Saga - 2005, Page 124
122
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
Helga sakar mig um stórfelldan ritstuld, þar eð ég hafi nýtt mér
ýmsa texta þeirra Laxness og Peters Hallbergs (og raunar margra
annarra) án þess að vísa nógu oft og nákvæmlega í þá. Hér á eftir
leiði ég rök að því, að ásakanir hennar um ritstuld séu rangar og
raunar fáránlegar, þótt vissulega megi bæta vinnubrögð mín eins
og margra annarra. Helga er starfsmaður erfingja Laxness, sem
hafa reynt eftir megni að koma í veg fyrir, torvelda og tefja það, að
ég skrifaði bók um skáldið. Er ritgerð hennar útdráttur úr skýrslu,
sem hún tók saman fyrir þá um verk mitt.3 Þetta mál snýst um
rannsóknafrelsi fræðimanna, en gefur líka tilefni til hugleiðinga um
ritstuldarhugtakið og vinnubrögð ævisagnahöfunda, sem eiga fullt
erindi til lesenda Sögu.
Helgu þáttur Kress
Ritgerð Helgu Kress í Sögu er ekki dómur, heldur ákæra. Það á ekki
að koma á óvart. Helga hafði sent tölvuskeyti á póstlista starfsfólks
Háskóla íslands 25. febrúar 1999, eftir að ég hafði þar varið dr. Am-
ór Hannibalsson prófessor fyrir gagnrýni, sem komið hafði fram á
póstlistanum vegna skrifa Arnórs um Halldór Kiljan Laxness.
Helga sagði í tölvuskeytinu:
Ætli háðið sé ekki eina ráðið! Aumingja Hannes Hólmsteinn að
bíta á agnið og fara að æsa sig. Og allar kaldastríðsglósurnar
komnar upp á dekk. Og gott ef ekki með vírus. Nú kemur
trashið að góðum notum. Bara það fyllist ekki. Bless, Helga.
En ekki er nóg með, að Helga sé mér andvíg af stjórnmálaástæðum,
eins og skeyti hennar ber með sér, heldur hefur hún einnig beina
hagsmuni í málinu. Þeir eru tvíþættir. Hún er annar tveggja fræði-
manna, sem erfingjar Laxness hafa veitt aðgang að bréfasafni hans
í handritadeild Landsbókasafnsins, um leið og þeir hafa meinað öll-
um öðrum um afnot af því, og í öðru lagi hefur hún verið í starfi
fyrir þá við að undirbúa málssókn gegn mér, eins og þeir hafa skýrt
frá í fjölmiðlum.4 Ég geri enga athugasemd við það, að Saga birti rit-
gerð eftir Helgu um bók mína. Vísindi eiga að vera frjáls sam-
3 Helga Kress, Eftir hvern? Skýrsla um meðferö texta og tilvitnana í bók Hannesar
Hólmsteins Gissurarsonar, Halldór 1902-1932. Ævisaga Halldórs Kiljans Laxness
(Reykjavík, 2004); sjá www.hi.is/-helga/
4 „Undirbúa málsókn gegn Hannesi Hólmsteini", Morgunblaöið 1. apríl 2004. Þar
segir orðrétt: „Að sögn Guðnýjar [Halldórsdóttur] vann Helga skýrsluna m. a.
fyrir afkomendur Halldórs Laxness."