Saga - 2005, Page 89
SAGAN SEM SJÓNARHORN
87
byggingunni að draga algerlega í efa þá hugmynd að textar búi yfir
forákvarðaðri, hlutlægri merkingu. Hún gengur þó miklu skemur í
niðurrifi á gildum hefðbundinna hugvísinda en flestar póststrúkt-
úralískar kenningar gera. Iser telur að með því að skoða og setja
túlkunarfræðina sjálfa í sögulegt samhengi séu fræðimenn loksins
farnir að átta sig betur á eigin takmörkunum. Allt of lengi hafi ver-
ið horft fram hjá því sem skipti meginmáli, staðnum þar sem text-
inn/verkið öðlast líf, það er hjá lesandanum. Á meðan megináhersla
var lögð á jafn ólíka þætti og höfundarætlan, á samtíma- eða sögu-
lega merkingu, og síðar á formgerð textans var eins og flestir litu
fram hjá þeirri augljósu staðreynd að texti hefur aðeins merkingu á
meðan hann er lesinn. Þessu hafi menn tekið sem sjálfsögðum hlut
án þess að skoða nánar hvað fælist í þeirri staðreynd að lestur væri
nauðsynlegt frumskilyrði allrar textatúlkunar.10 Iser leggur megin-
áherslu á að í bókmenntafræðilegum athugunum sé ekki nóg að
fást við bókmenntatextann sjálfan því að jafn mikilvægt sé að skoða
þá virkni sem framkallast við viðtöku hans. Það má jafnvel sjá fyrir
sér að bókmenntaverk hafi tvo póla sem báðir hafa áhrif á merk-
ingu þess: í fyrsta lagi hinn listræna (artistic) þar sem áherslan er
lögð á textann og þar með á verkið sjálft, og í öðru lagi hinn fagur-
fræðilega (aestethic) er snýr að lesandanum11 og þeirri merkingu
sem hann les úr og gefur verkinu. Þannig hlýtur verkið alltaf að
vera meira en bara textinn því það öðlast ekki líf fyrr en það lifnar
við í huga viðtakandans.
I stuttu máli má segja að merking verks verði til í þeirri virkni
sem myndast á milli textans og lesandans og getur hvorugur án
hins verið í þeirri merkingarmyndun, en viðtakandinn/lesandinn
og skynheild (gestalt) hans er þó alltaf í forgrunninum; væntingar
viðtakandans til verksins eru alltaf einhverjar þegar hann hefur
lesturinn og þær, og jafnframt gildismat hans og reynsluheimur,
hafa áhrif á útkomuna. Það sem viðkomandi les hafnar einhvers
/course/engl341/weekl/present.htm (7/5 2003); Wolfgang Iser, The Act of
Reading: A Theory ofAestethic Response (Baltimore og London, 1980).
10 Wolfgang Iser, The Act ofReading, bls. 20.
11 Hugtakið lesandi (reader) er grundvallarhugtak í kenningum Isers og hefur
miklu víðtækari skírskotun en felst í hefðbundnum skilningi þess orðs. Les-
andinn myndar miðju rannsóknarinnar hverju sinni sem viðtakandi og þegar
hann tjáir sig á einhvem hátt um merkingu texta verður í raun til nýr „frum-
texti" um merkingu hans. Nánari útlistun Isers á lesandahugtakinu má finna
í The Act of Reading, bls. 27-38.