Andvari - 01.01.2010, Blaðsíða 104
102
ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON
ANDVARI
ljóðin sem bein viðbrögð við afmörkuðum þáttum í lífi Jóhanns sjálfs, í þessu
dæmi til að mynda drykkju hans. Hann er að vísu að skrifa um ævi Jóhanns en
þrengir samt sögn ljóðanna óhóflega mikið. í tveimur öðrum ljóðum sér hann
hugsanlegar vísanir til sárasóttar er þjáð hafi skáldið.12 Slík túlkunarleið er
varasöm þegar í hlut eiga sjálfstæð og sjálfhverf myndljóð af því tagi sem hér
ræðir um, og segja má að hún komi ljóðunum lítið við. Til að komast að slíkri
niðurstöðu þarf ekki að samsinna fyllilega Paul Valéry sem ritaði: „Yrkisefnið
er ljóði jafn framandi og jafn mikilvægt og nafnið manninum“.13 Hér er að vísu
komið að umdeildu atriði en almennt má líklega segja að gagnrýnandi skyldi
varast að reyna um of að skýra ljóð með því sem stendur utan við þau. Reyndar
fer það mjög eftir eðli skáldskapar hvort slík aðferð er vænleg til árangurs.
Grein Matthíasar Viðars um Jóhann er skarpleg - ekki síst ef þess er gætt
að hún er skrifuð af 25 ára gömlum manni - en ég er höfundi þó ósammála
í veigamiklum atriðum. Annarsvegar hyllist hann til að lesa ljóðin allegór-
ískt, eins og undir yfirborði þeirra sé ákveðið botnlag eða merkingarlag sem
orða megi skýrum og ótvíræðum orðum. Og á hinn bóginn les hann þau sem
dæmi um hugmyndafræðileg sinnaskipti Jóhanns. Án efa er rétt að heimssýn
Jóhanns tók miklum breytingum snemma á Danmerkurárunum, en ljóðin sem
komu í Skírni 1910 eru myndir en ekki yfirlýsingar. Matthías Viðar kveðst
vilja skoða kvæðin í samhengi við „hugmyndaleg einkenni“ þess módernisma
sem greina megi hjá Jóhanni en bætir við:
Að mínum dómi er meginstraumur módernismans bókmenntaleg hliðstæða þess
existensíalisma sem á upptök sín í fyrirbærafræði Husserls.14
Þetta er nokkuð óljóst og vandséð er hvað fyrirbærafræði Husserls kemur
skáldskap Jóhanns við þó svo hún hafi seinna - og eftir daga Jóhanns - haft afar
mikil áhrif á heimspekilega hugsun í Evrópu (Heidegger, Sartre, de Beauvoir,
Merleau-Ponty) og jafnvel á hugmyndir manna um lestur skáldskapar
(Ingarden, Iser, JauB). En orð Matthíasar eru til vitnis um tiltekinn skilning
á módernisma sem nokkuð hefur gætt: að hann sé birtingarmynd bölsýni,
tómleikakenndar og tilvistarangistar sem séu fylgifiskar nútímans, túlki
óreiðu og upplausn tímanna. En módernisminn - ef við reynum að notast
við það orð - er mun margbrotnara fyrirbæri en svo að hann komist fyrir í
svo einföldu skema.15 Og áberandi á þeim árum þegar Jóhann var að yrkja
sín bestu ljóð var einmitt hrifning á nútímanum - sem oft var táknuð með
ítölsku orði: modernolatria,16 nútímadýrkun - og kemur til dæmis glögglega
fram hjá Guillaume Apollinaire hinum franska sem Halldór Kiljan Laxness
hreifst mjög af. Að ekki sé nú minnst á fútúristana rússnesku og ítölsku og
aðra spámenn (eða falsspámenn) aldarinnar: Majakovskí, Marinetti og Einar
Benediktsson, svo ólíkir sem þeir nú voru.