Morgunblaðið - 19.04.2014, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 19.04.2014, Blaðsíða 37
alla. En það er komið að því að kveðja, nú ferð þú í þitt hinsta ferðalag og ég mun lofa þér því að sjá vel um æðarvarpið í Fljót- unum. Það er fallegur engill kominn til himna, vertu sæll afi, blessuð sé minning þín. Þinn Jónas Aron. Ég sendi þér kæra kveðju nú komin er lífsins nótt, þig umvefji blessun og bænir ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér, og það er svo margs að minnast svo margt sem um hug minn fer, þó þú sért horfinn úr heimi ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Með söknuð í hjarta og þakk- læti í huga kveðjum við þig elsku afi. Minningarnar eru margar og gott að geta yljað sér á þeim núna. Fljótin voru þitt uppáhald og þar fannst þér best að vera, æð- arvarpið átti hug þinn allan og var yndislegt að fylgja þér og ömmu í þeim verkum. Þú varst mikill fjölskyldumað- ur og mjög stoltur af stóra hópn- um þínum og fórst t.d. í fjöl- skylduferðir á hverju sumri með sem flesta í för. Þér var mjög umhugað um allt fólkið þitt og mættir í allar veislur og afmæli sem þú mögulega komst í og fylgdist vel með okkur öllum. Þú varst góður vinur okkar og börn- in okkar voru mjög hænd að þér enda dekraðir þú við þau og laumaðir oft Síríus-suðusúkku- laði í litla munna. Það voru algjör forréttindi að fá að hafa þig svona lengi hjá okkur, en sárt að kveðja. Við munum passa vel upp á ömmu, sem sér nú á eftir lífs- förunaut sínum til nærri 70 ára. Sveitin þín, Fljótin, verður tóm- leg að þér gengnum. Góða ferð, elsku afi, við munum örugglega finna fyrir nærveru þinni í varp- inu í vor. Hafðu þökk fyrir allt. Saknaðarkveðjur, Lydía og Gísli, Aníta og Óli, Guðrún og Rúnar. Í dag minnumst við afa Har- aldar sem að okkar mati var höfðingi á svo marga vegu. Afi var mikill barnamaður og var Magnús Elí ekki hár í loftinu er hann var kominn upp á lagið með að teyma langafa sinn út í horn í eldhúsinu í Sauðármýrinni til að ná í suðusúkkulaðibita sem var skorinn niður á undirskál og barnið gat maulað. Dýrmætur er tíminn með afa í kringum trak- torinn þar sem mikið var stund- um brasað við að reyna að koma honum í gang, en líka til að taka rúnt í móunum með börnunum. Hefðin er sterk og á hverju ári er farið í fjölskylduferð þar sem afi var búinn að finna út góðar leiðir víðs vegar um landið til að skoða og fræðast um og því fleiri nest- isstopp sem voru í ferðinni, því betra. Síðustu fjölskylduferð fór- um við um Skagafjörð og end- uðum í Fljótunum en Fljótin skipuðu stóran sess í huga afa og eigum við margar dýrmætar minningar um hann þar í kring- um æðarvarpið, bátinn, neta- lagningu og ekki má gleyma öll- um verslunarmannahelgunum í Hópsveri. Elsku amma, megi Guð styrkja þig og varðveita á þess- um erfiðu tímum. Helena, Jón Hörður, Magn- ús Elí og Patrekur Snær. Með sárum söknuði kveð ég afa minn, hann Harald Her- mannsson. Þrátt fyrir að þú hafi náð þessum góða aldri þá er allt- af erfitt að kveðja. Ég talaði allt- af um við þig að þetta væri góður aldur. Þú horfðir alltaf á mig og sagðir „þetta er aldurinn sem all- ir vilja verða en enginn vill vera.