Saga - 2005, Page 104
102
JÓSEF GUNNAR SIGÞÓRSSON
Gunnar sækir margt til bókmenntafræðilegrar viðtökufræði í þess-
ari kenningu sinni. í stuttu máli þá gengur hann út frá því að sagn-
fræðileg merking grundvallist á tengslum fortíðar (heimilda), höf-
undar og viðtakenda. Sannleikurinn tekur á sig (og á að taka á sig)
ólíkar myndir eftir því hverjum hann er ætlaður. Sagnfræðingurinn
(höfundurinn) á ekki að reyna að skrifa fyrir alla, heldur að ímynda
sér tiltekinn viðtakendahóp og skrifa um það sem hann telur að eigi
erindi þar. Sagnfræðingurinn á að velja staðreyndir með það í huga
að lesandinn komist að sömu niðurstöðu og hann myndi gera ef
hann vissi allt það sem sagnfræðingurinn veit.34 Þannig virðist við-
tökukenning Gunnars snúast um forákvarðaðar viðtökur, sem
ganga gegn forsendum viðtökufræðinnar og þeirri upplausn á
hlutverki og ætlun höfundar sem henni fylgja. Það má kannski
segja að hann hafi endurreist ætlun og kennivald höfundarins í
mynd sagnfræðingsins. Þetta beinir líka sjónarhorninu að sagn-
fræðinni sem iðju eigin samtíðar, enda skuli efnistök fræðimanns-
ins miðast við væntanlegar viðtökur. En þó að góður sagnfræðing-
ur kunni að hafa trausta og yfirgripsmikla samfélagssýn, og betri
menntun til lesturs á eigin samtíð en margur annar, þá leyfi ég mér
að efast um möguleika hans til að ákvarða með eigin efnistökum
fyrirfram með afgerandi hætti tengslamyndun milli heimilda/ for-
tíðar og lesenda/viðtakenda sinna.
Af framangreindu ætti að vera ljóst að þýðing höfundarhug-
taksins eða ígildis þess er fremur „fljótandi" innan fræðanna og
höfundurinn hefur vissulega átt undir högg að sækja, ekki síst í
þeim greinum sem tengjast bókmenntafræðinni.35 Það má segja að
merking höfundarhugtaksins sé hvað augljósust í orðræðu bók-
menntanna þar sem það stendur yfirleitt fyrir tiltekin gildi hjá
kunnum höfundum sem gefa lesandanum til kynna á hverju hann
á von, gefur honum hugmynd um gæði þess verks sem hann er
34 Gunnar Karlsson, „Reader-relativism in history," Rethinking history 1:2 (1997),
bls. 151-163; „Svar afstæðissinna við póstmódemismanum." Fyrirlestraröð
Sagnfræðingafélagsins vorið 2000 um póstmódernisma og íslenska sagn-
fræði: http://www.kistan.is.
35 Bæði strúktúralisminn og nýrýnin (new criticism) leggja alla áherslu á þá
merkingu sem bundin er í texta hvers verks, og póststrúktúralisminn gefur
yfirleitt lítið fyrir höfundarætlan eins og fram hefur komið. Frægustu „yfir-
lýsinguna" um fjarveru höfundarins frá merkingu eigin texta er sennilega að
finna í grein Rolands Barthes, „Dauði höfundarins," Spor í bókmenntafræði 20.
aldar, bls. 173-180.