðina em stöðugt að breytast sem gefur sterklega til
kynna að sagnfræðiiðkun mótist ekki síður af eigin samtíð en heimildum um
fortíðina. Þetta kemur oft vel fram í viðtökufræðilegum rannsóknum þar sem
túlkanir manna á sömu textum um sömu atburði eru iðulega breytilegar frá