Fréttatíminn - 20.12.2013, Blaðsíða 50
til að menn gefi eina handfylli af korni
á hvert tonn sem þeir selja, til þess að
hjálpa fátækum mönnum. En allir hristu
höfuðið og svo er bara hlegið. Annar
maður vill telja allt fram og leggja sitt til
samfélagsins en, ekki fyrir sjálfan sig
heldur fyrir hina, og er fyrir vikið bara
talinn geðveikur. Mér finnst við, í dag á
Íslandi, geta fundið okkur í verkinu. En
ég vil ekki hrista okkur með þessu verki
heldur faðma okkur. Ég vil að við horfum
hlýlega á sjálf okkur í gegnum verkið
og sjáum að við erum ennþá að glíma
við sömu hugmyndir og alltaf, frelsi ein-
staklingsins og hagsmuni almennings.
Hvenær gengur ríkið of langt og hvenær
gengur það of skammt?“
Auðvaldið er stóra ógnin
„Við erum breyskar verur sem þurfum að
glíma við þingræði og það getur verið jafn
erfitt og hjónabandið. Stóra ógnin gagn-
vart þingræðinu og lýðræðinu er auðvaldið.
Það sjáum við allsstaðar í kringum okkur
og getum tekið Ameríku sem dæmi. Það
er ríki sem glímir alltaf við togstreituna
milli lýðræðis og auðvaldsins sem hefur svo
mikil völd. Þetta er líka slagur okkar hérna
í okkar litla lýðræðisríki. Við eigum okkar
auðlindir og það eru stórir auðugir aðilar
sem vilja fá að dansa með okkur og við
getum verið svo varnarlaus gagnvart því.
Þar frekar en annarsstaðar gæti verið þörf
á borgaralegri uppreisn, í þeim tilfellum
þegar auðvaldið rænir lýðræðinu.“
Benedikt hitnar í hamsi þegar talið berst
að umhverfispólitík og biður mig vinsamleg-
ast um að skipta um umræðuefni til að koma
í veg fyrir ofbeldishneigð en klykkir út með
því að við ættum að taka okkur Mandela til
fyrirmyndar í umhverfisbaráttunni.
Listin víkkar sýnina
En hvernig er það, vildi Plató ekki aukið
aðhald gagnvart listamönnum? „Jú, því ríki
þar sem ríkir samkomulag um eitt gildis-
mat þarf að fylgjast vel með sagnamönn-
unum og passa upp á þá. Hómer getur til
dæmis verið hættulegur ríkinu því hann
segir sorglegar sögur af dauðanum og
framhaldslífinu í heljarheimi en það gæti
hrætt hermennina. Þetta er allt enn nálægt
okkur í dag. Við pössum til dæmis upp á
það hvað börnin okkar sjá á internetinu því
þar eru sagnamenn sem við viljum kannski
ekki að tali til þeirra. Þetta er grundvall-
arhugmynd sem gengur enn upp í dag en
getur auðvitað verið stórhættuleg.“
Í gríska leikhúsinu gat lýðurinn speglað
sig í vangaveltum skáldanna og brotið
samtímann til mergjar með hjálp heim-
spekinnar og listarinnar. En leikhúsið var
líka staður ádeilunnar og Aristófanes var
einn sá skæðasti þegar kom að því að deila
á samtímann. Er þetta eitt af hlutverkum
listamanna, að halda stjórnmálamönnum á
tánum?
„Ég held að það sé eitt af mörgum hlut-
verkum listamanna. Það eru ákveðnir lista-
menn sem taka það að sér, en það er erfitt
að fullyrða um listamenn því listamenn eru
af svo ólíkum toga og veiða svo ólíka fiska,“
segir Benedikt. „Annars finnst mér alveg
merkilegt með hana Kristínu Gunnlaugs-
dóttur og myndlistarsýninguna hennar
með píkunum í listasafninu, því vááá hvað
það er mikilvægt. Það að hún geri altaris-
töflu úr píkunni og lyfti henni svona upp,
þessu líffæri sem er bæði fæðingarvegur-
inn, uppspretta lífsins og svo mikillar gleði
en líka svo mikillar sorgar. Það beinist svo
mikið ofbeldi að píkunni og mér finnst hún
svo gott dæmi um listamann sem tekur
einhvern hlut, lyftir honum upp og býr til
nýjan fókus. Hún gerir altaristöflu úr þessu
efni. Þetta er mikilvægt. Og að Listasafn
Íslands skuli sýna þetta í sínum fínu sölum,
efni sem má ekki sýna á mörgum stöðum
í heiminum, hefur áhrif á gildismat okkar.
