Saga - 2005, Page 93
SAGAN SEM SJÓNARHORN
91
byggir merkingu textans sjálfur út frá eigin gildismati og samtíma,
rétt eins og sagnfræðingurinn. I strangasta skilningi má segja að
hlutverk sagnfræðingsins byggist á fjarveru viðfangsefnisins og
þess vegna séu bæði ritun og viðtökur á sagnfræðilegu efni meira
og minna fastar á plani eigin samtíðar.
Framangreindar viðtökukenningar Isers hafa legið til grund-
vallar flestu því sem hann hefur sent frá sér á síðari árum, svo sem
bók hans The Range of Interpretation (2000). Þar leitast hann við að
varpa ljósi á þau form sem túlkun getur tekið á sig, meðal annars
innan sagnfræðinnar. í stuttu máli má segja að Iser telji mannkyns-
söguna (þ.e. hina skráðu sögu og jafnframt hugmyndir manna um
sögulegan veruleika) gott dæmi um fyrirbæri sem dæmt er til að
framkallast í gegnum túlkun, einfaldlega vegna þess að hún hefur
enga sjálfsnærveru og nærvera hins sögulega veruleika byggist á
stöðugri afhjúpun og sköpun þess sem þeir sem túlka og skrásetja
fortíðina telja miðlægt. Um leið á túlkun sér alltaf stað undir sögu-
legum kringumstæðum sem enginn kemst undan. Til dæmis gefa
þau hefðbundnu sögulegu „minnismerki" sem til staðar eru hverju
sinni til kynna hvernig eigi að hugsa um og umgangast sögulegar
staðreyndir, og þannig er gert ráð fyrir að viss sögulegur efniviður
sé settur í tiltekið samhengi. Og sagnfræðingurinn stendur ekki að-
eins frammi fyrir óáreiðanlegum brotum fortíðarinnar í rannsókn-
um sínum heldur líka frammi fyrir fortíð sem hefur verið „hugs-
uð", og þar með þýdd/túlkuð, á þeim tíma sem hún átti sér stað.
Iser telur túlkunarferlið hafa breyst mikið eftir að algildishug-
myndir um heiminn og maiminn fóru að brotna upp og þar með
það kennivald sem löngum var talið að textar byggju yfir. Þegar
ekki var lengur hægt að ganga að því sem gefnu að formgerð skyn-
seminnar (reason) væri nauðsynlegur grundvöllur sannleikans þá
var skynsemin sjálf orðin rannsóknarefni. Þegar höfundur og við-
takandi áttu ekki lengur sameiginlega þessa merkingu utan textans
(the truth-providing reason) hlýtur hver einasta setning sem ekki
kemur frá einstaklingnum sjálfum að kalla á þýðingu (translation).18
Með þessum röksemdum má segja að Iser hafi náð mannkynssög-
unni niður á sértækt, fyrirbærafræðilegt plan sem fyrst og fremst er
hægt að skoða út frá hinu einstaka, enda er sagan sjálf alltaf fjarver-
andi.
18 Wolfgang Iser, The Range of Interpretation (New York, 2000), bls. 6, 44-46,
56-57, 64-65.