Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.10.2012, Blaðsíða 54
54 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 28.10. 2012
Menning
Þetta hefur verið lærdómsríkt ferli og í raunnokkurs konar eldskírn, þó svo við búumyfir mikilli reynslu þegar kemur að fjöl-
breytileika við uppsetningar við allskonar að-
stæður,“ segir Gísli Örn Garðarsson, leikstjóri
Bastarða sem leikhópurinn Vesturport frumsýnir
á stóra sviði Borgarleikhússins um helgina. Vísar
hann til þess að sýningin er unnin í samstarfi við
Borgarleikhúsið, Malmö Statsteater og Teater
Får302 í Kaupmannahöfn. Hún var forsýnd á
Listahátíð í Reykjavík sl. vor með íslenskum,
sænskum og dönskum leikurum og í framhaldinu
sýnd í Malmö og Kaupmannahöfn við góðar við-
tökur áhorfenda og gagnrýnenda.
Spurður hvort sýningin hafi tekið miklum
breytingum á sýningarferlinu svarar Gísli því ját-
andi og bendir sem dæmi á að þrjár persónur hafi
verið skrifaðar út úr verkinu síðan það var frum-
sýnt í vor. „Grunnsagan er hins vegar enn sú
sama. Þetta fjallar um föður sem á fjögur börn
sem hann vill losna við úr sínu lífi og öfugt,“ segir
Gísli og heldur áfram: „Þó að verkið sé innblásið
af Karamazov-bræðrum Dostojevskis erum við
samt með nýtt verk í höndunum þar sem meðal
annars fléttast inn hugmyndir um þróun og upp-
runa okkar frá tímum víkinganna til dagsins í
dag,“ segir Gísli og leggur áherslu á að persónur
verksins séu mjög litríkar. „Þær eru hins vegar
týndar og hamast við að finna eitthvert haldreipi
sem aftur kallast vel á við samtímann í dag. Það
er margt óuppgert í lífi þessara persóna. Þau hafa
mikla þörf fyrir því að komast út úr þeirri hring-
rás sem þau virðast föst í,“ segir Gísli.
Leikmynd í tjaldi
Börkur Jónsson leikmyndahönnuður hefur
smíðað heilmikinn ævintýraheim fyrir persónur
verksins með trjám sem hægt er að klifra í, hálf-
hrundu glerhýsi og tjörn. „Þetta er heimur þar
sem náttúran ræður ríkjum og búast má við ham-
förum. Okkur fannst spennandi að sjá sam-
tímafólk kljást við aðstæður sínar í þessu um-
hverfi,“ segir Börkur. Hann teiknaði leikmyndina
með hliðsjón af því að hún þyrfti bæði að virka á
leiksviði og í stóru tjaldi, því Svíarnir gerðu ófrá-
víkjanlega kröfu um að sýningin væri leikin í tjaldi
í Malmö. „Það var talsverður línudans og púsluspil
að láta hlutföll, stærðir og sjónlínur ganga upp í
báðum rýmum, en það er bara partur af starfinu,“
segir Börkur og Gísli grípur boltann á lofti.
