Bændablaðið - 31.10.2013, Side 24

Bændablaðið - 31.10.2013, Side 24
24 Bændablaðið | Fimmtudagur 31. október 2013 Það er ekki á hverjum degi sem framleiddar eru heimildarmyndir um fjárleitir á Íslandi. Það telst því til tíðinda að hinn 22. september var kvikmynd gefin út, á DVD-formi, sem ber heitið Laufaleitir og segir frá upprekstri sauðfjár á Rangárvallaafrétt. Um fornfrægar leitir er að ræða og er talið að sögu þeirra megi rekja til upphafs átjándu aldar. Myndin er framleidd af Laufaleitir ehf. og einn af forsvarsmönnum þeirrar útgáfu er Guðmundur Árnason. Hann er uppal- inn á Hellu en var reglulega í sveit á Selalæk á Rangárvöllum þar sem mamma hans er fædd og uppalin. „Ég er barnabarn Jóns Egilssonar bónda á Selalæk en afi, frændur mínir og stórfjölskylda ráku á fjall hér áður fyrr. Mér rann því blóðið til skyldunn- ar, að mér fannst, að fara á fjall enda heyrt margar sögur sem juku áhugan jafnt og þétt. Fyrir sjö árum fór ég loks í fyrstu leit og hef farið hvert ár síðan. Þar sem ég er ekki bóndi fannst mér tilvalið að fara í þetta verkefni og hjálpa til við varðveislu þessara heimilda – sem jú enginn veit með vissu hve gamlar eru – og gefa almenningi um leið innsýn í smalamennsku og hvað það sé að fara á fjall. Við fjallmenn höfðum rætt okkar á milli að einhvern veginn þyrfti að varðveita heimildina um okkar smalamennsku en lítið gerðist þar til ég fór sjálfur að leita í heimildum sem var djúpt á, en ég gerði mér þó grein fyrir að það væri vel þessi virði,“ segir Guðmundur um aðdragandann að útgáfunni. „Í Jarðabók Árna og Páls frá 1709 er þess getið að allir bæir í Árverjahreppi, það er gamla Rangárvallahreppi, eigi afrétt og heitir annar Laufaleit – austan Markarfljóts. Afi, sem er fæddur og uppalin á Stokkalæk á Rangárvöllum, var sem peyi smalandi afréttinn langt fram eftir hausti. Þá lágu bæir ofar en nú er og engar girðingar til að hindra að fé færi inn á afrétt og lýsir aðstæðum sauðfjárbúskapar á Rangárvöllum áður fyrr.“ Laufaleitir kenndar við Laufafell „Laufaleitir á Rangárvallaafrétti eru kenndar við Laufafell, 1.164 metra hátt líparítfjall, innst í Rangárbotnum en afrétturinn er mikið til milli þriggja jökla; Tindfjalla-, Mýrdals-, og To r f a j ö k u l s . A u s t u r m ö r k afréttarins liggja við Mælifell og Strút, austast á Mælifellssandi, en liggja svo til vesturs niður á Rangárvelli milli Tindfjalla og Heklu. Vinsælar g ö n g u l e i ð i r liggja í gegnum afréttinn eins og Laugavegur og Strútstígur.“ Guðmundur er ekki lærður kvik- myndagerðarmaður en komst eftir svolitlar þreifingar í samband við Svein M. Sveinsson hjá Plúsfilm, sem tók það verkefni að sér að kvikmynda ferðina. „Sveinn er hokinn af reynslu við gerð heimildarmynda af þessu tagi. Hann kvikmyndaði og varð strax hrifinn af verkefninu – og á meðan á því stóð var hann oft á tíðum orðlaus yfir þeirri fjölbreyttu fegurð sem Rangárvallaafréttur hefur að geyma.