Andvari - 01.01.2010, Blaðsíða 109
ANDVARI
DRAUMSILKI DEGINUM FEGRA
107
eitt helsta einkenni kvæðisins að myndmálið er úr ýmsum áttum, ein mynd
rekur aðra eða öllu heldur einn myndklasi annan. Þetta er ólíkt myndmál-
inu í ferhendunum hér að framan en hinsvegar í ætt við mikilvægan streng
í nútímaljóðagerð.
Að mínum dómi hefur þó verið gert fullmikið úr því hvað myndmálið sé
ósamstætt. Að minnsta kosti verður ekki sagt að kvæðið sjálft sé sundurlaust
og myndi ekki heild. Öðru nær, í því er mælandi sem heldur því saman frá
upphafi til enda: ávarpar ,hina föllnu borg‘ sem nú er í ,rústum‘ og minnist
glæstari daga hennar (1. erindi); setur fram athugasemdir um jarðlífið, bæði
almennar og einkalegar (2.-3. erindi); lýsir eigin sorg og sannfæringu um að
nýju lífi muni ætíð fylgja ný sorg (lokaerindi). Ljóðtegundin er ennfremur
skýr, sem stuðlar að einingu kvæðisins. Það er því vissulega rétt sem Hannes
Pétursson segir - með nokkrum þjósti og vísan til þess sem löngum var haldið
fram um Tímann og vatnið og einkunnarorð þess bálks við fyrstu prentun
- að „Sorg á ekki heima með þess konar ljóðum sem aðeins eru, en merkja
ekkert“.28 „Sorg“ er merkingarríkt kvæði - hún er harmljóð - og lýsir harmi
mælanda á þann veg að hann má rekja. Þar með er ekki sagt að öll atriði
kvæðisins séu fullljós.
Hannes bendir á eftirfarandi línur sem dæmi um biblíulegt myndmál í
„Sorg“:
Eins og kórall í djúpum sjó
varst þú undir bláum himninum,
eins og sylgja úr drifnu silfri
hvíldir þú á brjóstum jarðarinnar.
- og hér er á ferðinni stílbragð sem mjög var tíðkað í hebreskri ljóðagerð og
reyndar í fornum skáldskap margra fleiri þjóða að því er handbækur herma,29
parallellismar svokallaðir eða endurtekning sömu eða svipaðrar hugsunar
í breyttri mynd. Aðferðina er hvarvetna að finna í skáldritum Gamla testa-
mentisins. Skýrt dæmi er í upphafi Harmljóðanna:
Æ, hversu einmana er nú borgin,
sú er áður var svo fjölbyggð,
orðin eins og ekkja,
sú er voldug var meðal þjóðanna,
furstafrúin meðal héraðanna
orðin kvaðarkona.
Myndir kvæðisins af jarðlífinu hafa orðið ritskýranda tilefni til athugasemda
um samskipti karla og kvenna í kvæðinu, sem að hans dómi einkennast af
masókisma og sadisma: