Uppeldi og menntun - 01.01.2013, Blaðsíða 24
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 22(1) 201324
nám og námsUmhverfi 21. aldarinnar
herbergi af misjöfnum stærðum og sameiginleg vinnuaðstaða kennara var í helmingi
tilvika tengd vinnusvæðum nemenda. Í þessum fjórum skólum fór kennsla unglinga
fram í hefðbundnara rými en kennsla yngri nemenda.
Túlka má orðræðu viðmælenda á þann hátt að lykill að einstaklingsmiðun og fjöl-
breyttu hópastarfi sé markvisst samstarf kennara og samkennsla enda kemur fram
að kennarar sem hafa mikið samstarf við starfsfélaga ganga lengra í að laga námið að
þörfum nemenda. Með því að hanna skólahúsnæði á þann veg að það auðveldi sam-
starf kennara og sé fjölbreytt og sveigjanlegt má segja að verið sé að auka möguleika
skóla á því að sníða starfið að þörfum ólíkra hópa og hverjum og einum nemanda (sbr.
Nair o.fl., 2009).
Bygging skapar tiltekna möguleika og skólastefna varðar veginn. Þetta tvennt gefur
vísbendingar um áform og sýn. Af viðtölum og skriflegum gögnum frá viðkomandi
sveitarfélögum má þannig ráða að við upphaf þessarar aldar hafi þeim verið um-
hugað um að horfa fram á veg og stuðla að því að námsumhverfið hæfði skólastarfi á
nýrri öld. Námsumhverfið skapar aðstæður en á endanum eru það starfshættir kenn-
ara og annarra starfsmanna sem ráða úrslitum um hvort sýnin verður að veruleika.
Viðhorf kennara til starfs og námsumhverfis
Kennararnir sem svöruðu spurningalistunum voru almennt sammála því að í skól-
anum sem þeir starfa í sé góður starfsandi, þar fari fram gagnrýnin umræða um
skólastarfið og þar sé lögð mikil áhersla á samvinnu starfsfólks. Þetta eru nokkur af
einkennum lærdómssamfélags eða skóla sem lærir (Anna Kristín Sigurðardóttir, 2010;
Eaker, DuFour og DuFour 2002). Samþykki kennara við þessum atriðum virðist vera
hvað sterkast í Furuskóla þar sem lengst hefur verið gengið í opnun. Þetta gæti rennt
stoðum undir ályktun Önnu Kristínar Sigurðardóttur (2010) um nauðsyn þess að
opna vinnuumhverfi kennara til að styrkja lærdómssamfélagið. Þetta er þó ekki algilt
því í Greniskóla, þar sem húsnæðið var opið að hluta, voru kennarar ekki eins sam-
mála þessum fullyrðingum. Samstarf kennara um undirbúning kennslu, val á náms-
efni, kennsluaðferðir, bekkjarstjórnun, yfirferð námsefnis, námsmat og sameiginleg
verkefni var mest í Furuskóla og Birkiskóla sem báðir skáru sig marktækt frá hinum
skólunum 19 í úrtakinu. Í Furuskóla var samkennsla algengt kennsluform og að hluta
í Greniskóla en hún var aftur á móti fátíð í klasaskólunum tveimur og þá sérstaklega
í Asparskóla. Ef þessi niðurstaða er borin saman við hönnunarforsendur skólanna
má álykta að í skólunum tveimur sem hannaðir voru með opin rými hafi þau verið
hvati til samkennslu, en klasafyrirkomulag og felliveggir hafi ekki leitt af sér aukna
samkennslu í hinum tveimur skólunum. Þannig má segja að samstarf og samkennsla í
Asparskóla sé ekki eins ríkuleg og vonast var til miðað við forsendur í hönnun. Aftur
á móti virtust kennarar sem störfuðu í klasaskólunum tveimur vera ánægðari með
húsnæðið og töldu það henta betur þeim kennsluháttum sem þeir vildu helst viðhafa
en kennarar sem kenndu í opnu kennslurými.
Mikil áhersla var lögð á að skapa góða hljóðvist í þessum nýju skólum, það er að
hljóð og hljóðburður sé þægilegur og hæfi því starfi sem fram á að fara í rýminu. Einn
viðmælandi talaði um að opin rými stæðu og féllu með hljóðvistinni. Mat kennara