“ Ætli það sé ekki mikið til í þess- um orðum, ég veit það ekki. Í Fljótunum leið þér alltaf best, þú vildir helst hvergi ann- arsstaðar vera. Æðarvarpinu sinntir þú alveg til fulls, sama hversu þreyttur þú varst orðin, það stoppaði þig ekkert að labba í varpið og sinna því til hins ýtr- asta og reyndi maður að hjálpa þér eins mikið og hægt var, enda fátt skemmtilegra en að eyða stundum í Fljótunum heyra fuglasönginn, týna kríueggin og hjálpa til við æðarvarpið. Mér fannst svo æðislegt þegar ég fór með þér í æðarvarpið fyrir tveimur árum þá þurftum við að fara á árabátnum til þess að komast í hólmann og ég ákvað að bjóðast til þess að róa, þú horfðir á mig mjög hneykslaður og sagð- ir svo „þú kannt ekkert að róa“. Já, elsku afi það rifjast margt upp þegar ég hugsa til æsku minnar með þér og þakka ég fyr- ir að hafa fengið að eyða svona mörgum góðum stundum með þér, til dæmis dýrkaði ég að eyða stundum með þér í hesthúsunum að dekra við hestana þína þá Röðul og Blesa gamla, ég gleymi því ekki þegar við fórum í reiðtúr og ég gleymdi hjálminum mínum en þú varst nú sjálfur ekki með hjálm svo mér fannst það ekki skipta neinu máli, þú vildir endi- lega að við myndum snúa við og sagðir við mig „Elín, ég er með derhúfu, þú ert ekki með neitt“ þó svo að ég viti í dag að derhúf- una hefði ekki bjargað neinu þá fannst mér þetta vera alveg nóg til þess að við myndum ná í hjálminn minn. Ég varð þér sár þegar ég heyrði þig eitt sinn segja að þú mættir nú alveg kveðja, enda bú- in að afreka mikið í lífinu og lifa ansi margt af. Í dag er ég þakk- lát fyrir þessi orð þau veita mér styrk um að þú hafir verið tilbúin til þess að kveðja þennan heim. Minning þín lifir í hjörtum okkar, far þú í friði elsku afi. Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum, hugsið ekki um dauðann með harmi eða ótta. Ég er svo nærri, að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvel- ur, þótt látinn mig haldið. En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég , þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu. (Kahlil Gibran.) Elín Lilja Gunnarsdóttir. Elsku afi, þær eru ótal minn- ingarnar sem rifjast upp þegar maður sest niður og lítur til baka, svo margar góðar. Fyrstu minningarnar eru þegar maður var smápjakkur í Barmahlíð 9 og þú komst heim frá vinnu, heils- aðir fólkinu og já það var nóg af fólki í mat, borðaðir á mettíma, lagðist svo út af í sófanum og hlustaðir á fréttir. Það var nota- leg og góð stund. Ég mun aldrei gleyma þeim tíma: „Klukkan er tuttugu mínútur gengin í eitt, nú verða lesnar fréttir.“ Já það verður erfitt til þess að hugsa að kíkja á Krókinn og þú ert ekki þar. Þú gæddir ferðina lífi og þegar maður hitti þig lang- aði mann til að taka til hendinni. Þú varst fyrirmynd, harðdugleg- ur, sanngjarn og hjartahlýr mað- ur. Þú elskaðir ömmu allt til síð- asta dags, fyrir mér voruð þið eitt. Ein fögur stund var þegar systurnar, dætur Systu, fengu kjólana hennar ömmu lánaða fyr- ir afmælið hennar og þú varst spurður hvort þær væru ekki glæsilegar (sem þær voru) og þú svaraðir um hæl: „Þið hefðuð átt að sjá hana Mundu í þeim!“ Þú varst sannkallaður herramaður. Þegar við vorum litlir vorum við oft í Barmahlíðinni og eitt skiptið stuttu fyrir jól vaknaði ég við að einhver var fyrir utan gluggann á herberginu sem við sváfum í. Ég stekk á fætur og sé þig vera að labba í burtu í snjón- um og kallaði á eftir þér: „Afi! Ert þú jólasveinninn?