Saga - 2005, Page 102
100
JÓSEF GUNNAR SIGÞÓRSSON
hugtakið út frá sjónarhorni sem hlýtur að teljast nýstárlegt í íslensk-
um fræðaheimi. Meginmarkmið hans er að lýsa því hvernig höf-
undurinn tekur við af hetjum íslensku fornsagnanna sem aðalper-
sóna íslenskrar menningarsögu. En höfundarhugtak Jóns Karls er
ekki einsleitt fyrirbæri og vísar bæði til hinna óþekktu höfunda
fornsagnanna og þeirra höfunda (s.s. skálda, fræðimanna, mynd-
listarmanna, tónsmiða og stjórnmálamanna) sem mótað hafa ís-
lenska nútímamenningu. Hann telur að enginn einn höfundur hafi
átt jafn stóran þátt í þessari valdatilfærslu frá hetju til höfundar og
Halldór Laxness, sem hafi í vissum skilningi tekið við þeirri stöðu
sem Gunnar á Hlíðarenda hafði í þjóðarvitundinni. Þessi tilfærsla
tengist glímu íslendinga við eigin sjálfsmynd og markmiðum þjóð-
arinnar á 19. og 20. öld þar sem hetjan tengist ímynd sjálfstæðisbar-
áttunnar en höfundurinn blómlegu mennta- og menningarlífi. Jón
Karl byggir röksemdafærslu sína að mestu á margvíslegum viðtök-
um Njálu innan íslenskrar menningar. Írónískt svar hans við því
hver sé höfundur hennar er líka á viðtökufræðilegum nótum. Hann
færir rök fyrir því að samtímalegur höfundur sögunnar sé Einar
Ólafur Sveinsson, því að fræðileg útgáfa hans á Njálu í útgáfusafni
íslenskra fornrita hafi frá útkomu leikið hlutverk opinbers frum-
texta sögunnar. Rit og ritgerðir Einars um Njálu séu auk þess svo
yfirgripsmikil og áhrifarík að varla sé hægt að fjalla um söguna án
þess að taka tillit til þeirra. Jóni Karli þykja raunar svörin við spurn-
ingunni um raunverulegan/mögulegan höfund ekki eins áhuga-
verð og spurningin sjálf, það er að mönnum þyki svo mikilvægt að
bera kennsl á höfundinn, og hann telur að miðlægni höfundarhug-
taksins í íslenskri bókmenntaumræðu megi tengja sambærilegri
framvindu í öðrum vestrænum löndum.31
Hérlendis hafa umræður um viðtökur og viðtökufræði ekki ver-
ið áberandi innan sagnfræðinnar sem raunar er mjög skrýtið þegar
horft er til þess að greinin snýst meira og minna um viðtökur á
gömlum textum og textatengdu efni. Þess ber þó að geta að aðferð-
31 Jón Karl Helgason, Hetjan og höfundurinn. Brot úr íslenskri menningarsögu
(Reykjavík, 1998), bls. 11-13,171-172, 220. Svipuðu kennimiði beitir Jón Karl
í bók sinni, Höfundar Njálu. Þræðir úr vestrænni menningarsögu (Reykjavík,
2001); þar beinir hann hins vegar athyglinni að endurritun Njálu erlendis og
þá sérstaklega í hinum enskumælandi og norræna menningarheimi. Einnig
mætti benda á óvenjulega umfjöllun hans um „beinamál" Jónasar Hallgríms-
sonar skálds sem er á viðtökufræðilegum nótum í bókinni Ferðalok. Skýrsla
handa akademíu (Reykjavík, 2003).