“ Fegurð náttúrunnar og hlý bændamenning „Myndin var tekin upp haustið 2012 og gekk framar vonum. Leitirnar taka sjö daga og við fengum allt mögulegt veður; snjókomu, slyddu, rigningu, sól, rok og logn. En flesta daga var sól og gott. Vikan á undan var þó mjög slæm en það snjóaði þó ekki neitt miðað við það sem kom niður fyrir norðan þar sem við vitum öll að ástandið var mjög slæmt. Myndin lýsir smalamennsku á stórum afrétti, náttúrufögrum en á köflum harðsmöluðum. Myndin lýsir fegurð náttúrunnar vel en þó miklu betur þeim glaðbeitta anda og sam- stöðu sem ríkir meðal smalanna. Í henni kemur einkar vel fram hin sér- staka hlýja en jafnframt dálítið grófa menning bændasamfélagsins sem hún lýsir opinskátt og sannfærandi. Þá geymir myndin heimild um þau vinnu- brögð sem viðhöfð eru við göngur á Laufaleitum í gegnum aldirnar.“ Fjallkóngur með fimmtíu ára reynslu Fjallkóngurinn í myndinni er Ingimar Ísleifsson á Sólvöllum og hefur hann verið fjallkóngur í fyrstu leit síðustu 35 árin. Að sögn Guðmundar fór hann fyrst á fjall 14 ára gamall, haustið 1963, og hefur farið allar leitir síðan. „Þegar myndin var tekin upp haustið 2012 hafði Ingimar farið á fjall samfleytt í 50 ár. Einnig hefur Ingvar Magnússon á Minna- Hofi farið á fjall í rúm 50 ár og er hann fjallkóngur í annarri leit, sem farin er viku eftir fyrstu leit. Bændur eins og Ingvar og Ingimar þekkja afréttinn hvað best og það er með ólíkindum hversu sprækir þeir eru eftir öll þessi ár. Það eru því mikil forréttindi að geta notið liðsinnis þeirra og reynslu sem margoft hefur borgað sig við smölun. Svo er ekki síst gaman að syngja með þeim,“ segir Guðmundur að lokum. Heimildarmyndin er 75 mínútna löng með íslensku og ensku tali, ásamt aukaefni, og fæst í Mosfelli Hellu, Sveitamarkaðnum Hvolsvelli, Bókakaffinu Selfossi, verslunum Hagkaups, Líflands og Elko fríhöfn- inni. Sjá má stiklu um myndina á eftir- farandi vefslóð: http://www.youtube. com/watch?v=qKMWrWjVSC4. /smh Upprekstur á Rangárvallaafrétt kvikmyndaður: Heimildarmynd gefin út um Laufaleitir ÚTRÁS LEITAR AÐ BÆNDUM TIL SAMSTARFS Getur þú sem bóndi hjálpað öðrum að fóta sig í atvin- nulífinu? Útrás óskar eftir samstarfi við bændur sem hafa tök á því að fá fólk tímabundið í vinnu. Um er að ræða einstaklinga sem hafa verið án vinnu um tíma vegna atvinnumissis og/eða röskunar á geðheilsu. Viðkomandi einstaklingar eru að feta sín fyrstu spor á vinnumarkaði og þurfa mannvænt umhverfi, stuðning og skilning. Þetta er samfélagsverkefni sem allir hafa hag af, bændur, atvinnuleitandinn og samfélagið. Fagaðilar á vegum Útrásar veita ráðgjöf, stuðning og persónulega eftirfylgd. Nánari upplýsingar veita: Hlynur Jónasson, sími 823-2400, netfang: hlynurjonasson1@gmail.com Sylviane Petursson-Lecoultre, sími 845-6525, netfang: sylvianelecoultre@gmail.com Kristjánsbakarí hlaut Frum- kvöðlaverðlaun á sýningunni Matur-inn sem haldin var á Akureyri fyrir skömmu. Verðlaunin veitir félagið Matur úr Eyjafirði jafnan á sýningunum. Kristjánsbakarí hlaut verðlaunin fyrir frumkvöðlastarf og farsælan rekstur í yfir 100 ár, en félagið náði einmitt þeim áfanga í fyrrasumar að fagna aldarafmæli sínu. Fyrirtækið er í fámennum hópi fyrirtækja sem náð hafa svo háum aldri og verið í eigu sömu fjölskyldu. Á