Andvari - 01.01.2010, Blaðsíða 121
ÞÓRA SIGRÍÐUR INGÓLFSDÓTTIR
Að verða að alvöru manni
Um Gosa gervikarl og Pál Jónsson blaðamann
í þríleik Olafs Jóhanns Sigurðssonar
1
Rithöfundurinn Ólafur Jóhann Sigurðsson (1918-1988) var einhver mikilvirk-
asti höfundur Islendinga og lét eftir sig ein 27 verk, ljóð, skáldsögur og smá-
sögur. Ólafur Jóhann hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1976,
fyrstur íslendinga, fyrir Ijóðabækur sínar Að laufferjum og Að brunnum.
Viðamesta verk höfundar er án efa þríleikurinn Gangvirkið, Seiður og hélog
og Drekar og smáfuglar en hann er skrifaður og gefinn út á 28 ára tímabili
(1955-1983). Þar er á ferðinni þroskasaga Páls Jónssonar, sveitadrengs og
síðar blaðamanns. í þessu 1250 síðna verki er vakin tilfinning fyrir íslensku
samfélagi á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar, en sagan gerist að mestu leyti
á árunum 1939-1949. Tímasetningar og atburðir sögunnar eru í samræmi
við íslandssöguna og er verkið uppgjör höfundar og sögumanns við þetta
tímabil og jafnframt viðamesta bókmenntaverkið sem hefur komið út um
það á íslandi. A sögutímanum verða örlagaríkar breytingar í lífi aðalpersónu
og um leið miklir umbrotatímar í þjóðfélaginu í heild. Höfundur lýsir tíma-
bilinu og persónum sínum af næmi og kímni. Þríleikurinn er fyrst og fremst
þroskasaga í margvíslegum skilningi og afburða góð samtímalýsing.
Sagan segir í stuttu máli frá Páli Jónssyni frá Djúpafirði sem hefur alist
upp hjá ömmu sinni en flyst til Reykjavíkur þegar hann hefur einn um tvítugt
og lýkur sögunni þegar hann stendur á þrítugu. Páll flyst til höfuðstaðarins
með þá drauma í farteskinu að verða að nýtum manni með því að mennta
sig, lesa góðar bækur og jafnvel skrifa sjálfur. Stuttu eftir að Páll kemur til
Reykjavíkur er landið hernumið, breski herinn gengur fyrst á land og síðan sá
bandaríski. Páll er mikill föðurlandsvinur og lítur á herinn sem aðskotadýr er
óhreinkar ísland, menningararfinn, þjóðina og tungumálið. Páll fylgist með
þeim gífurlegu breytingum sem verða á mann- og menningarlífi á íslandi,
fyrst og fremst í Reykjavík, á þessum tímum íslandssögunnar. Þetta helst í
hendur við tilfinningalíf Páls sem er heldur bágborið lengst af. Páll getur illa
sætt sig við að herinn beri með sér eins konar gósentíð fyrir íslendinga meðan
bræður hans og systur falla fyrir vopnum úti í heimi.