Vera - 01.08.2003, Side 70

Vera - 01.08.2003, Side 70
Úlfhildur Dagsdóttir / KVIKMYNDIR Lars von Trier 2003 Cannes hátíðin í ár var nokkuð undarleg og sér ekki fyrir endann á því. Fyrir utan áhyggjur af vaxandi hlutfalli stórmynda og fjölmiðia og minnkandi hlutfalli kvikmyndaunnenda, þá sveif Iraksstríðið yfir vötnum með tilheyrandi fordómum gagnvart Bandaríkjunum. Dogville, eða Hundavík, Lars von Triers hristi síðan enn frekar upp í eldfimu ástandi. Myndin er harkaleg gagnrýni á Bandaríkin en Trier hefur aldrei þangað komið og játar fúslega að myndin sé afkvæmi hugmynda hans um landið sem hann hefur meðal annars fengið í gegnum bandarískar kvikmyndir. Margir spáðu myndinni öruggum sigri en svo fór þó ekki og Elephant, eða Fíll, Gus van Sants hlaut pálmann gullna. Lars von Trier er einn af fáum leikstjórum nútímans sem tekst að samræma listrænan tilraunastíl efni sem er fengið beint upp úr vinsælum afþreyingarformum. Trier vinnur markvisst með hefðbundnar kvikmyndategundir og form og brýtur þær síðan upp með framúrstefnulegri notkun myndavélarinnar. Þannig er úrvinnslan alltaf tvöföld, annarsvegar hvað varðar sjálft formið, formúluna eða frásögnina og hinsvegar hvað varðar miðilinn, myndmálið og myndatökutæknina. Þessi tvöfalda úrvinnsla er einkenni á öllum myndum Triers. Fyrsta mynd hans, The Element of Crime frá 1984, vísaði til vísindaskáldskapar, Europa frá 1991 notaði sér noir hefðina og Breaking the Waves (1996) er fyrst og fremst ýkt melódrama. Sú mynd varð fyrsta alþjóðlega stórmynd Triers og olli miklum öldugangi meðal gagnrýnenda og áhorfenda. Tækni Triers pirraði fólk, og þótti mörgum handtökin bera merki yfirborðsmennsku og 'stæla'. En snilld Triers felst einmitt í þessari fullkomnu samræðu og togstreitu efnis og stils þar sem myndatakan og tæknin unnu markvisst að því að hafna öllum einföldum niðurstöðum. Stíll Triers naut sín síðan ákaflega vel í dans- og söngvamyndinni Dancerin the Dark (2000), eða Dansarinn í myrkrinu, sem er íslendingum kunn fyrir hlutdeild Bjarkar. Báðar þessar myndir falla að forminu til í flokk hefðbundinna kvennamynda, sem ég hef áður fjallað um hér í Veru. Þó dytti engum til hugar að kalla þessar myndir Triers kvennamyndir. Báðar vöktu myndirnar athygli fyrir að sýna fórnfýsi og þjáningar kvenna og þótti leikstjórinn ganga ansi langt í þessu hugðarefni sínu - alla leið út í það að ætlast til að leikkonur hans væru álíka fórnfúsar og tilbúnar að þjást. Minnir sú umræða ekki lítið á klassíska umræðu um Hitchcock og leikkonur/kvenpersónur hans. Á hinn bóginn má ekki gleyma því að þarna bjóðast óvenju mögnuð kvenhlutverk, auk þess sem hefðbundin kvennaform fá uppreisn æru en slíkt er ekki lítils virði í karlmiðjuðum heimi kvikmyndanna. Og þá er komið að umfjöllun um Dogville sjálfa og vil ég byrja á því að vara lesendur við: ég kem til með að gefa endinn upp! Hefnt fyrir þjáningar kvenna Það vakti eðlilega nokkra athygli þegar fréttist að leikkonan Nicole Kidman myndi leika aðalhlutverkið í næstu mynd Triers, og eins og búast mátti við þarf persóna hennar að þjást mikið og fórna miklu. Myndin fjallar í stuttu máli um það að til smábæjar í Banda- ríkjunum á kreppuárunum kemur ókunn glæsileg kona og biður hælis. Þorpsbúar eru tortryggnir en taka við stúlkunni, að því tilskyldu að hún aðstoði fólk við vinnu sína. En svo er stúlkunni nauðgað af einum karlanna í þorpinu og eftir það hraðversnar ástandið, stúlkan verður skyndilega blóraböggull fyrir allt sem úrskeiðis fer, auk þess sem hún er gerð að einskonar þræli þorpsins, læst í járn og stöðugt nauðgað af karlfénaði bæjarins. Og allt þetta fyrirgefur hún af, að því er virðist, linnulausu þolgæði. Þegar hér var komið sögu fór um undirritaða: ætlaði Trier einu sinni enn að láta mig horfa upp á þjáningar og fórnir konu og láta hana svo deyja? En nei, það gerði hann nefnilega ekki að þessu sinni því í Ijós kemur að stúlkan er dóttir mafíuforingja og hafði flúið vegna þess að hún gat ekki hugsað sér að taka þátt í 'starfi' hans. Eftir langa umhugsun og umræður við föður sinn um fyrirgefningu og réttlæti ákveður hún að á henni hafi verið brotið og hún fyrirskipar að bænum skuli eytt og bæjarbúum slátrað! Aldeilis hressandi uppákoma það, og konu fannst hún hafa hefnt fyrir þjáningar hinna kvennanna líka. Eins og gefur að skilja fögnuðu Bandaríkjamenn myndinni lítið enda lítt tilbúnir til að taka við gagnrýni á föðurlandið um þessar mundir og ætla ég ekki að endurtaka þær eiturgusur sem úr þeirri áttinni komu. Danir hinsvegar glöddust mjög, lásu fjölbreytta samfélagsgagnrýni út úr myndinni (lesist: ekki bara sem árásá Bandaríkin) og þótti mörgum sem Trier hefði loksins náð að sýna hvað í honum býr. Ég get ekki verið annað en sammála því, myndin er, fyrir utan þættina Riget, það besta sem frá Trier hefur komið, ekki síst vegna sviðsetningarinnar en eins og frægt er orðið er myndin öll tekin í stúdíói á mjög einföldu sviði þarsem útlínur gatna og húsa eru teiknaðar með hvítum línum á svart gólf. Þetta gerir það að verkum að allir eru eiginlega alltaf á 'sviðinu' og að áhorfandinn getur fylgst með mörgum atburðarásum í einu. Og það er ekki lítið að halda athygli áhorfandans á svona einfaldri senu í heila þrjá tíma, og það gerir Trier með ágætum - án hlés, þvf blessunarlega sá ég myndina í alvöru dönsku kvikmyndahúsi sem er fullkomlega laust við eyðileggingastarfsemi íslenskra bíóa. Og Nicole Kidman? Aldrei verið betri. 70/4. tbl. / 2003 / vera

x

Vera

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vera
https://timarit.is/publication/858

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.