Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2011, Síða 128
126
Helgi Skúli Kjartansson
gerir t.d. maður sem skrifar undir upphafsstöfunum H.B. í Norðurljósið
25. september 1909 og rekur áróður fyrir því að Islendingar nýti sér síld til
fæðu eins og aðrar þjóðir. Hann er nógu mikill hreintungumaður til að
nefna ekki sósu nema innan sviga til skýringar á ídýfu en segir engu að síður
um síldina: „A Norðurlöndum er hennar mest neytt „speget", sölt, köld og
hrá — já hrá ...“ Þessi maður kann greinilega ekki að þýða speget með speikt.
Eins má segja að aðrar aðlaganir sama tökuorðsins bendi til að fólki sé
ótamt að segja speikja. Sá sem fyrstur notaði spagipylsu sem íslenskt orð
hefur ekki vanist því að segja speikipylsa. Sama má segja um aðrar aðlag-
anir með í stað -k- þó að sérhljóðið sé með ýmsum hætti: spegisíld (strax
1789 eins og fýrr segir), speigilax, spegipyba, speigilpylsa (dæmi úr söfnum
Orðabókar Háskólans og af timarit.is). Sérstaka athygli vekja tvö dæmi
Ritmálssafns um speigilax, bæði frá Benedikt Gröndal, annað úr bundnu
máli en hitt lausu. Bæði eru úr einkar gröndölskum mælskurispum þar
sem skáldið þylur heiti margvíslegra kræsinga og hefði hæft samhenginu
að nota sérviskulega orðmynd eins og speikilax, hvort sem Gröndal hefði
lært hana af föður sínum (sem var alinn upp hjá engum öðrum en Magn-
úsi Stephensen) eða kynnst henni á Hafnarárum sínum (um 1850—70).
Við getum a.m.k. fullyrt að Gröndal var hún ekki töm.
Annað neikvætt vitni er Konráð Gíslason sem 1851 gaf út Danska
orðabók með íslenzkum þýðingum, mikið verk og gríðarlega vandað. Þar
útskýrir hann uppflettiorðið'ipege án þess að gefa upp íslenska samsvör-
un. Ef hann kannast við orðið speikja, annaðhvort úr daglegu tali Hafnar-
íslendinga eða af orðabók Björns Halldórssonar (sem hann notar mikið),
þá telur hann það a.m.k. ekki hafa fest rætur í málinu og vill ekki mæla
með því. Skýring Konráðs er hins vegar býsna skilmerkileg um aðal-
merkingu dönsku sagnarinnar: ‘salta og reykja (kjötmeti eða fiskmeti, svo
að ekki þurfi að sjóða það)’. I þessari merkingu tilfærir hann samsetning-
arnar Spegeflesk, Spegegaas, Spegelax, Spegemad og Spegep0lse en tekur fram
um Spegesild að hún sé ‘söltuð síld (óreykt)’.
Nú er Konráð einni til tveimur kynslóðum yngri en upplýsingarfröm-
uðurnir fáu sem höfðu reynt að innleiða sögnina speikja í íslenska tungu
og kann merking danska orðsins að hafa haggast nokkuð á þeim tíma.
Þannig gengur speikilax Olaviusar út fyrir skýringu Konráðs því hann er
hvorki reyktur né etinn hrár, og sömu verkun mun Ólafur Stephensen
eiga við með speikingu. Þannig hafa þeir þekkt dönsku sögnina spege í enn
víðari merkingu en Konráð lýsir. En íslenska nýyrðinu hefur vafalaust
verið ætlað að samsvara dönsku merkingunni. Vantar þá talsvert á að
skýring Islenskrar orðabókar, ‘reykja’, segi alla söguna.