Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2011, Síða 196
i94
Ritdómar
í kaflanum greinir höfundur frá niðurstöðum stöðluðu spurninganna, sem
þátttakendurnir 24 svöruðu, og lætur orð þeirra í viðtölunum varpa ljósi á þær.
Með öðrum orðum nýtir hann eigindlegan hluta rannsóknarinnar til þess að skýra
þann megindlega. Þannig fæst dýpri skilningur á viðfangsefninu og þetta gerir
höfundur vel. Þá sýnir höfundur hve villandi niðurstöður skriflegra kannana geta
verið. í skriflega hlutanum voru þátttakendur spurðir hve sammála þeir væru
þeirri fullyrðingu að það væri eðlileg þróun í alþjóðlegum heimi að enska yrði
tungumál vísindanna. Mikill meirihluti sagðist mjög eða nokkuð sammála full-
yrðingunni en tveir voru mjög eða nokkuð ósammála. Þegar þessir tveir voru
spurðir um þetta í viðtölunum kom upp úr dúrnum að þeir voru í raun ekki ósam-
mála henni heldur voru þeir ósammála fullyrðingunni næst á undan sem var nokk-
urs konar inngangur að spurningunni (bls. 65—66).
Þar sem greinir frá niðurstöðum eftir hópum (A, B, C, D) leggur höfundur
mun meiri áherslu á stöðu innan fyrirtækis (yfirmenn ~ undirmenn) en eðli þess
(vörur ~ þjónusta). Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar m.t.t. stöðu reynist enska
skipta yfirmenn meira máli, einkum í vinnunni, en þar nota þeir ensku mun meira
en undirmenn. Hins vegar var munurinn ekki svo greinilegur þegar enskunotkun
utan vinnutíma var skoðuð (bls. 53—55, 83). Þessi þáttur lífsstílslíkansins sýnist því
eiga rétt á sér.
Aftur á móti vaknar sú spurning hvort val á hinum þættinum, eðli fyrirtækis,
hafi verið heppilegt. Ekki er mikið unnið með hann á sama hátt og stöðu innan
fyrirtækis við greiningu á gögnunum. Þegar rætt var um málrækt og hreintungu-
stefnu í viðtölunum (kafli 4.2) voru hugtök á borð við þjóðerniskennd ekki langt
undan. Því hefði verið áhugavert að skoða möguleg tengsl milli jákvæðrar afstöðu
til málræktar og hefðbundinna, gamalgróinna fyrirtækja (flokkar A og D).
Eins og þegar hefur verið fjallað um beitti höfundur eigindlegri rannsóknar-
aðferð. Sá sem beitir slíkri aðferð verður að átta sig á þeim takmörkunum sem hún
setur honum, t.d. er ekki hægt að nota tölfræðilegar aðferðir til að draga áreiðan-
legar ályktanir um þýði út frá úrtaki líkt og væri eðlilegt ef rannsóknin væri meg-
indleg (með talsverðum fjölda þátttakenda). Höfundur gerir sér fulla grein fyrir
þessu og taka markmið rannsóknarinnar mið af rannsóknaraðferðinni. Þrátt fyrir
þetta virðist hann vanmeta megindlegan þátt rannsóknar sinnar upp að vissu
marki. Með því að draga saman svör við stöðluðum spurningum er auðvitað alltaf
hægt að beita marktektarprófi — oft fæst ekki marktækur munur sem má þá
gjarnan rekja til fæðar þátttakenda.5 Hins vegar er sú ekki alltaf raunin. Rætt
verður um þetta hér síðar í þessum hluta.
5 Hér á ég við það að ef munur á tveimur hópum, t.d. yfirmönnum og undirmönnum,
reynist ekki marktækur í 24 manna úrtaki er ekki ólíklegt að úrtakið hafi ekki verið nægi-
lega stórt. Sé hann hins vegar ekki heldur marktækur í mun stærra úrtaki, t.d. 800 manna
úrtaki, er með meiri vissu hægt að halda því fram að ekki sé munur á hópunum tveimur að
tilteknu leyti.