„Börkur er einn af okkur færustu leikmyndahönn-
uðum. Hann býr yfir gríðarlegri reynslu og fag-
mennsku, auk þess sem hann er flinkur að útfæra
hlutina innan skynsamlegs fjárhagsramma.“
Teiknaði Woyzeck átta sinnum
Samstarf þeirra Barkar og Gísla hefur verið mjög
gjöfult á síðustu árum, en Börkur hannaði leik-
myndirnar fyrir leiksýningarnar Rómeó og Júlíu,
Woyzeck, Hamskiptin og Hróa hött sem Gísli leik-
stýrði. Spurðir hvort þeir kunni skýringu á góðu
samstarfi sínu svarar Börkur: „Við erum báðir
fremur umburðarlyndir og þolinmóðir. Á sama
tíma erum við báðir mjög fastir fyrir, en við tölum
alltaf saman af skynsemi.“ Að sögn Gísla hefst
vinnan við sýningar sem þeir Börkur vinna saman
ávallt á því að þeir leita svara við því hvar verkið
eigi gerast. „Við reynum að finna heildarhugmynd
sem gengur upp með tilliti til verksins og fram-
haldið stjórnast svo af þessari grunnhugmynd,“
segir Gísli og bendir á að fæðing grunnhugmynd-
arinnar geti verið miserfið. „Ég held að ég hafi
teiknað Woyzeck átta sinnum,“ segir Börkur og
tekur fram að um fullkláraða hönnun hafi verið að
ræða í öllum tilvikum. „Í versta falli förum við í
gegnum tíu hugmyndir áður en rétta lausnin er
fundin. Í besta falli þá er fyrsta hugmyndin sú
rétta,“ segir Gísli og nefnir Hamskiptin sem
dæmi. „Mig minnir að ég hafi sagt við Börk að ég
vildi hafa herbergi á hvolfi fyrir Gregor hvernig
svo sem það væri síðan útfært og Börkur teiknaði
útfærsluna á servíettu á leiðinni út á flugvöll á leið
okkar á fund hjá Lyric Hammersmith í London.“
Spurðir hvað sé framundan hjá Vesturporti nefnir
Gísli sem dæmi að Faust sé á leið á BAM í New
York í desember og Hamskiptin með upprunalega
leikhópnum verði sýnd í Lyric Hammersmith-
leikhúsinu í London í janúar, auk þess sem sýn-
ingin muni fara til Calgary, Washington og Bost-
on. Aðspurður segir hann ljóst að Vesturport gæti
ferðast næstu árin með stóru sýningar sínar, en
leggur áherslu á mikilvægi þess að allir séu jafn-
framt stöðugt að þróa með sér ný verkefni.
„Hvort sem það er í leikhúsinu, sjónvarpi eða
kvikmyndum. Þetta eru allt mjög skapandi ein-
staklingar og það er margt á teikniborðinu. Mig
langar t.d. að gera sýningu upp úr Hamlet, enda
erum við Börkur komnir með ákveðna heildar-
hugmynd. Einnig er til skoðunar að gera söngleik
og hryllingssýningu, svo eru Nína, Rakel, Björn
Hlynur og Ólafur Darri öll með mjög spennandi
sjónvarps- og kvikmyndaverkefni á borðinu,“ segir
Gísli en vill ekki gefa meira upp að svo stöddu.
Morgunblaðið/RAX
VESTURPORT FRUMSÝNIR BASTARÐA Á STÓRA SVIÐI BORGARLEIKHÚSSINS UM HELGINA
Tölum alltaf saman af skynsemi
GÍSLI ÖRN GARÐARSSON LEIKSTJÓRI OG BÖRKUR JÓNSSON LEIKMYNDAHÖNNUÐUR HAFA MARGOFT UNNIÐ SAMAN UNDIR MERKJUM VESTURPORTS
MEÐ GÓÐUM ÁRANGRI Á SÍÐUSTU ÁRUM. ÞEIR SEGJA ÞAÐ STUNDUM ÁSKORUN AÐ FINNA GRUNNHUGMYND SEM HENTAR VIÐKOMANDI VERKI.
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is
Gísli Örn og Börkur
brugðu á leik og klifruðu
upp í leikmyndina.
„Samningar eru nú á lokastigi þess efnis að Hrói
höttur verði frumsýndur í Minneapolis í Bandaríkj-
unum í byrjun nóvember á næsta ári. Þetta er vissu-
lega áhugavert,“ segir Gísli Örn Garðarsson sem
leikstýrði fjölskyldusýningunni Hróa hetti (The heart
of Robin hood) eftir David Farr hjá Royal Shake-
speare Company í Bretlandi í desember 2011 við
góðar viðtökur. „Ef allt gengur að óskum má reikna
með að sýningin verði sýnd í sex til átta vikur í Min-
neapolis og fari þaðan til New York,“ segir Gísli Örn,
en alþekkt er að sýningar eru prófaðar í Minneapolis
áður en þær rata á Broadway. Aðspurður segist Gísli
Örn reikna með að leikprufur fari fram næsta sumar.
Sem kunnugt er hannaði Börkur Jónsson leikmynd
sýningarinnar, Björn Helgason lýsti hana, Högni Eg-
ilsson samdi tónlistina, Selma Björnsdóttir var með-
leikstjóri og Ólafur Darri Ólafsson fór með eitt af að-
alhlutverkunum.
HRÓI HÖTTUR Á LEIÐ Á BROADWAY?
„Áhugavert“
Úr sýningunni
Hrói höttur.