Læknablaðið - 15.05.1990, Blaðsíða 28
250
LÆKNABLAÐIÐ
eða fyrirburðarfæðingu er að ræða (1). Hægt
er að komast hjá notkun róandi lyfja og
verkjalyfja, sem hafa sljóvgandi áhrif á móður
og bam. Ef til keisaraskurðar kemur, er konan
í betra ástandi og áhættan við aðgerðina
verður minni, auk þess sem hægt er að nota
deyfingarlegginn til deyfingar fyrir aðgerðina.
í þeim 80 fæðingum á árinu 1988, þar sem
lendadeyfing hafði verið notuð við tilraun til
fæðingar um fæðingarveg, en þar sem síðan
þurfti að grípa til keisaraskurðar, var deyfingin
notuð í 67 tilvikum við aðgerðina (83,8%).
Lendadeyfingum geta fylgt ýmsir fylgikvillar,
sem í sérstökum tilvikum geta verið
lífshættulegir fyrir móður og bam. I öðrum
tilvikum geta þær haft óheppileg áhrif
á eðlilegan gang fæðingarinnar. Sé hins
vegar vandað til verka og strangar kröfur
gerðar til hæfni þeirra sem við þetta fást, er
hætta á fylgikvillum óveruleg og hættan á
lífshættulegum fylgikvillum nánast engin. í
könnun þeirri sem hér er lýst voru alvarlegir
fylgikvillar örfáir og enginn langvinnur.
Þekktasti fylgikvillinn er stunga gegnum
mænubast með leka á mænuvökva og slæmum
höfuðverk í kjölfarið. Tíðni þessa fylgikvilla
fer eftir hæfni þess er deyfir. Eðlileg tíðni
telst 1-3% (3), en lýst er tíðnitölum niður í
0.2% (3). I könnuninni sem hér er lýst varð
þetta slys aðeins tvisvar (0,35%). Höfuðverkur
vegna mænuvökvaleka getur verið mjög
slæmur. Meðferð felst í ríkulegri vökvagjöf
og rúmlegu. I völdum tilvikum getur þurft að
loka gatinu í mænubastinu með því að sprauta
blóði inn í utanbastsrúmið (blood patch).
Deyfingarleggir geta þræðst óviljandi inn í
æðar og hefur verið lýst í 1-10% tilvika (5).
Sést þá yfirleitt blóð renna inn í legginn.
Alvarlegustu fylgikvillar lendadeyfingar
geta orðið, ef deyfingarleggurinn er
óafvitandi þræddur inn í æð eða inn fyrir
mænubast. Þessir fylgikvillar komu ekki
fyrir í könnuninni sem hér er gerð grein
fyrir. Gjöf búpívakaíns í æð getur valdið
hjartsláttartruflunum og krömpum (6). Þessi
hætta er talin meiri eftir búpívakaín en
eftir samsvarandi skammta af lídókaíni (7).
Ekki er talin hætta á eitrunareinkennum
af 0,25% búpívakaíni ef það lendir ekki
í æð (8). Gjöf staðdeyfilyfja inn fyrir
mænubast getur valdið útbreiddri deyfingu,
hættulegu blóðþrýstingsfalli (9) og jafnvel
öndunarlömun.
Algengasti fylgikvilli lendadeyfingar
er blóðþrýstingslækkun, sem búast má
við í 4-5% tilfella, þrátt fyrir venjulegar
varúðarráðstafanir (3). Yfirleitt er auðvelt að
komast hjá alvarlegri blóðþrýstingslækkun
með því að halda skömmtum af staðdeyfilyfi
innan hæfilegra marka, gefa vökva í æð
og hafa konuna í hliðarlegu (10). Sumir
telja minni hættu á blóðþrýstingslækkun,
ef lyfið er gefið í sídreypi (4). Ef
blóðþrýstingslækkun nálgast hættumörk, eru
gefin blóðþrýstingshækkandi lyf í æð. Yfirleitt
er notað efedrín (2). í fyrirliggjandi könnun
var efedrín gefið í 4% tilvika, þótt aldrei væri
um meiri háttar blóðþrýstingsfall að ræða.
Algengasta vandamálið er þó ófullkomin eða
misheppnuð deyfing. í könnuninni var árangur
metinn lítill eða enginn í 6,5% tilvika, sem
er sambærilegt við erlendar tíðnitölur (3).
Arangur var örlítið lakari hjá aðstoðarlæknum
en sérfræðingum, en munurinn ekki
tölfræðilega marktækur. Ofullkomin eða
misheppnuð deyfing var yfirleitt talin stafa
af afbrigðilegri legu leggjarins, annaðhvort
á óheppilegum stað í utanbastsrúmi (sem
leiðir til ójafnrar dreifingar staðdeyfilyfs og
»hálfrar deyfingar«, þ.e. konan dofnar aðeins
öðrum megin) eða leggur hefur verið þræddur
inn í bandvefi hryggjarins áður en komið
var inn í utanbastsrúmið. I sumum tilfellum
var augljóslega um að ræða of langan tíma
milli áfyllinga staðdeyfilyfs, en í nokkrum
tilvikum var deyfing greinilega lögð of seint.
Eins konar skilrúm í utanbastsrúmi eru að
einhverju leyti talin geta skýrt hálfar deyfingar
(11). Tíðni hálfra deyfinga nær allt að 10-20%
og er ýmist talin stafa af því að leggurinn
hafi verið þræddur of langt inn og leitað til
annarrar hliðarinnar eða að ekki hafi verið
farið inn í hrygginn í miðlínu og leggurinn
þannig lent til hliðar (12).
Ef notaðar eru sterkar lausnir staðdeyfilyfja
eða þau gefin í stórum skömmtum fæst
betri deyfing og hálfar deyfingar verða færri
(13). Hins vegar aukast þá óæskileg áhrif
deyfingarinnar á eðlilegan gang fæðingar (13).
Slík deyfing veldur óeðlilegri slökun á
grindarbotnsvöðvum (10,14), auk þess sem
vöðvar í kviðvegg og fótum verða máttlausir.