“ Þá svar- aðir þú: „Nei, en hann bað mig að skila þessu til ykkar.“ Á sumrin átti æðarvarpið hug þinn og hjarta og þú náðir að smita alla í kringum þig af þeirri ástríðu. Já, það verður ekki bara söknuður hjá mannfólkinu að þú sért farinn heldur eiga æðarfugl- arnir eflaust eftir að sakna þess að hafa þig hjá sér. Það er við hæfi að kveðja þig með hluta úr lagi eftir Bjartmar, sem er hér um bil eina lagið sem ég heyrði þig syngja þegar við vorum að dunda okkur í drátt- arvélaviðgerðum, minningin lifir elsku afi: Þar má sjá, þegar sólin súnkar í hafið og býður góða nótt. Heyra má, þegar takturinn rumskar í rjóðrinu og fæðist ofurhljótt. Innst í orðsins spá, lífsins speki í letikasti lá. (Bjartmar Guðlaugsson) Elvar Árni Þrastarson og Jón Ingi Þrastarson. Elsku langafi og langalangafi, þú mikli höfðingi og gæðablóð. Nú sitjum við hér með brotið hjarta, en hjarta fullt af minn- ingum og kærleiksstundum sem við munum aldrei gleyma. Allra helst koma upp minning- ar úr Fljótunum, þar sem þú undir þér best: Þú á dráttarvél- inni með öll barnabörnin og barnabarnabörnin sem komust fyrir á kerrunni fyrir aftan, tefl- andi skák, öll hátíðahöldin og all- ar fjölskylduferðirnar okkar saman, þar sem þið amma nutuð ykkar alltaf í faðmi fjölskyldunn- ar innan um þennan stóra hóp sem við höfum alltaf verið og verðum alltaf stolt af að tilheyra. Við getum verið ævinlega þakk- lát fyrir að þú og amma hafið haldið svona vel utan um þennan glæsihóp. Sárt er fyrir okkur öll að þú, höfðingi þessa hóps, sért fallinn frá, minning þín lifir ávallt í hjörtum okkar allra. Megir þú hvíla í friði, takk fyr- ir allt, góða ferð elsku afi. Þín langafabörn og langa- langafabarn, Fannar Freyr, Brynhildur Ósk, Rakel Svala, Lísa Margrét, Jónas Aron, Jóhann Daði, Magnea Petra, Thelma Ósk og Guðlaugur Gísli. Kær mágur og föðurbróðir, Haraldur Hermannsson frá Ysta-Mó í Fljótum, er látinn. Haraldur var sjöundi í röð níu barna þeirra hjóna Elínar Lár- usdóttur og Hermanns Jónsson- ar, fæddur 1923. Á uppvaxtarár- um Haraldar var bernskuheimilið jafnan mann- margt, því auk níu barna þeirra Elínar og Hermanns áttu margir þar athvarf um lengri eða skemmri tíma. Barnahópurinn var líflegur og uppátækjasamur og fara margar sögur af skemmtilegum atvikum og sam- skiptum þeirra í milli og lét Har- aldur ekki sitt eftir liggja. Ysti- Mór bernskunnar var því fullur af lífi og fjöri. Þar var afar gest- kvæmt, systkinin níu voru fjör- mikil og höfðu skoðanir á hlut- unum sem engin ástæða var að fara leynt með. Haraldur stofn- aði snemma bú á jörðinni ásamt konu sinni Guðmundu Her- mannsdóttur. Þar bjuggu þau lengst af með sauðfé og kýr eins og hefðin bauð þá. Þau eignuðust níu mannvænleg börn og afko- mundur þeirra hjóna eru orðnir margir. Ysti-Mór er reisulegt tveggja hæða hús og bjuggu þau Haraldur og Guðmunda með börn sín á efri hæðinni en þau Elín og Hermann á neðri hæð- inni. Þótt systkini Haraldar flyttust að heiman og stofnuðu sín heimili annars staðar voru böndin sterk og þau ásamt fjölskyldum sínum héldu áfram að sækja heim að Mó. Barnahópur systkinanna frá Ysta-Mó var stór og því má nærri geta að oft var líf og fjör þegar hópurinn kom saman í Fljótunum. Öll eigum við afar góðar minningar um dvölina á Ysta-Mó. Gestrisni og þolinmæði þeirra Guðmundu og Haraldar var einstök og óhætt að