Læknablaðið - 15.04.1994, Blaðsíða 33
LÆKNABLAÐIÐ 1994; 80: 155-164
155
Tómas Helgason
FARALDSFRÆÐILEGAR RANNSÓKNIR í
GEÐLÆKNISFRÆÐI Á ÍSLANDI
ÁGRIP
Faraldsfræðilegar rannsóknir á geðtrufiunum
hafa verið stundaðar á Islandi í 150 ár.
Niðurstöður nokkurra þeirra eru notaðar
í þessari grein til að sýna notkunarsvið
faraldsfræðilegra rannsókna.
Samkvæmt niðurstöðum fyrstu
rannsóknarinnar, sem framkvæmd var á
árunum 1839-1841 virtist algengi geðtruflana
vera meira á Islandi en í Danmörku. Ástæða
þess var, að í fámenninu á íslandi var
mun auðveldara að finna sjúklinga með
geðtruflanir. Síðari tíma rannsóknir hafa sýnt
að tíðni geðtruflana á Islandi er svipuð og í
öðrum löndum. Tíðnin hefur ekki breyst á
þessari öld nema tíðni alkóhólisma sem hefur
aukist á síðari hluta aldarinnar.
Algengi geðtruflana hjá fólki á aldrinum fimm
til 60 ára er um 20%, en eykst eftir sjötugt
vegna geðtruflana samfara hrörnun í heila.
Nýgengi er um 1%. Sjúkdómslíkur til sextugs
voru áætlaðar 34%, en eru líklega hærri ef
tekið er tillit til áfengismisnotkunar og vægari
kvíðatruflana.
Mikið vantar á að allir fái viðeigandi
læknismeðferð. Ætla má að 40-50.000
Islendingar hafi einhvers konar geðtruflun á
hverjum tíma. Geðlæknar sjá aðeins um 8000
sjúklinga á ári og líklega fá ekki nema 7000
manns geðlyf önnur en svefnlyf á hverjum
mánuði. Flestir sem fá geðlyf, fá þau hjá
heimilslæknum en lyf eru aðalráð þeirra við
geðtruflunum. Um 1600 manns leggjast inn
á sjúkrastofnun árlega til meðferðar vegna
misnotkunar áfengis og annarra vímuefna.
Unnt ætti að vera að gera forvarnastarf
áhrifaríkara með því að sinna áhættuhópum,
sem hafa verið skilgreindir.
Byggt á Qrindi sem flutt var á vísindaþingi Læknafélags
íslands 15. september 1993, í tengslum við 75 ára afmæli
þess.
Nauðsynlegt er að læknasamtökin standi
vörð um rannsóknarfrelsið og stuðli að
frekari faraldsfræðilegum rannsóknum á
öllum sviðum læknisfræðinnar. Þær eru
undirstaða skynsamlegrar skipulagningar
heilbrigðisþjónustunnar. Með slíkum
rannsóknum á Islandi er hægt að auka hinn
alþjóðlega þekkingarforða.
INNGANGUR
Faraldsfræðin fjallar um sjúkdóma meðal
fjöldans (1), hvernig þeir dreifast og hvað
hefur áhrif á tilurð þeirra og gang, og
notkun þessarar þekkingar til að draga úr
heilsufarslegum vanda (2). Faraldsfræðin
er þannig grunnfag heilbrigðisfræðinnar.
Án faraldsfræðilegrar þekkingar eru
heilbrigðisaðgerðir, sem miða að því að
koma í veg fyrir eða draga úr sjúkdómum,
marklausar. Faraldsfræðilegar rannsóknir
fjalla um tíðni sjúkdóma eða afbrigða meðal
þjóðarinnar og hópa innan hennar og miða að
því að rannsaka hvort tíðnin sé mismunandi
í mismunandi hópum og athuga hvað það
er, sem sérkennir hópa með háa og lága
sjúkdómstíðni. Sjúkdómstíðnin er mæld
sem algengi, nýgengi eða sjúkdómslíkur.
Sjúkdómslíkur hafa þann kost, þegar verið
er að leita orsaka, að hægt er að bera þær
beint saman milli ákveðinna hópa, án tillits
til mismunandi aldursdreifingar og dánartölu.
Sjúkdómslíkur eru skilgreindar sem líkur
einstaklings á ákveðnum aldri til að fá
sjúkdóm einhvern tímann á ævinni eða fyrir
einhvern tiltekinn hærri aldur ef hann lifir
svo lengi. Þegar um er að ræða sjúkdóma
sem ekki hafa áhrif á lífslengd í sjálfu sér,
er hægt að nota lífsalgengi á ákveðnum aldri
sem mál fyrir sjúkdómslíkurnar fram að þeim
aldri. Lífsalgengi er fjöldi þeirra sem náð
hafa þessum aldri og hafa eða hafa haft þann
sjúkdóm sem verið er að rannsaka.
Faraldsfræðilegar rannsóknir geta annað hvort
verið þversniðs- eða langsniðsrannsóknir.