Andvari - 01.01.2010, Blaðsíða 20
18
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
ANDVARI
E. Bergsveinsson yfirsíldarmatsmaður meiðyrðamál gegn honum. Var
Björn sýknaður í Hæstarétti, en þau ummæli hans um Jón í varnarskjali
fyrir rétti, að hann væri „óvandaður“, dæmd dauð og ómerk.18 Einnig
er þess getið, að Björn fór til Grikklands vorið 1936 til að reyna fyrir
sér um fisksölu og skoðaði þá hið forna hof Parþenon í Aþenu. Þar
í borg bjó þá gamall vinur hans, Þórður Albertsson, og átti að sinna
útflutningsmálum.19 Sveinn Björnsson sendiherra og Olafur Proppé,
framkvæmdastjóri Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda, komu þá
einnig til Grikklands í sömu erindum.20
Björn Ólafsson beitti sér veturinn 1934 með Skúla Thorarensen og
Jóni Ólafssyni í Alliance fyrir bættri fiskverkun. „Fiskurinn er tekinn
alveg nýr, þveginn vandlega og verkaður, hnakkaflettur, sporðskelltur
og himnudreginn. Síðan er hann frystur. Því næst er hann settur í
þurrkhús og hafður í þurrki í nokkra daga,“ skrifaði Morgunblaðið.
„Þannig meðfarinn er fiskur þessi mjög bragðgóður til neyslu, en auk
þess hreinni en harðfiskur annars getur verið.“21 Reistu þeir Skúli fisk-
verkunarhjall utan við bæinn. Framleiddu þeir um 30 lestir af harðfiski
og fluttu út til Ítalíu, en fengu ekki nógu gott verð fyrir. Héldu þeir
áfram þessum rekstri næsta árið, en þessi aðferð reyndist of dýr miðað
við söluverð, svo að þeir hættu þessum tilraunum. Þeir reyndu líka að
herða ufsa á trönum úti á Seltjarnarnesi 1935, og gafst það betur, og hélt
Skúli áfram að herða ufsa næstu árin.22 Björn Ölafsson fékkst einnig
við útgerð. Hann keypti ásamt Skúla Thorarensen, Þórði Hjörleifssyni
togaraskipstjóra og Geir H. Zoéga togarann Helgafell árið 1938.
Stundaði hann veiðar öll stríðsárin, seldi aflann í Bretlandi og „reynd-
ist hið mesta happaskip“.23 Þá er þess að geta, að Björn Ólafsson átti
hlut í ferðaskrifstofunni Heklu, sem rekin var á fjórða áratug og veitti
aðallega erlendum ferðamönnum þjónustu á Islandi. Þar starfaði Stefán
Stefánsson, leiðsögumaður og enskukennari, sem jafnan var nefndur
„Stebbi guide“.24
2.
Björn Ólafsson vann ekki aðeins ötullega að atvinnurekstri á þriðja
áratug tuttugustu aldar, heldur fékkst við ýmis áhugamál honum
óskyld. Hann iðkaði íþróttir, aðallega fimleika, sund og göngur. Ein
fyrsta blaðagrein, sem Björn skrifaði, í Morgunblaðið vorið 1915, var