Morgunblaðið - Sunnudagur - 21.04.2013, Blaðsíða 6
6 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 21.4. 2013
Þrýstingur frá konum um að fá
að hafa eitthvað að segja við
úrlausn ágreinings í heiminum
fer vaxandi. Þetta kom fram í
máli Söruh Taylor, fram-
kvæmdastjóra alþjóðlegra
samtaka sem nefnast Vinnu-
hópur um konur, frið og ör-
yggi, á ráðstefnu um vernd
mannréttinda og alþjóðarétt í
Reykjavík fyrr í mánuðinum.
Hún hefur unnið að því að
knýja fram viðurkenningu
Sameinuðu þjóðanna á
mikilvægi hlutar kvenna.
Taylor sagði að við uppbygg-
ingu og afvopnun eftir stríð
yrði að hafa konur með í ráð-
um því að þáttur
þeirra í stríði og af-
leiðingarnar fyrir
þær blöstu ekki
alltaf við og mætti
ekkert gefa
sér í þeim
efnum.
Hlutur kvenna er iðulega rýrþegar byggja á upp eftirstríð og borgarastyrjaldir.
Þegar viðræðurnar áttu sér stað um
framtíð Kosovo sat engin kona við
borðið, hvorki af hálfu Serba, Kos-
ovo-Albana, né alþjóðasamfélagsins.
Innrásin í Afganistan var meðal
annars gerð í nafni kvenna, sem bú-
ið höfðu við kúgun og ofríki í
stjórnartíð talibana. Hver er staða
þeirra í landinu nú?
Cynthia Enloe, rannsóknar-
prófessor við Clark-háskóla í
Bandaríkjunum, ítrekaði mikilvægi
þess að setja upp kynjagleraugun
þegar lögð væru á ráðin um íhlutun
í mannúðarskyni og varaði sér-
staklega við því að falla í „kynja-
gildruna“. Misjafnt væri hvernig
konur annars vegar og karlar hins
vegar upplifðu réttindi og auðvelt
væri að falla í þá gryfju að setja
konur í flokk fórnarlamba og skil-
greina karla sem verndara.
Konur gerðar að skotspæni
Oft væru konur notaðar þegar kynt
væri undir misklíð og ofbeldi, sagði
hún, og benti á að í aðdraganda
fjöldamorðanna í Rúanda þegar
hútúar myrtu 800 þúsund tútsa
hefði verið æst upp hatur í garð
kvenna af þjóðflokki tútsa, þær
væru keppinautar kvenna af þjóð-
flokki hútúa og karlar af þeim þjóð-
flokki ættu að fyrirlíta þær. „Hefði
einhver verið að hlusta mánuðina
fyrir apríl 1994 þegar blóðsúthell-
ingarnar hófust hefðu öll viðvör-
unarkerfi farið af stað,“ sagði hún.
„Í eitt og hálft ár voru konur úr
röðum tútsa miðpunkturinn í að
kynda undir hatrinu.“
Enloe sagði að það væri mikið
vandamál að fá valdhafa til að taka
málefni kvenna alvarlega. Hún
benti á að Sameinuðu þjóðirnar
væru mjög karllæg stofnun. Þar
væri leið karla til forréttinda
greiðari en leið kvenna og sérlega
erfitt fyrir konur að ná eyrum ráða-
manna. Verst væri ástandið í
öryggisráðinu.
Kynjagleraugun mikilvæg
Vandinn við að efla stöðu kvenna
getur birst með ýmsum hætti, eins
og kom fram í dæmisögu, sem
Enloe sagði. Þýsk félagasamtök
hugðust gera útvarpsþætti til þess
að hjálpa konum í sveitum og af-
skekktum byggðum Afganistans.
Þættina átti að senda út frá Kabúl
á þeim helstu tungumálum, sem töl-
uð eru í landinu, jafnt til átaka-
svæða og svæða þar sem færi fram
uppbygging eftir átök. Þættirnir
snerust um heilbrigðismál kvenna
og lagaleg réttindi þeirra og mark-
miðið að gera konum grein fyrir
réttindum sínum og hags-
munum sama hversu langt þær
byggju frá höfuðborginni.
Engar rannsóknir voru gerðar í
þorpunum áður en útsendingar hóf-
ust og skömmu eftir að þættirnir
fóru í loftið fréttu starfsmenn sam-
takanna að í þorpunum væri ekkert
hlustað á þá. Þetta þótti áhyggju-
efni og var ákveðið að finna út úr
því hver ástæðan væri.