segja að barnahópurinn hafi fengið nokk- uð frjálsar hendur í uppátækjum sínum. Frjálsræðistaumurinn var nokkuð langur en þegar kippt var í og Haraldur birtist vissu allir að mál var að linnti. Enginn gekk lengra en Haraldur leyfði. Haraldur var mikill félags- málamaður og réttlætiskenndin var rík. Hann var vel fróður, glöggur og fylgdist vel með þjóð- málum. Hann lét sig velferð sinna nánustu mikið varða og fylgdist vel með hópnum sínum. Í spjalli við Harald leið börnum eins og þau væru að tala við jafn- ingja sinn, hann hafði lag á að láta þeim líða vel og ræða hlutina á málefnalegan hátt. Þótt hann brygði búi og flytti á Krókinn var hugurinn þó einatt í Fljótunum. Hann vildi sveit sinni vel og var umhugað um lífið þar. Hann reisti sér hús við Hópsvatn og þar dvöldu þau hjón eins mikið og þau gátu. Þegar hann lést var hann örugglega farinn að huga að varpinu við vatnið, en hann annaðist það af miklum mynd- arskap. Að leiðarlokum kveðjum við Harald með virðingu og þökk fyrir samfylgdina og allar góðu stundirnar. Við Sæmundarfólkið sendum Guðmundu og fjölskyldu hlýjar samúðarkveðjur. Megi Haraldur hvíla í friði. Ása S. Helgadóttir og fjölskylda. Elskulegur móðurbróðir minn, hann Haraldur, hefur yf- irgefið leiksvið lífsins, örugglega til að taka við öðru hlutverki í annarri vídd. Hann var sá ötul- asti maður sem ég hef kynnst, það var ekki hans háttur að slóra. Haraldur var skarpgreind- ur og minnugur og gaman að vera með honum á góðri stund. Ég sótti mikið í nærveru hans og hans góðu konu, Mundu, á mín- um yngri árum. Ferðir í dásam- legu veðri, að fá að vera með í fyrirdrætti var ævintýri líkast. Í minningunni var afli alltaf mikill og góður. Ferðir í æðarvarp, sem var heimur út af fyrir sig, við töku æðardúns og eggja. Þar var gengið um með aðgát. Það að vera bóndi á hans yngri árum var ekki auðvelt. Endalaus verkefni sem þurfti að hyggja að og leysa daga og jafnvel nætur við sauð- burð. Þegar ég lít til baka finnst mér að þau Munda og Haraldur hafi aldrei sofið á sumrin. Yzti- Mór í Fljótum var mannmargt heimili, enda tvíbýli eftir að Munda og Haraldur fóru að stunda búskap. Foreldrar Har- aldar voru Elín Lárusdóttir og Hermann Jónsson. Heim að Mó sóttu afkomendur þeirra, gestir og gangandi – allir velkomnir. Þessar fátæklegur línur eru þakklæti mitt fyrir alla þína ást- úð og vináttu. Far þú í friði, frændi minn. Það er svo gott að liggja í mjúkum mosa, mæna upp í himininn og brosa. Hugsa bara þetta: Rosa rosa, rosalega er gott að liggja í mosa. (Þórarinn Eldjárn.) Margrét Lára Friðriks- dóttir (Maddý). Fallinn er frá, föðurbróðir minn, eftir gæfuríka og gjöfula ævi. Að Haraldi stóð stór ætt, ástríkir foreldrar auk 8 systkina frá Ysta Mó. Oft var gestkvæmt á bænum og dvöldu frændfólk og aðrir þar um skemmri og lengri tíma. Þá var þröng á þingi, allir þurftu að deila kjörum og hjálp- ast að við bústörf. Eitt ættarein- kenna þeirra systkina frá Ysta Mó voru sterkar skoðanir og gott minni sem þó var ekki alltaf sam- stillt. Í æskuminningum brá mér stundum þegar systkinin komu saman og ræddu gamla tíma. Ekki var alltaf einhugur um staðreyndir, sem í mínum huga hafði ekki úrslitaáhrif á sagnar- gildið. Oft var tekist á og með þeim hætti að ég sem ungur drengur dró þær ályktanir að um stórátök væri að ræða, slíkur var hitinn