Andvari - 01.01.2010, Blaðsíða 41
ANDVARI
BJÖRN ÓLAFSSON
39
fyrir Framsóknarflokkinn í Borgarfirði 1927. Björn Ólafsson var
kunnur sjálfstæðismaður, en Vilhjálmur Þór hafði verið í framboði fyrir
Framsóknarflokkinn á Akureyri 1942.
Sveinn Björnsson og dr. Björn Þórðarson voru góðir vinir frá fornu
fari. Þótt Sveinn yrði stúdent tveimur árum á undan Birni, voru þeir
samtímis í laganámi í Kaupmannahöfn árin 1902-1907. Hafði Sveinn
raunar minnst á það við dr. Björn að mynda utanþingsstjórn vorið 1941,
þegar samsteypustjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Sjálfstæðis-
flokks var að því komin að springa. Sveinn þekkti þá Björn Ólafsson og
Vilhjálm Þór líka. Þeir Sveinn og Björn Ólafsson höfðu eflaust kynnst í
Reykjavík, áður en Sveinn tók við sendiherraembætti í Kaupmannahöfn
1920, og starfað saman eftir það í Rauða krossinum, Ferðafélaginu og
Bálfarafélaginu, eins og hér hefur verið rakið, en ekki síður að útflutn-
ingsmálum, til dæmis í Aþenu 1936 og í Lundúnum 1939. Vilhjálmi
hafði Sveinn kynnst, þegar hann þurfti á heimleiðinni eftir hernám
Danmörku að fara fyrst suður til Ítalíu, þaðan á skipi til New York og
síðan heim með skipi. Lagði Vilhjálmur, sem þá var aðalræðismaður
Islands í New York, sig fram um að greiða götu sendiherrans. „Ég
þekkti Vilhjálm ekki mikið áður,“ skrifaði Sveinn, „en með þessum
samvistum og prýðilegri umönnun hans hófst kunningsskapur, sem
varð órjúfanleg vinátta.“ Auk þess voru þeir Sveinn Björnsson, Björn
Ólafsson og Vilhjálmur Þór allir þrír frímúrarar, enda var utanþings-
stjórnin seinna stundum kölluð „frímúrarastjórnin“. Líklega er það þó
ofmælt, sem Úlfar Þormóðsson blaðamaður skrifar: „Eftir að Björn
Ólafsson var sestur að í fjármálaráðuneytinu og Vilhjálmur Þór í utan-
ríkisráðuneytinu stjórnuðu frímúrarar öllum þeim málum sem nokkru
skiptu fyrir þjóð á krossgötum.“95
Dr. Björn Þórðarson tók málaleitan Sveins fyrst fjarri, en eftir nokk-
urra daga viðræður gaf hann kost á sér í stöðuna. Hann taldi hins
vegar þá Vilhjálm Þór og Björn Ólafsson af sama sauðahúsi, þótt hvor
væri í sínum flokki, harðskeytta fjármálamenn, svo að hann bað um,
að skólabróðir sinn og vinur þeirra Sveins, Einar Arnórsson hæsta-
réttardómari, yrði líka í stjórninni. Einar hafði verið stuðningsmaður
Sjálfstæðisflokksins og í framboði fyrir hann 1927 og 1931, áður en
hann settist í Hæstarétt. Samþykkti Sveinn það á fundi á Bessastöðum.
Þegar þeir Björn Ólafsson og Vilhjálmur Þór fréttu þetta, vildu þeir
fá fimmta manninn í stjórnina og ráða honum sjálfir. Völdu þeir með
sér Jóhann Sæmundsson lækni, sem var Alþýðuflokksmaður.96 Þegar