Andvari - 01.01.2010, Blaðsíða 92
90
PÁLL BJARNASON
ANDVARI
við Þórunni í Odda án þess að Bjarna Thorarensen væri um það kunnugt.
Samkvæmt útdrættinum úr fyrrnefndri bréfabók skrifaði sr. Steingrímur
Bjarna Þorsteinssyni 23. ágúst 1815 um „allusioner til bónorðs hans eða huga
til Þórunnar, en þó hefur hann ekki þá beðið hennar. Steingrímur tekur létt
undir en óskaði helst alvöru.“ Þess mætti geta sér til að brýnt hafi verið að
taka af skarið vegna þess að annar biðill beið. í sjálfsævisögu sinni kveðst
Bjarni Þorsteinsson hafa beðið Þórunnar sumarið 1815, en ekki fengið jákvætt
svar fyrr en næsta ár, „sakir tilfallandi atvika“ sem hann skýrir ekki nánar.10
Bjarni Þorsteinsson hlaut embætti amtmanns á íslandi árið 1821 og fluttist
þá loks alfarinn heim frá Danmörku og gekk að eiga Þórunni. Hann var þá
kominn um fertugt en hún 13 árum yngri. Hjónaband þeirra varð langt og
farsælt og meðal barna þeirra var Steingrímur Thorsteinsson rektor og skáld,
heitinn eftir stjúpföður Þórunnar sem þá var orðinn biskup yfir íslandi.
Með þeim Bjarna Thorarensen og nafna hans Þorsteinssyni hélst einlæg
vinátta lengst af á meðan báðir lifðu, en um skeið verður þess vart að Bjarni
Thorarensen tortryggir nafna sinn.11 Beiskju gætir í bréfi hans dagsettu 10.
september 1817 sem líklega er skiljanleg ef höfð eru í huga þau atvik sem að
framan er greint frá. Af bréfinu sést að árið áður höfðu farið milli þeirra hrein-
skilin orð um viðkvæm mál sem Bjarni Thorarensen lætur sér nægja að tæpa á:
Hvað þau orð í mínu bréfi í fyrra snertir, sem það lítur út til að þú hafir steytt þig á, þá
segi eg þér satt að eg meinti þau ærlega eftir bókstafnum og hefi aldrei mistryggt þinn
móralska karakter, þó eg sjálfur ekki hafi haft verulega lukku á þér sem eg seinna skal
gefa þér hreinskilna útlistun á vegna þess eg óska vináttu þinnar sem ráðvands manns,
hvörn þú einnig skalt læra að þekkja í mér ef til efna kæmi. Um hitt get eg ei frekari
útlistun gjört skriflega vegna þess eg þá yrði að nefna vissar persónur á nafn.12
Bjarni Þorsteinsson vitjaði ættlands síns sumarið eftir að þetta var skrifað og
hafa þeir þá ef til vill jafnað ágreininginn sem mátti ekki nefna nema undir
rós, en framar verður ekki vart þessarar beiskju í bréfum Bjarna. Hann sýnir
jafnvel nafna sínum meiri trúnað en öðrum pennavinum þegar hann skrifar
næstu árin um kvonbænaraunir sínar. Þessar raunir voru skyndilega til lykta
leiddar þegar Bjarni skrapp vestur í Stykkishólm haustið 1820 og gekk að eiga
rúmlega tvítuga kaupmannsdóttur, Hildi Bogadóttur, sem hann hafði að lík-
indum ekki séð fyrr. Þá skrifaði hann Bjarna Þorsteinssyni tíðindin og sagðist
„í besta máta giftur“ og bætir við samanburði á konum þeirra: „Kona mín er
eins góð og eg held að kærasta þín sé og þarhjá rétt lagleg.“13
Bjarni Thorarensen talaði ávallt hlýlega um Þórunni Hannesdóttur. í bréf-
um, sem hann skrifaði nafna sínum fyrst eftir að þeir báðir kvæntust, bað
hann jafnan fyrir hjartnæmar kveðjur til Þórunnar: „Bið auðmjúklega að
heilsa þinni frú kærustu,“ „bið að heilsa þinni elskulegustu frú kærustu" og
„heilsaðu þinni elskuverðustu frú kærustu.“14 Eftir það sleppti hann kveðju-