Vera - 01.08.2003, Page 37

Vera - 01.08.2003, Page 37
heim, 1992, átti ég eftir að skrifa mastersritgerðina. Um sama leyti var ég að eignast dóttur mína og þótti gott að falla inn í það notalega líf að vera heima með barn og vinna að því að skrifa ritgerð. Ég varð þó að herða mig þegar ritgerðarskrifin fóru að dragast á langinn og lauk rit- gerðinni 1994." Að kanna áhrif efnahagsaðgerða Edda Rós ákvað að fara vítt yfir sviðið í mastersnáminu til þess að undirbúa sig undir að búa á íslandi en námið hafði að sjálfsögðu miðast við danskt efnahagslíf. Hún valdi hagstjórnarfög, lærði um efnahagsstjórn, opinber fjármál, Evrópumál, skattamál og atvinnulífsmál og tók þann málaflokk fyrir í lokaritgerðinni. „Ritgerðin fjallaði um byggðamál á íslandi á árunum 1980 til 1992. í henni skoða ég áhrif fjármagnsmarkaðarins á byggðamál en nokkur ár voru síðan vextir voru gefnir frjálsir og pólitísku taki því létt að nokkru leyti af ráðstöfun lánsfjár. í ritgerðinni sýni ég fram á að við þessa aðgerð hafi möguleikar stjórnvalda til að hafa áhrif á byggðaþróun minnkað mjög mikið. Ég lærði mikið um íslenskt efnahagslíf á þessu verkefni og hafði gagn og gaman að. Mér finnst vera talsverður mun- ur á stjórn íslensks efnahagslífs og þess danska. Þar þykir sjálfsagt að kanna fyrst hvaða áhrif ákvarðanir í efnahags- málum muni hafa á hina ýmsu tekjuhópa, atvinnugreinar eða fasteigna- og verðbréfamarkað en hér á landi dettur mönnum oft eitthvað snjallræði í hug og framkvæma það án þess að kanna fyrst hvaða áhrif það muni hafa, afleið- ingarnar eru oft kannaðar seinna. Mér finnst vinnubrögð Dananna til fyrirmyndar en sem betur fer færist það í vöxt hér á landi að áhrif efnahagsaðgerða séu könnuð fyrir- fram. Þetta er spurning um að hafa heildaryfirsýn og þá felast mikil völd í því að hafa þekkingu og miðla henni eða miðla henni ekki." Hagfræði talin of flókin fyrir almenning Edda Rós segist oft heyra það sagt að efnahagsmál séu svo flókin að engir skilji þau nema hagfræðingar. Hún er á móti því að mál séu sett fram á svo flókinn hátt að þau séu óskiljanleg almenningi og finnst að fólk sé oft vanmetið - það geti auðvitað skilið miklu meira en ráð sé fyrir gert. „Ég var mjög heppin þegar ég kom út á vinnumarkaðinn og fékk fyrst vinnu hjá Ríkisendurskoðun og síðan hjá Kjara- rannsóknarnefnd. Ég var í raun rétt manneskja á réttum stað og lærði mikið á þessum störfum. Ég hafði ekki síður gaman að því að vinna hjá Alþýðusambandinu og hef haldið svolitlu sambandi við þau varðandi fræðslumál. Mér fannst mjög gefandi að vinna fyrir verkalýðshreyfing- una, fara út í félögin og tala á fundum og hafði sérlega gaman af að kenna á trúnaðarmannanámskeiðum og í annarri fullorðinsfræðslu. Það er mjög hollt fyrir hagfræð- ing að standa frammi fyrir fólki í verkalýðshreyfingunni sem spyr einfaldra spurninga sem koma alveg að kjarna málsins. Ég stóð mig oft að því að geta í raun ekki svarað, því að ég hafði ekki velt hlutunum nægjanlega fyrir mér, þetta var bara svona. En þá þurfti ég að hugsa málin upp á nýtt og tengja þau við raunveruleikann og fór að velta fyr- ir mér hvort þau gætu í raun verið öðru vísi. Fræðslustarf innan verkalýðshreyfingarinnar er mjög mikilvægt því það gefur fólki sjálfstraust. Bara það t.d. að skilja algeng hag- fræðihugtök, eins og vísitölur og kaupmátt, gefur fólki sjálfstraust en sjálfstraust er grundvallaratriði þegar kem- ur að því að fólk standi sig og komi sér áfram í lífinu." Byggir upp greiningardeild Landsbankans Árið 2000 bauðst Eddu Rós starf í Búnaðarbankanum sem þá var eini bankinn sem hafði ekki vísi að greiningardeild. Hún var ráðin á verðbréfasvið og fékk það hlutverk að koma á fót greiningardeild. „Greiningardeildir hafa í raun tvíþætt hlutverk, annars vegar að styðja það sem er að gerast í bankanum með athugunum sem eru lagðar til grundvallar ráðgjöf til viðskiptavina og ákvörðunum sem teknar eru innan bankans. Hitt hlutverkið er að vera svolít- ið eins og skreyting fyrir bankann, þ.e. að koma fram út á við og leggja fram niðurstöður um greiningu á markaðn- um og þess háttar. En til þess að geta sinnt síðara hlut- verkinu af reisn verður starfsfólk deildarinnar að fá næði og tækifæri til að gera rannsóknir sem skila árangri. Ég fékk mikinn stuðning yfirmanna til að byggja deildina upp og fékk að ráða gott fólk með mér. Okkur hefur tekist frá- bærlega að vinna saman, erum hópur þar sem er bæði jafnt kynjahlutfall og góð aldursdreifing. Ég var 34 ára þegar ég fór í bankann og var með þeim elstu á verðbréfa- sviðinu en lærði mikið af yngra fólkinu sem var oþið og áhugasamt og fullt af sjálfstrausti, í jákvæðri merkingu þess orðs. Við vorum fjögur úr greiningardeild sem fórum yfir í Landsbankann þar sem við höfum haldið áfram að byggja upp greiningardeild í samstarfi við fólk sem var þar fyrir. Landsbankinn er að mörgu leyti ólíkur Búnaðarbank- anum og hefur aðrar þarfir sem við höfum verið að laga okkur að." Kostur að vera kona Edda Rós er að lokum spurð hvort hún hafi fundið fyrir því að kynferði hennar hafi haft áhrif á starfsframann. Hún svarar strax að það hafi frekar verið kostur í hennar tilfelli að vera kona, hún finni fyrir því að það þyki ekki verra að kona sé talsmaður samtaka eða fyrirtækja. „Ég fann mjög fyrir því á tímabili að leitað var til mín í ólíklegustu tilfellum þegar skreyta þurfti karlahópa með ungri konu. Ég hef oft verið eina konan í hópi karla að tala á ráðstefnum um efnahagsmál eða annað slíkt. Ég þurfti jafnvel að neita þátttöku ef umfjöllunarefnið var mjög langt frá minni sérþekkingu því ég gat ekki hugsað mér að vera bara til skrauts. Það að vera kona hefur opnað mér dyr, en þegar uþp er staðið kemst maður auðvitað ekkert áfram nema hafa eitthvað fram að færa," segir Edda Rós Karlsdóttir að lokum. X

x

Vera

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Vera
https://timarit.is/publication/858

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.