Saga - 2005, Page 187
FERÐAMÁLAFRÆÐILEGAR VANGAVELTUR
185
ingatengsl við fyrri tíma kallast á ensku numen-seeking en hugtakið
vísar til þeirra áhrifa sem hlutur, fyrirbæri eða staður hefur á fólk
og myndar þannig sálræn tengsl og leiðir til að því finnist sem það
upplifi einhvers konar andlega upphafningu.12
Rannsókn á söguslóðum í borginni Betlehem í Pennsylvaníu og
á Smithsonian-safninu í Bandaríkjunum beindist að því að kanna
að hvaða marki gestir mynduðu slík persónuleg tengsl í heimsókn-
um sínum, sem birtist í djúpum áhuga þeirra, ákafa eða andlegu
sambandi við fólk eða viðburði fortíðarinnar.13 Meirihluti ferða-
mannanna sem tóku þátt í rannsókninni töldu að sögusvæði og
söfn, sem veittu þeim sérstaka ánægju, ættu það sameiginlegt að
auðga andann. Sá hluti ferðamanna sem óskaði eftir einhvers kon-
ar tengslum í heimsóknum sínum á söfn nefndi sérstaklega þörfina
að finna fyrir andrúmslofti tímabilanna með því að setja sig inn í
hugsanahátt fólks fyrr á tímum. Samkvæmt fræðimönnunum ein-
kenndi það áhugasama hópinn sérstaklega að hann var vel mennt-
aður og hafði almennan áhuga á sögu. Að öðru leyti þótti sýnt að
löngunin til að öðlast andlega upphafningu væri spurning um
ákveðið hugarfar eða þætti í persónuleika fólks sem væru óháðir
kyni, aldri, menntun, tekjum og búsetu.
Vandi safnafólks er margs konar, ef marka má niðurstöður rann-
sóknarinnar, en hún flettir ofan af þeirri þversögn að meðan al-
menningur verður sífellt áhugasamari um sögu er hann þó tilfinn-
anlega skeytingarlaus um sögulegar staðreyndir; hann hefur slæmt
langtímaminni og það sem situr eftir er minningin um tilfinningu
eða skynhrif um lykt, hita, kulda eða hungur. Flestir ferðamenn
virðast vilja fræðast og líta á söfn sem óformlegar fræðslumiðstöðv-
ar; sækjast eftir reynslu sem sé ólík skólastofukennslu. Samkvæmt
þjóðfræðingunum Catherine Cameron og John Gatewood vilja
flestir sögu sem er sniðin að þeirra áhugamálum en ekki það sem
atvinnusagnfræðingar og safnafólk heldur að það vilji. Forsendan
fyrir því að upplifa ákveðinn heilagleika eða finna þyt sögunnar er
að skoða með eigin augum og jafnvel koma við hlutina, því að það
myndar sterkari tengsl en hefði viðkomandi orðið fyrir upplifun
12 Hugtakið numen-seeking var fyrst notað af trúarbragðaheimspekingnum Rud-
olf Otto sem lýsir því hvemig trúarleg geðshræring eða reynsla sprettur upp
í viðurvist einhvers heilags.
13 Catherine M. Cameron og John B. Gatewood, „Seeking Numinous Ex-
periences in the Unremembered Past," Ethnology 42:1 (2003), bls. 55-71.