Saga - 2005, Page 226
224
RITDÓMAR
hóf Konráð laganám og gekk það vel, þrátt fyrir veikindi og mikla fátækt.
Hann kláraði þó ekki námið og varð samkvæmt reglum að flytja út af
Garði, þar sem hann hafði notið styrks í fjögur ár eins og algengt var um ís-
lenska námsmenn.
Höfundur lýsir samfélagi íslendinga í Kaupmannahöfn og lætur fljóta
með dapurlegar frásagnir af örlögum sumra íslenskra stúdenta, væntan-
lega til að minna okkur á að það var ekki sjálfgefið að íslendingum tækist
að fóta sig í höfuðborginni. Til að mynda átti Konráð við heilsuleysi að
stríða strax á námsárunum; frá þeim árum greinir Aðalgeir einnig þung-
lyndistón í bréfum hans (bls. 37), nokkuð sem síðan á eftir að ágerast. En
þrátt fyrir mótbyrinn var Konráð ekki af baki dottinn. Samhliða laganámi
var hann farinn að sinna kennslu og skrifa upp handrit, auk þess sem hann
lagði stimd á nám í tungumálum. Konráð var kominn á kaf í íslensk fræði
og vorið 1835 sóttist hann eftir styrkþegastöðu við Ámasafn en varð að láta
í minni pokann fyrir Jóni Sigurðssyni, leiðtoganum sem honum var síðan
alla tíð frekar uppsigað við, svo vægt sé til orða tekið. Athyglisverð er einnig
aðdáun Konráðs á öllu sem þýskt var (bls. 47) en stóran hluta fræðibóka
sinna ritaði hann á þýsku. Allt þetta minnir okkur á þann sess sem þýsk
menning skipaði í Danmörku fram að því er þýsku ríkin fóru að sýna til-
burði til þess að sameinast.
Annar kaflinn nefnist „Fjölnir og félagslíf Hafnarstúdenta" og segir Aðal-
geir fyrst frá aðdraganda og mögulegum erlendum fyrirmyndum að Fjölni.
Einnig segir frá tilraunum til að innleiða nýbreytni í íslenskri réttritun, en
rartnsóknir á móðurmálinu áttu einmitt eftir að verða starfsvettvangur
Konráðs. Aðalgeir gerir m.a. góða grein fyrir áhuga Konráðs á málvernd.
Um leið minnir hann okkur á að Konráð hafi ekki haft mikinn áhuga á
stjórnmálum. Á hinn bóginn sjá lesendur í hendi sér að málræktarstefna og
fornaldardýrkun Konráðs höfðu á sér pólitíska hlið vegna þeirra tengsla
sem Konráð sá milli tungumáls og þjóðemis. Síðar í bókinni er athyglisvert
að lesa hvemig Konráð tengir saman fegurð og þjóðernisvitund (bls. 116).
Þriðji kafli nefnist „Yfir flúðir auðnu og meins". Þar er m.a. gerð grein
fyrir veikindum Konráðs en upp úr 1840 fór hann að þjást af augnveiki.
Hún ágerðist og samfara því óx áðurnefnt þunglyndi. Hann leitaði augn-
lækninga einkum f Þýskalandi og slást lesendur í för með honum þangað.
Konráð sótti um kennarastöðu við Lærða skólann í Reykjavík og var skip-
aður kennari þar 1846. Ekki varð þó af því að hann færi til íslands enda
störfum hlaðinn, auk þess sem hann eygði von um að fá stöðu í sínu fagi
við Hafnarháskóla. Vonin rættist og dósent varð hann árið 1848 og prófess-
or 1862. Þeirri stöðu hélt hann til 1886, þá kominn fast að áttræðu.
Fjórði kaflinn, „Fræðastörf Konráðs Gíslasonar", veitir yfirlit yfir fræði-
mennsku Konráðs allt frá 1839. Þess vegna verður ekki hjá því komist að
endurtaka þurfi eitthvað af því sem áður hefur komið fram. En væntanlega
er bókin uppbyggð á þennan hátt til að leggja áherslu á að Konráð var fyrst
og fremst fræðimaður. Þarna segir t.d. allítarlega frá vinnu hans við orða-