Andvari - 01.01.2010, Blaðsíða 129
ANDVARI
AÐ VERÐA AÐ ALVÖRU MANNI
127
Ekki er fráleitt að heimfæra kvæði þetta upp á efnivið þríleiksins. Hús álfkon-
unnar er horfið, í staðinn er kominn legsteinn. Álfkonan fagra eða fjallkonan,
hið gamla ísland, hverfur í hernámssukk, gróðabrall, ástand það er þróast við
komu breska og bandaríska hersins til landsins. Reykjavík breytist í þorpið
Aulagildru en í þeirri Aulagildru sem Gosi kemur í búa meðal annars fiðr-
ildi sem hafa selt vængi sína fyrir nokkra skildinga. Gosa er talin trú um
að í Gósenlandi vaxi peningar á trjánum. Refur og köttur segja Gosa að ef
hann grafi fimm gullpeninga í jörðu að kvöldi í Gósenlandi verði þar sprottið
tré með þúsundum gullpeninga daginn eftir. Gosi grefur sína fáu peninga
en tapar þeim auðvitað öllum. í þríleiknum eru vissulega til þeir sem fara í
hernámsbrask án þess að svo illa fari fyrir þeim fjárhagslega. Þar má nefna
sögupersónurnar Camillu J. Magnússon og Gúlla mötunaut Páls, sem verður
síðar „Gudlaugur Gudmundsson, wholesale, retail", en þau verða vissulega að
ösnum, að minnsta kosti í augum sögumanns.
„Páll var frá upphafi hugsaður sem líking,“ er haft eftir höfundi þríleiks-
ins í viðtali við Gylfa Gröndal í Andvara árið 1988. Páli er í upphafi lýst
sem ómótuðum, saklausum og þungt hugsandi sveitadreng sem á sér þann
draum að mennta sig og yrkja. Hann langar til að verða að manni og það sem
hann þráir einna heitast er sálarró. Sagan af Gosa er uppeldisleg dæmisaga
og virðist í stórum dráttum hafa þann tilgang að aga unga drengi, benda á
að ef þeir vilji ekki læra, vinna og hlýða góðum ráðum fari illa fyrir þeim. I
sögunni af Páli má meðal annars finna þann boðskap að þeir sem ekki eru
trúir sjálfum sér og fylgja ekki góðum gildum endi á einn eða annan hátt í
kreppu. En leiðin til að verða að alvöru manni er þyrnum stráð. Páll og Gosi,
þótt sprottnir séu af gerólíkum meiði, ná báðir þessu takmarki með því að
hlusta á rödd samvisku sinnar og fylgja henni þrátt fyrir að leiðin sé löng og
ströng og að þeir mæti mikilli mótstöðu annarra sögupersóna. Gosi neitar að
breytast í asna og vinnur dáð þegar hann sigrast á óttanum og bjargar með því
föður sínum. Páll neitar að lokum í miklu uppgjöri að ganga gegn samvisku
sinni og leggja nafn sitt við blaðagrein sem stríðir gegn skoðunum hans. Hann
missir starfið og fellur í ónáð í Leikfangalandi en bjargar sálu sinni og horfir
fram á betra líf.
Ef litið er á sögu Gosa sem táknmynd fyrir persónulegan þroska Páls í
þríleiknum er vert að nefna annað bókmenntaverk þar sem er öllu alvarlegri
samlíking sem vísar í þá sívaxandi ólgu sem Páll finnur í samfélaginu og
innra með sér. Völsungasaga er æ oftar nefnd á nafn eftir því sem líður á
söguna og er óhætt að ætla að hún sé táknmynd fyrir ástandið í þjóðfélaginu.
Páll hefur viðbjóð á hvers konar ofbeldi en samfélagið og stjórnmálin verða
æ grimmilegri og öfgakenndari og stuðla að vaxandi klofningi þjóðarinnar.
„Einkennilegt var það,“ segir hann þegar hernámssamningurinn hefur verið
samþykktur og hann á æ erfiðara með að réttlæta fyrir sjálfum sér starfið á