myndinni er til hægri Sunna Birgisdóttir, dóttir Birgis Snorrasonar sem aftur er sonur Snorra Kristjánssonar, en sá var sonur Kristjáns Snorrasonar sem stofnaði bakaríið árið 1912. Sunna heldur á blómvendi og viðurkenningu en með henni er Júlía Sjöfn Sigurjónsdóttir, starfsmaður í Kristjánsbakaríi. /MÞÞ Kristjánsbakarí fékk frumkvöðlaverðlaun Guðmundur Árnason, einn aðstand- enda Laufaleita ehf. Fulltrúar þeirra verkefna sem hlutu vilyrði fyrir styrk úr Vaxtarsamningi Norðausturlands: Arnheiður, Hólmfríður, Bjarni Páll, Sigurlína, Helgi, Sigríður og Gréta. Vaxtarsamningur Norðausturlands: Sjö verkefni fengu vilyrði um 8 milljónir Verkefnisstjórn Vaxtarsamnings Norðausturlands samþykkti á fundi fyrr í þessum mánuði að veita sjö verkefnum vilyrði um þátttöku. Alls bárust tíu umsóknir að þessu sinni þar sem sótt var um rúmlega 26,0 milljónir króna, en áætlaður heildar verkefniskostnaður var 63,4 milljónir. Heildarupphæð veittra styrkvilyrða var tæpar 8,0 milljónir króna og er heildar- kostnaður þeirra verk efna sem vilyrði hlutu áætlaður um 37,6 milljónir. Með þessari úthlutun hefur verið úthlutað úr yfirstandandi samningi til 31 verkefnis, samtals 60,3 milljónum. Standa um 20 milljónir eftir til ráðstöfunar, en samningurinn gildir út árið. Hefur verkefnisstjórn ákveðið að næsti umsóknarfrestur verði 5. nóvember. Stórikarl, grásleppa og þörungar Styrkvilyrði voru afhent á veitingastaðnum Sölku á Húsavík nýlega. Eitt þeirra er verkefni sem er miðað að því að bæta aðgengi að Stórakarli. Langanesbyggð er í forsvari fyrir það verkefni og fékk vilyrði fyrir allt að tveimur milljónum króna. Verkefni sem gengur út á að fullþróa vinnslu grásleppuhrogna og finna þeim nýjan markað hlaut vilyrði fyrir rúmlega 1,5 milljónum króna, en að því stendur GPG Seafood ásamt samstarfsaðilum. MýSköpun, greining lífefna úr þörungum, fékk allt að tvær milljónir króna, en forsvarsaðili er MýSköpun ehf. og samstarfsaðilar Háskólinn á Akureyri og Náttúrufræðistofnun Íslands (Akureyrarsetur). Fingurbjargir, hestar og landkönnuðir Þingeyskar fingurbjargir – markaðssetning er verkefni sem fékk vilyrði fyrir ríflega 500 þúsund krónum. Markmið verkefnisins er að markaðssetja framleiðsluvörur samstarfshópsins, en þær eru tengdar safnmunum frá Byggðasafni Norður- Þingeyinga að Snartarstöðum. Námsmannaferðir og kynning fékk allt að 500 þúsund krónum. Forsvarsaðili er Jarðskjálftafélagið á Kópaskeri og samstarfsaðilar Gistiþjónustan á Kópaskeri, Hótel Skúlagarður og Þekkingarnet Þingeyinga. Hestatengd ferðaþjónusta – markaðssetning – fékk eina milljón króna. Forsvarsaðili er Saltvík ehf. og samstarfsaðilar Hrossaræktarfélög Eyfirðinga og Þingeyinga, Húsavíkur stofa, Svisshólar í Sviss og Ferðaskrifstofan Riding Iceland. Litlir landkönnuðir – allt að kr. 375 þúsund krónur. Forsvarsaðili er Þekkingarnet Þingeyinga og samstarfsaðilar Langanesbyggð og Svalbarðshreppur. Verkefnið gengur út á frekari þróun og hönnun á ævintýrakorti fyrir ferðamenn sem koma í Bakkafjörð, á Langanes og í Þistilfjörð. /MÞÞ

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.