Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.05.1990, Blaðsíða 6

Læknablaðið - 15.05.1990, Blaðsíða 6
230 LÆKNABLAÐIÐ þýðingu þessa í ofangreindum hópum, enda hafa þessar athuganir byggst á einni ræktun frá hverjum einstaklingi (cross-sectional), og þeim ekki fylgt eftir. Há tíðni Gram- neikvæðra lungnabólgna hefur verið rakin til sýklunar Gram-neikvæðra stafbaktería í hálsi veikra sjúklinga, þótt þessi tengsl hafi ekki verið könnuð til hlítar nema hjá sjúklingum á gjörgæsludeildum (6). Nýleg könnun (17) meðal vistmanna hjúkrunarheimilis gaf þó til kynna að sýklun meðal þeirra væri breytileg og tímabundin auk þess sem enginn þátttakenda, hvorki sýklaðir né ósýklaðir, fengu lungnabólgu meðan á rannsókninni stóð. Samhengi sýklunar og lungnabólgu aldraðra er því ekki með öllu ljóst. Með ofangreint í huga könnuðum við sýklun í hálsi sjúklinga á öldrunarlækningadeild, bæði með sneiðrannsókn (cross-sectional), þar sem ein ræktun var tekin úr hálsi hvers sjúklings án tillits til legutíma, og langtímarannsókn (longitudinal), þar sem hálsræktanir voru teknar vikulega frá innlögn til útskriftar. Til samanburðar voru annars vegar gerðar sneiðrannsóknir á öldruðum einstaklingum á vistheimili og hins vegar á einstaklingum er bjuggu á eigin heimilum. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Sjúklingar: Til sneiðrannsóknar voru valdir sjúklingar er lágu á öldrunardeild Borgarspítala í annarri viku janúarmánaðar 1986 (hópur A, 39 sjúklingar), íbúar vistheimilis aldraðra (Seljahlíðar, hópur B, 30 manns) og aldraðir sem bjuggu á eigin heimilum (hópur C, 21 einstaklingur). Sýnum frá hópi A var safnað á þremur dögum, frá hópi B við vitjanir að vistheimilinu á tveimur aðskildum dögum í sömu vikunni og frá hópi C við þjónustuvitjanir í heimahús. Jafnframt var gerð langtímarannsókn með vikulegum hálsræktunum á sjúklingum sem lögðust inn á öldrunardeild á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 1986 og voru tekin 2-22 sýni frá hverjum sjúklingi (hópur D, 52 sjúklingar). Að jafnaði voru fyrstu sýni tekin við komu og ekki síðar en þremur dögum eftir innlögn. Síðasta sýni var tekið í útskriftarviku. Enginn sjúklinga í hópi A var jafnframt í hópi D eða öfugt. Ekki var reynt að para einstaklinga innan hópanna saman, enda þeir ekki sambærilegir að því er heilsufar og búsetu snerti. Rannsókn þessi var samþykkt af starfsnefnd (siðanefnd) Borgarspítala. Skráðar upplýsingar: Eftirfarandi upplýsingar voru skráðar fyrir einstaklinga í öllum hópum: Persónulegar upplýsingar, sjúkdómsgreiningar, elliglöp, sjálfsbjargargeta, þvagleki, saurleki, reykingar, tilvist gervitanna og þvagleggs og sýklalyfjagjafir innan tveggja vikna fyrir sýnatöku. Ennfremur voru skráð tilfelli neðri öndunarfærasýkinga (berkjubólga, lungnabólga) meðal sjúklinga í hópi D meðan á rannsókn stóð. Upplýsingar voru fengnar frá sjúklingunum sjálfum, úr sjúkraskrám og frá starfsfólki auk þess sem einn höfunda (S.S.) tók þátt í umönnun sjúklinganna sem aðstoðarlæknir á öldrunardeild Borgarspítala þann tíma sem rannsóknin fór fram. Vinnsla sýna: Einn höfunda (S.S.) tók öll sýnin. Voru þau tekin á rayon ræktunarpinna (Culturette ®, Marion Scientific, Kansas City, Missouri), sem strokið var vandlega yfir hálskirtla og munnkok með staðlaðri tækni (18). Sáð var frá ræktunarpinnunum á 5% kindablóðagar, Thayer Martin agar, MacConkey agar og í thioglycollate hálffljótandi broð. Sýnin voru höfð í hitaskáp við 35°C í 5% koldíoxíði í að minnsta kosti 18-24 klst. Gram-neikvæðar stafbakteríur sem uxu voru greindar með API-20 E greiningarkerfi (La Balme Les Grottes, Montalieu Vercieu, Frakklandi) en aðrir sýklar með venjulegum aðferðum (19) á sýklarannsóknadeild Borgarspítala. Sýklun var skilgreind sem tilvist Staphylococcus aureus, Pseudomonas spp., Enterobacteriaceae eða Achromobacteriaceae á agarskálum eða í broði. Staðtöluleg úrvinnsla: Staðtölulegt mat var lagt á niðurstöður með kí-kvaðrat (chi-square) prófi og t-prófi Student’s (StatView 512+, BrainPower Inc., Calabasas, Califomia) svo og stefnuprófi (trend test, 20) eftir því sem við átti. NIÐURSTÖÐUR Sjúklingar: Samanburður á helstu sérkennum, ástandi og sjúkdómsflokkun þátttakenda er sýndur í töflu I. Meðalaldur sjúklinganna í hópunum fjórum var 75,8-84,3 ár, og var hópur C marktækt yngri en hinir (p<0,05).
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.