„Í ljós kom að útvarp var aðeins
að finna í sjötta hverju húsi og að-
eins karlinn mátti snerta það,“
sagði Enloe. „Það hafði aldrei verið
spurt hverjir notuðu útvarpið. Stað-
reyndin var sú að það gerðu aðeins
karlarnir og þegar þeir sóttu út-
varpið, sem var geymt í efstu hillu,
tóku þeir það út til að hlusta á
fréttir með körlunum, grönnum sín-
um. Í fyrsta lagi var ekki talið að
konur á þessum heimilum hefðu
neina þörf fyrir þekkingu og í öðru
lagi höfðu þær verk að vinna. Kon-
urnar máttu ekki einu sinni snerta
hnappinn til að skipta um stöð.“
Birtingarmyndir valdsins
Enloe sagði að þessi saga sýndi
nauðsyn þess að kanna hinar hvers-
dagslegu birtingarmyndir valdsins
„fremur en að sitja í fjarlægum höf-
uðstöðvum og giska á hvernig vald
verði til, hverjir fái að kveikja á út-
varpinu og á hvað sé hlustað. Það
fór ekki aðeins svo að upplýsing-
arnar bárust ekki til kvennanna,
karlarnir gátu komist að því hvað
var að gerast, konurnar ekki, og
valdagjáin breikkaði, bilið á milli
þekkingar og sviptingar á
þekkingu.“
Enloe notaði þessa sögu til að
benda á nauðsyn þess að vanda sig
þegar komið væri á friði eftir átök
og tryggja áhrif kvenna. Máli skipti
hverjir kæmust í lykilstöðu í lög-
reglu og dómskerfi. Í stríði væri of-
beldi gegn konum iðulega markvisst
og taka yrði á því. Í þeim efnum
skipti máli hvernig staðið væri að
því að láta vígamenn afhenda vopn
sín. „Ef rangt er staðið að málum
leynast í lyktum eins stríðs frækorn
næsta stríðs,“ sagði hún.
Ráðstefnuna héldu innanríkis-
ráðuneytið og Institute for Cultural
Diplomacy í Berlín í samvinnu við
EDDU – rannsóknarsetrið við
Háskóla Íslands.
Valdefling
kvenna og
kynjagildran
STRÍÐ ERU VETTVANGUR KARLA ÞÓTT OFT BEINIST OF-
BELDIÐ GEGN KONUM. KONUR ERU SNIÐGENGNAR ÞEG-
AR STILLA Á TIL FRIÐAR, EN SÆTU ÞÆR VIÐ BORÐIÐ
DRÆGI ÚR LÍKUM Á AÐ AFTUR BLOSSUÐU UPP ÁTÖK.
Sarah Taylor
ÞRÝST Á UM ÁHRIF
Tvær afganskar konur klæddar búrkum ganga fram hjá eldri mönnum í borginni Herat. Oft geta aðgerðir til að efla
stöðu kvenna farið út um þúfur þrátt fyrir góðan ásetning ef undirbúning og greiningu skortir.
AFP
* Kynjagreining er ekki munaður, hún er nauðsynleg.Cynthia Enloe, rannsóknarprófessor í alþjóðlegum þróunar- og umhverfismálum og kvennafræðum við Clark-háskóla.AlþjóðamálKARL BLÖNDAL
kbl@mbl.is
HEIMURINN
PAKISTAN
ISLAMABAD
Pervez Musharraf,
fyrrverandi leiðtogi
Pakistans, var hand-
tekinn á föstudag.
Hann var handtekinn fyrir að
reka háttsetta dómara úr starfi
þegar hann setti neyðarlög
árið 2007. Hann leiddi þá
herforingjastjórn landsins.
Musharraf ætlaði að bjóða sig
fram til kosninganna í næsta
mánuði en fékk það ekki. Navaz
Sharif, sem Musharraf steypti
af stóli, er sigurstranglegur í
kosningunum.
KAMERÚN
YAOUNDE Sjö manna
frönsk fjölskylda, sem sex
vopnaðir menn tóku í gíslingu
19. febrúar, var látin laus á
föstudag. Fjölskyldan, hjón með
fjögur börn, var í fríi í landinu.
Íslömsku uppreisnarsamtökin
Boko haram í Nígeríu stóðu
að baki mannráninu. Frönsk
stjórnvöld segjast ekki hafa
borgað lausnargjald.
VENESÚELA
CARACAS Nicolas Maduro var lýstur sigurvegari í forsetakosn-
ingunum í Venesúela. Hugo Chavez, sem lést af krabbameini fyrir
skömmu, tilnefndi hann arftaka sinn. Mjög mjótt var hins vegar á
munum í kosningunum og krafðist Henrique Capriles, andstæð-
ingur Maduros, endurtalningar. Maduro tók embætti á föstudag, en
yfirkjörstjórn ætlar að fara yfir niðurstöðuna þótt ekki verði endurtalið.
BANDARÍKIN
BOSTON Þrír
létu lífið og 180
særðust þegar
tvær sprengjur
sprungu meðan á
maraþonhlaupinu
í Boston stóð á
mánudag. Tveir ungir menn eru
grunaðir um tilræðið. Annar lét
lífið í skotbardaga við lögreglu
á föstudag. 9.000 lögreglumenn
leituðu hans í Watertown,
kyrrlátum bæ jaðri Boston.