í umræðum og raddbeit- ingu. Oft átti Dóra elsta systirin síðasta orðið en ekki möglunar- laust af þeim bræðrum. Síðan var tekið upp annað tal eða farið að spila eins og ekkert hafi í skorist. Það var auðséð að á milli þeirra ríkti mikil og gagnkvæm virðing. Er hugur leitar til þröngs sambýlis á fyrri hluta síðustu aldar kemur í hugann máltækið „sjaldan fellur eplið langt frá eik- inni“ því Haraldur og Guðmunda eða Munda, eignuðust 9 börn og deildu þau lengst af húsnæði á Ysta Mó með afa, ömmu og Georg. Ekki var minna gest- kvæmt á þeim bæ. Raunar svo að maður á bágt með að skilja hvernig allur þessi gestaskari komst fyrir. Stór hópur frænd- systkina, systkinabörn Haraldar, á öllum aldri, minnast þess sama, enda miklar líkur á að þau ættu sér jafnaldra í barnahópi Har- aldar og Mundu. Þannig gekk þetta í áratugi í þeirra búskap. Misprúð og misuppátektarsöm börn dvöldu á þeirra heimili í lengri eða skemmri tíma og þáðu allan viðurgjörning hjá þeim hjónum. Ég var trúlega einn af þeim uppátektarsömu sem minna gagn var af en þess meiri fyr- irhöfn. Mig rekur minni til þess eitt sinn er ég vildi gera gagn, heyskapur stóð sem hæst og börn Haraldar skiptu með sér verkum á dráttarvélum. Þessu vildi ég taka þátt í og fannst ég órétti beittur þegar því var synj- að af Haraldi sem þó skýrði út fyrir mér að hans börn væru al- vön, hann gæti ekki borið ábyrgð á mér þar sem þetta væru hættu- leg tæki og ég ungur að árum. Nú þegar ég hugsa til baka hefur þetta verið ærinn starfi hjá frænda, að sjá til þess að enginn færi sér að voða við bústörfin. Minningar frá dvöl minni á Ysta Mó og í Samtúni eru ótal margar og sveipaðar ævintýra- ljóma. Góðar minningar skapast af þeirri umgjörð sem þeim er búin. Þar fór Haraldur með stórt hlutverk. Þó aga hafi stundum verið beitt þegar þurfti, var það fyrst og fremst frjálsræðið og tækifærin til að njóta sín í fal- legri sveit sem standa upp úr. Alltaf stóðu dyr opnar og allir voru velkomnir. Haraldur var harðduglegur maður og góð fyr- irmynd. Ég er þakklátur fyrir þær góðu stundir með honum og hans fjölskyldu í Fljótum. Samúð og hlýhug sendi ég Mundu, börnum þeirra hjóna og öllum afkomendum. Hermann Björnsson. MINNINGAR 37 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. APRÍL 2014 Flatahraun 5a • www.utfararstofa.is • Símar: 565 5892 & 896 8242 ÚTFARARSTOFA HAFNARFJARÐAR ÚTFARARSTOFA ÍSLANDS Suðurhlíð 35, Rvík. • Símar 581 3300 & 896 8242 • www.utforin.is Sverrir Einarsson Kristín Ingólfsdóttir Hinrik Valsson Elskuleg systir mín, ÞÓRUNN EGILSON, Droplaugarstöðum, sem lést 15. apríl sl., verður jarðsungin frá Dómkirkjunni 23. apríl nk. kl 15. Fyrir hönd annarra aðstandenda, Katrín Egilson. Okkar ástkæra BEATRICE AÐALSTEINSSON, Sólvallagötu 18, lést á LSH 14. apríl sl. Sálumessa fer fram frá Landakotskirkju 23. apríl kl. 15.00. Þeim sem vilja minnast hinnar látnu er bent á Barnaspítalasjóð Hringsins. Fyrir hönd aðstandenda, Helga María Garðarsdóttir Kristín Axelsdóttir. Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, HANNES Þ. SIGURÐSSON, Miðleiti 12, er látinn. Útförin auglýst síðar. Margrét Erlingsdóttir, Sigurður Hannesson, Margrét Karlsdóttir, Kristín Hannesdóttir, Páll Einar Kristinsson, Erlingur Hannesson, Halldóra Halldórsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.