Nákvæmlega eins og þegar Kjarval fór að
mála grjót og mosa þá fóru góðborgararnir
að segja; já! þetta er líka fallegt. Þetta er
gott dæmi um listamann sem fjallar um
grundvallargildismat, tabú sem er lyft upp
og fyrir vikið fáum við víðari sýn. Það þarf
enginn stjórnmálamaður að vera hræddur
við þetta, en þetta er jafnmikilvægt og það
er hættulegt, og næstum því hættulegra en
leikhúspípið mitt,“ segir Benedikt.
Dónaskapur, klám
og pólitík um jólin
Aristófanes tryllti gríska lýðinn úr hlátri
löngu fyrir Krist og hefur verið kallaður
faðir kómedíunnar. Mega áhorfendur búast
við því að geta létt lundina í leikhúsinu þrátt
fyrir stórar áleitnar spurningar?
„Já, vonandi. Því við tökum á grund-
vallarspurningum á gleðilegan hátt og
svo er auðvitað fullt af dónaskap þarna
líka sem er alltaf hressandi. Þetta er nátt-
úrlega skrifað fyrir daga smekksins svo
það er mjög mikið um smekklausa hluti,
sem eru hreinlega ekki við hæfi, og munu
bara verða Þjóðleikhúsinu til skammar. En
vegna þess að brandararnir eru svo gamlir
þá geta menn ekki sagt neitt við því. Ari-
stófanes væri allavega með blóðug hnén
vegna allra afsökunarbeiðnanna ef hann
væri uppi í dag. Hann er einn mest kvótaði
fornaldarhöfundurinn út af dónaskapnum
og kláminu. Þú finnur hvergi jafn mikið
af klámfengnum orðatiltækjum eins í leik-
ritum hans og kannski er það þess vegna
sem verkin hafa varðveist svona vel. Þýðing
Kristjáns Árnasonar færir þetta til okkar á
frábæran hátt og svo má segja að þetta sé
söngleikur. Egill Ólafsson semur alla tónlist
sem er þó nokkur og danshöfundurinn
Steinunn Ketilsdóttir semur dansa kórsins.
Þetta verður svona dansandi dónaskapur.
Fólk má allavega búast við dónaskap, klámi
og pólitík. Því það er svo jólalegt.”
Óljós framtíð vegna niðurskurðar
Benedikt stefnir á að halda ótrauður
áfram í kvikmyndagerð. Hann mun
fylgja sinni fyrstu kvikmynd, Hross í
oss, eftir auk þess að vera kominn vel á
veg með undirbúning næsta verkefnis.
Næsta kvikmynd Benedikts mun tengj-
ast konum. „Já, það verður saga af mönn-
um og konum, „Kona í oss“ væri kannski
hægt að kalla hana.“ Hann verður þó
myrkur í máli þegar talið berst að henni.
„Ég stefndi að því að byrja á henni í
sumar en úr því verður ekki vegna niður-
skurðar til Kvikmyndamiðstöðvarinnar.
Það er enginn að fara að gera kvikmynd
á næsta ári sem ekki þegar hefur fengið
vilyrði frá sjóðnum. Þrátt fyrir að vera í
slíkri stöðu að erlendir sjóðir vilji styrkja
mig og vera meðframleiðendur, þá geri
ég ekkert án fyrsta kubbsins í dómínó-
spilinu, það er að segja Kvikmyndamið-
stöðvar Íslands. Þannig að ég er bara
kominn í biðröð, eins og svo margir aðrir
kvikmyndagerðarmenn á Íslandi, og veit
ekki hvernig það endar.“
Halla Harðardóttir
halla@frettatiminn.is
Benedikt
Erlingsson
leikstjóri: Þetta
er náttúrlega
skrifað fyrir
daga smekksins.
Við erum
breyskar
verur sem
þurfum
að glíma
við þing-
ræði og
það getur
verið jafn
erfitt og
hjóna-
bandið.
Stóra
ógnin
gagnvart
þing-
ræðinu og
lýðræðinu
er auð-
valdið.
50 viðtal Helgin 20.-22. desember 2013