Nýjar kvöldvökur - 01.06.1929, Side 4
54
NÝJAR KVÖLDVÖKUR
12. Þýddar sögur:
út kom á voru máli í fyrra »Njáls saga
þumalings« eftir Selmu Lagerlöf. Er sú
bók einstætt snildarverk og mun afla sér
hér á landi mikilla vinsælda, svo sem
hvarvetna annarstaðar. Aðalsteinn Sig-
mundsson, skólastjóri á Eyrarbakka, hef-
ir þýtt bókina — og virðist mér þýðing
hans mjög vandvirknisleg, þótt vart hafi
þýðandinn náð þeim töfrum í stílinn, sem
í honum er á sænskunni.
Þá hefir og verið þýdd á íslenzku síð-
asta bók Jóns Sveinssonar. Heitir hún
»Á Skipalóni« og mun sjálfsagt verða vel
þegin af íslenzkum æskulýð.
Um alllangt skeið hafa birzt í »Lög-
réttu« »Vesalingarnir« eftir Victor Hugo.
Þorsteinn Gíslason er sá ritstjóri á landi
hér, sem mest og bezt hefir vandað til
þeirra sagna, sem birzt hafa í blaði hans.
Meðan hinir ritstjórarnir hafa leitast við
að svala glæpasöguþorsta hinna van-
þroskuðustu manna, hefir Þorsteinn birt
eina söguna annari betri. En »Vesaling-
arnir« taka öllu öðru fram, sem »Lög-
rétta« hefir flutt. Þar fer saman hin
fullkomnasta frásagnarsnild, hinar ó-
gleymanlegustu persónulýsingar og hið
auðugasta ímyndunarafl, sem hægt er að
hugsa sér.
Einnig hefir komið út sem sérprentun
úr »Lögréttu« útdráttur úr hinni miklu
bók Giovanni Papinis um Jesúm Krist.
Papini er hinn mesti ritsnillingur, og bók
hans er þrungin eldlegum sannfæringar-
mætti.
III.
LJÓÐ.
1. Sigurjón Friðjónsson: Ljóðmæli.
í fjölda mörg ár hafa birzt á víð og
dreif í blöðum og tímaritum kvæði eftir
Sigurjón Friðjónsson. Nú hefir Sigurjón
safnað saman kvæðum sínum, yngri og
eldri og gefið út ljóðabók. Er bókin æði
stór, enda í henni mesti fjöldi af kvæð-
um. Mörg af kvæðunum eru lík að efni
og blæ, og verður því lesturinn heldur
þreytandi og tilbreytingarlítill. En samt
sem áður eru í bókinni mörg falleg kvæði.
Tindra sum þeirra af æsku, ást og feg-
urð, og meðferð Sigurjóns á máli og rími
er oft prýðileg og oftast svo, að mjög vel
verður við unað. Er eg í engum vafa um
það, að úrval úr kvæðum Sigurjóns
mundi sóma sér mæta vel í íslenzkum
bókmentum.... Er gaman að bera saman
skáldskap þeirra bræðra, hans og Guð-
mundar. Sigurjón er þýtt og stundum
angurvært hughrifaskáld, málið mjúkt
og rímið eins og seitlandi lind. f kvæðurn
Guðmundar glitra aðdáanlega fallegar og
sérkennilega sagðar setningar, mál hans
er litauðugt og magnþrungið, og í hrynj-
anda hans er málmgnýr.
2. Kjartan Gíslason frá Mosfelli: Næt-
urlogar.
Ljóðabók Kjartans frá Mosfelli er hið
ytra prýðilega úr garði gerð. En hið
innra morar hún af smekkleysum og f jar-
stæðum. Hvergi er fallega gripið á efni,
alt er dautt og dofið — afskræmt og lim-
lest. Virðist höfundurinn svo laus við að
vera listamaður, að áreiðanlega væri bezt
honum og öðrum, að hann léti þessa
fyrstu ljóðabók sína verða hina síðustu.
3. Þýðingar Magnúsar Ásgeirssonar.
Magnús Ásgeirsson hefir gefið út ljóða-
þýðingar. Þarf ekki lengi að lesa til þess
að sjá, að þýðandinn kann vel með að fara
mál og rím. Er víðast vel þýtt og sum-
staðar af snild. Og þótt ekki verði sagt,
að öll kvæðin séu veigamikill skáldskap-
ur, þá er þó gróði að bókinni. Væri æski-
legt, að Magnús gæfi sig að þýðingum
framvegis, en legði sig ekki niður við
annað en afbragðs kvæði. Ágætt væri, að
hann þýddi sum beztu ljóð hinna yngstu
skálda Norðurlanda og stórþjóðanna, svo