Andvari - 01.01.2010, Blaðsíða 96
94
ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON
ANDVARI
miðja öldina. Að mínum dómi fer vart á milli mála hjá hvaða skáldi upphafið
liggur, og meira að segja mun vera víðtækt samkomulag um það í íslenskri
bókmenntasögu að Jóhann Sigurjónsson komi þar einn til greina.
*
Hversvegna fara skáld að yrkja öðruvísi en áður var almennt tíðkanlegt og
gott þótti? Af hverju fylgja þau ekki fordæmi Þormóðar Bessasonar sem
kunni svo vel að yrkja þegar í æsku „að menn fundu eigi mun á kvæðum hans
og annarra skálda"?3 Um þetta hefur að vonum margt verið skrifað og skrafað
og ég hef á öðrum stað reynt að gera grein fyrir ýmsum álitamálum þar að
lútandi.4 Það er gömul saga að nýjungar í ljóðagerð eru ekki öllum að skapi
jafnvel þótt áhuga hafi á bókmenntum, en þær vekja þó forvitni og umtal, gott
eða illt, og ættu auk þess að vera sérstakt umhugsunar- og rannsóknarefni
bókmenntafræðinga.
Eftirfarandi sonnetta Jóhanns Sigurjónssonar var birt í Skírni árið 1910.
Hann var þá þrítugur að aldri, bjó í Kaupmannahöfn og hafði hætt námi í
dýralækningum þar í borg en einsett sér að skrifa leikrit sem ættu erindi við
aðrar þjóðir.
Fyrir utan glugga vinar míns
Hljóðnað er, borg, á breiðum strætum þínum,
bláhvítur snjór við vota steina sefur,
draumsilki rakið dimma nóttin hefur
deginum fegra upp úr silfurskrínum.
Vökunnar logi er enn í augum mínum,
órói dagsins bleika spurning grefur
djúpt í mitt hjarta, er kemur seinna og krefur
kyrrðina um svar, um lausn á gátum sínum.
Vinur, þú sefur einn við opinn glugga,
æskunnar brunn í svefnsins gylltu festi
sígur þú í og safnar fullum höndum.
Hugur minn man þinn háa pálmaskugga,
hafi ég komið líkur þreyttum gesti
utan frá lífsins eyðihvítu söndum.
Á þessum tíma höfðu íslensk skáld ekki fengist mikið við sonnettuformið. Jón-
as Hallgrímsson hafði ort tvær sonnettur skömmu fyrir miðja 19. öld, hinar
fyrstu á íslensku, og seinni skáld fáeinar, en skömmu eftir þetta kom fram
afkastamesta sonnettuskáld sem íslendingar hafa eignast, Jakob Jóh. Smári,
sem orti vel á annað hundrað sonnettur.5 „Fyrir utan glugga vinar míns“ er