Vera - 01.08.2003, Blaðsíða 6
/ ÁSKRIFANDINN
mynd úr einkasafni
Erla Björg
og jafnrétti eru eitt
Erla Björg býr í Stykkishólmi. Þangað flutti hún þegar hún
giftist Sigurði Ágústssyni árið 1997 en hann á og rekur fisk-
vinnslufyrirtækið Sigurður Ágústsson ehf. ásamt móður
sinni, Rakel Olsen.
Erla hefur alltaf verið mjög sjálfstæð. Hún hóf störf hjá
Eimskipafélaginu 16 ára gömul en sama ár eignaðist hún
dóttur. „Eftir að ég lauk grunnskólanum fór ég að vinna
sem sendill hjá Eimskip og vann mig síðan upp í fyrirtæk-
inu. Eftir sendilstörfin fór ég í telexdeildina, þaðan í af-
greiðsluna og svo í bókhaldið. Ég var bara 17 ára þegar
mér var treyst til þess að verða bókari. f fjárreiðudeildinni
þar sem ég vann voru flestir með viðskiptafræðimenntun.
Ég er mjög þakklát fyrir þau tækifæri sem ég fékk hjá Eim-
skip."
Fljótlega eftir að Erla Björg flutti til Stykkishólms ákvað
hún að hefja nám. Hún samdi við Fjölbrautaskóla Vestur-
lands um að fá að taka námið utan skóla. Fyrsta árið gat
hún sótt einhverja tíma í Stykkishólmi, en að öðru leyti
skipulagði hún nám sitt sjálf. „Ég tók námið mjög alvar-
lega, um leið og börnin voru farin i skólann klæddi ég mig
upp eins og ég væri að fara til vinnu og var sest inn á skrif-
stofu til að lesa. Síðan tók ég matarhlé og las áfram til
klukkan fimm. Ég lauk svo stúdentsprófi á tveimur og
hálfu ári."
Að stúdentsprófi loknu ákvað Erla Björg í samráði við
fjölskylduna að hefja nám í viðskiptafræði við Háskólann í
Reykjavík. „Ég sótti skólann stíft fyrsta árið og bjó í Reykja-
NAFN: ERLA BJÖRG GUÐRÚNARDÓTTIR
ALDUR: 31 ÁRS
STARF: FRAMKVÆMDASTJÓRI
ÁHUGAMÁL: SIGLINGAR, LÍKAMSRÆKT, SUND
HVE LENGI ÁSKRIFANDhTVÖ ÁR
HVERNIG FINNST ÞÉR VERA? ÁHUGAVERT BLAÐ
vík. Maðurinn minn studdi mig dyggilega og tók að sér að
annast börnin og heimilið. Þetta var þroskandi tími fyrir
okkur öll því hann tengdist stelpunum enn betur þegar
þau þurftu að standa sig án mín. Námið í HR var einstak-
lega gefandi og skemmtilegt, mér var t.d. boðið að vera
aðstoðarkennari í markaðsfræðum síðustu önnina og naut
þess virkilega að sinna því. Ég lauk svo námi síðastliðin
áramót og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur í vor."
Að loknum námi var Erla Björg fengin til að stýra verk-
efni þar sem verið var að kanna grundvöll fyrir því að
stofna heilsuhæli í Stykkishólmi en niðurstaðan varð að
svo væri ekki eins og staðan er í dag. I samvinnu við eigin-
mann sinn stofnaði hún svo fyrirtækið Marz Sjávarafurðir
ehf sem annast sölu á frystum sjávarafurðum til Evrópu.
„Ég sel afurðir frá hinum ýmsu fyrirtækjum hérlendis og
erlendis - rækju, þorsk, ýsu, saltfisk o.s.frv. til Evrópu og
Norður-Ameríku," segir hún.
Eru bæði kapteinar á skútunni
Sigurður kynnti Erlu Björgu fyrir ævintýraheimi skútusigl-
inga og í kjölfarið ákvað hún að fá sér skipstjórnarréttindi,
eða svokallað pungapróf. „Við stundum siglingar eins oft
og tækifæri gefst. Skútan er geymd í Danmörku og þaðan
siglum við, vorum t.d. á siglingu í þrjár vikur í sumar með
fjölskylduna. Þar ríkir jafnræði um borð eins og reyndar á
öllum öðrum sviðum hjá okkur."
Þegar Erla Björg er spurð um skoðanir á jafnréttismál-
um og lestri VERU segir hún að jafnrétti og Erla séu eitt og
hið sama, fyrir sér hafi aldrei verið spurning um að hún sé
annað en jafnoki karlmanna. „Mér finnst mjög mikilvægt
að við sem foreldrar séum góðar fyrirmyndir fyrir dætur
okkar. Þær þurfa að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að
einstaklingurinn fái að njóta sín og að fullkomið jafnræði
ríki á heimilinu. Við Sigurður erum mjög samstíga í flestu
sem við gerum. Hann hefur gefið mér byr undir báða
vængi í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur og styður
mig dyggilega í fyrirtækjarekstrinum enda hefur hann
mikla þekkingu á sjávarútvegsmálum. Við stundum sam-
an líkamsrækt og sund en þær samverstundir eru okkur
mjög dýrmætar.
Varðandi jafnréttismál almennt finnst mér mikilvægast
að fólk sé metið að verðleikum, burtséð frá kynferði og fái
þar af leiðandi sömu laun fyrir sömu vinnu. Mér finnst nýju
fæðingarorlofslögin vera ein mikilvægasta lagasetning í
jafnréttismálum. Þau gefa ekki aðeins feðrum færi á að
læra betur að umgangast börnin sín heldur verða atvinnu-
rekendur nú að búa við það að karlmenn geti allt eins
horfið úr vinnu vegna fæðingarorlofs og konur. Ég vona
að það muni eiga þátt í því að jafna stöðu kvenna og
karla," sagði Erla Björg að lokum.
6/4. tbl. / 2003 / vera