Birtingur - 01.07.1955, Síða 34
og áfram, hamaðist á færinu, en allt kom
fyrir ekki. Loks sagði hann:
Þú ert að fáann.
Reiting, sagði ég.
Ég botna ekkert í þessu. Ég er nú búinn að
keifa það í fimmtíu ár og annað eins hef ég
aldrei vitað. Annað hvort er ég dauður úr
öllum æðum eða þú ert mesta fiskilús sem á
fjölum hefur flotið.
Það er færið, sagði ég.
Færið, sagði hann snefsinn, þú heldur þó
ekki að þessi drjóli þinn skapi fiskinn.
Það skyldi nú ekki vera, sagði ég.
Já, hvað haldiði, hvað haldiði, fiskurinn
tekur allt í einu uppá því að fælast gömlu
dræsuna og sækja að þessu djöfuls fígúru-
verki. Nei, það er eitthvað bogið við þetta.
Er nú ekki að orðlengja það, að þegar sól-
in átti skammt til hvarfs höfðum við hlaðið
bátinn, og þó ég segi sjálfur frá er ekki of-
sagt að tveir þriðju aflans hafi komið á
jakobsnaut. Ég var í sólskinsskapi, allan
daginn hafði veiðihugurinn hítað mér og
fengið nægju sína af glitrandi þorski sem
fyllti bátinn stafna milli, og nú rann hann
heimleiðis þungur af byrði sinni svo sauð
um hástokka. Að baki var jökullinn sleginn
fölæm roða, framundan risu eyjarnar úr kyrr-
um sjó, en i vestri hrönnuðust eldský ofar
sólu. Úti við hafsbrún risu hvít skýjafjöll
upp af sjávarfletinum og þar liðu reykjar-
strókar til himins. Gamla manninum þótti
aflinn góður, en illa fenginn, hér voru brögð
í tafli og það kunni ekki góðri lukku að stýra.
Það gat sosum verið að gljáinn á þessum
drjóla gengi í augun á fiskinum, en görnin
sú arna, svei því .... Við tókum land undir
rökkur, leiðarljósin rauð og græn leiftruðu
á hafnargörðunum og ljósrákir frá bryggjum
og bátum klufu höfnina. Við vorum ekki
fyrr lagztir að bryggju en þar var kominn
mannsöfnuður. Þeir býsnuðust yfir aflanum
og sögðu: Jú, gamli seigur, ekki bregzt
hann þér frekar en fyrri daginn. En gamli
maðurinn sagði fátt, rétt eins og það væri
ekki umtalsvert þótt hann kæmi með hlaðinn
bát að landi.
Næsta morgun vorum við komnir inn á
grunn í birtingu. Það var sama blíðan. Kvöld-
ið áður hafði ég farið til Jakobs og fengið
mér varasökkur og nýjan þráð, blágrænan
einþráðung mjóan eins og hörtvinna og ég var
einmitt að hnýta hann við sökkuna þegar ég
tek eftir því að gamli maðurinn er eitthvað
svo hvimulegur þar sem hann bograr í skutn-
um. Og viti menn: blikar þá ekki á jakobs-
naut í höndum hans.
Jæja karlinn, þú hefur þá slegið þér á einn
dindil, sagði ég. Það þusaði í honum.
Og náttúrlega nýju þræðina, bætti ég við.
Mér skilst það sé drjólinn en ekki görnin
sem hann gleypir, sagði gamli maðurinn,
staðráðinn 1 að gefa sig ekki, því hann hafði
bundið glitfiskinn á annan taum gömlu sökk-
unnar. Ekki varð úr orðræðum að sinni, ég
var þegar fastur í fiski. En gamla mannin-
um tókst ekki að fá hann með sinni aðferð.
Það leið þó nokkur stund; nýveiddir fiskarn-
ir ropuðu luntalega, svipljótir í dauðateygj-
unum og blóð þeirra litaði þóttur og súð. Ég
fann sjávarloftið í nösum mínum, kait og
salt. Hvítt morgunskinið féll ofan í sléttan
sjóinn.
Eftir langa mæðu dró gamli maðurinn fisk,
en hann kom þá ekki á jakobsnaut heldur
á gömlu hneifina. Það skipti engum togum,
hann leysti glitfiskinn af, vó hann eitt and-
artak í hendi sér, brá síðan við snöggt og
fólskulega og kastaði honum eins langt burt
frá bátnum og hann var maður til.
Hafðu skarpa skömm fyrir, sagði hann og
skyrpti á eftir gripnum þungur á brún.
Það sauð í mér hláturinn.