Morgunblaðið - 29.05.2014, Blaðsíða 60
60
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 29. MAÍ 2014
Náðu þér í aukin ökuréttindi
Fagmennska og ökufærni í fyrirrúmi
Öll kennslugöng innifalin
www.bilprof.is
Upplýsingar og innritun í síma 567 0300 og 894 2737 • Opið 10-17 alla daga
Næsta
námskeið
hefst
4. júní
ÖKUSKÓLINN Í MJÓDD – yfir 40 ár í fagmennsku
Meirapróf
Þekking og reynsla
í fyrrirúmi
Bergljót Friðriksdóttir
beggo@mbl.is
Vorið er tími tilhlökkunar og sköp-
unar, með birtunni kemur meiri
orka og hugmyndir frjóvgast,“ segir
Unnur Valdís Kristjánsdóttir hönn-
uður. „Handan við hornið eru ferða-
lög sem bjóða upp á nýjar og spenn-
andi upplifanir og samveru við gott
fólk. Vorið er tími til að kasta af sér
þungum vetrarhamnum og anda
djúpt. Ég finn þörfina fyrir að fara
með líkama og sál í ástandsskoðun
því allt þarf að vera í toppstandi fyr-
ir sumarið, þá þarf orkuflæðið að
vera gott til að framkvæma allt sem
mann dreymir um á frekar stuttum
tíma.
Á sumrin myndast þetta
skemmtilega svigrúm til að beygja
og sveigja allar rútínur og reglur,
vera dálítið „spontant“ og fram-
kvæma hugmyndir með stuttum
fyrirvara. Íslensk sumur með björt-
um nóttum bjóða til dæmis upp á að
lagt sé af stað í ferðalag á hvaða
tíma sólarhringsins sem er. Miðnæt-
urflot í fallegri náttúrulaug undir
bleikum sumarhimni er til dæmis
góð hugmynd á björtu sumarkvöldi,
eða fjölskyldupikknikk á fögrum
stað.“
Konur á fjöllum
Unnur Valdís er mikil útivist-
armanneskja og kveðst nota hvert
tækifæri sem gefst yfir sumartím-
ann til að njóta náttúrunnar. „Þá
snýst allt um útivist. Ég er fjalla-
geitin í fjölskyldunni og er svo lán-
söm að vera í frábærum kvennahópi
sem gengur saman á fjöll á hverju
sumri. Þar ríkir mikil ævintýra-
mennska, samstaða og umfram allt
gleði. Við fjölskyldan erum frekar
óskipulögð í ferðalögum okkar og
látum veður eða einstaka fótbolta-
mót strákanna ráða för. Við kunnum
vel að meta góðar vatnsupplifanir og
síðasta sumar eltum við laugar
landsins; tókum fyrir Norðurlandið
og þræddum laugar þar. Ferðin
endaði svo í dásamlegu nuddi í Jarð-
böðunum á Mývatni hjá Ástu Price.“
Hún segir íslensk sumur engu lík.
„Náttúran kallar á mann og fátt er
meira freistandi en að vera sem
mest með bakpokann á ferðalögum
um íslensk fjöll. Sem sannur Íslend-
ingur spái ég svo sannarlega í veðr-
ið, en ég reyni hins vegar að láta það
ekki stoppa mig. Nema þegar um
fjallaferðir er að ræða, þá er ekkert
vit í öðru en að vera skynsöm og
beygja sig og bukta fyrir náttúrunni
og veðrinu. Vera tilbúin að breyta
áætlun ef ferðaplönin samrýmast
ekki veðurspánni.“
Rauðar úr Skammadal
Unnur Valdís býr í gamla mið-
bænum og er með myndarlegan
garð á bak við hús sem allir íbúarnir
sinna sameiginlega. „Garðurinn er
mikið notaður, bæði af okkur og öðr-
um íbúum hússins; stærð hans býður
upp á alls kyns skemmtilegheit og
þar er oft slegið upp veislum á sumr-
in. Í fyrravor tóku allir íbúar sig
saman og voru með myndarlegan
flóamarkað í garðinum, hann var vel
sóttur og það myndaðist frábær
stemning.
Mig dauðlangar í framtíðinni að
verða grænni, snúa mér meira að
ræktun og koma mér upp mynd-
arlegum matjurtagarði. Undanfarin
ár hefur fjölskyldan verið með kart-
öflugarð í Skammadal en uppskeran
hefur svo sem ekki verið neitt til að
hrópa húrra fyrir. Mér finnst samt
dásamlega rómantískt að stússa í
litla kartöflugarðinum með fjöl-
skyldunni og tel það hafa mikilvægt
lærdómsgildi fyrir börn að taka þátt
í matjurtarækt.“
Sjósund og jóga
Spurð út í heilsurækt, hvort
áherslurnar séu aðrar á sumrin,
kveðst Unnur Valdís laðast að
vatni, sumar jafnt sem vetur.
„Hreyfingu og heilsurækt sumars-
ins fæ ég í gegnum göngur og sund,
ég fer mikið í sundlaugar og stunda
líka sjósund. Ég var reyndar ódug-
leg að mæta í Nautshólsvíkina í vet-
ur en ætla að bæta mig í sumar og
dýfa mér í sjóinn eins oft og ég get,
það er svo ótrúlega nærandi. Hjá
mér snýst sjósundið ekki endilega
um úthald og getu, ég er meira fyr-
ir smá spretti sem hafa þau áhrif að
vekja allar frumur líkamans og
færa mér orku, vellíðan og sterkara
ónæmiskerfi. Svo er það þessi frá-
bæra náttúrutenging sem ég upplifi
í sjónum sem er eiginlega ólýs-
anleg.
Ég hef stundað jóga í mörg ár og
það er alltaf yndislegt að komast á
gott jóganámskeið á sumrin, eða
taka þátt í Jógahátíðinni á sum-
arsólstöðum þar sem jóga er iðkað
frá morgni til kvölds. Þetta er frá-
bær hátíð þar sem fléttað er saman
jóga, fyrirlestrum, hugleiðslu og
náttúruskoðun. Í ár verður Jógahá-
tíðin haldin að Varmalandi í Borg-
arfirði seinnipartinn í júní og ég
færi svo sannarlega ef ég væri á
landinu.“
Samflot í Berlín
Hún bendir á að sumarið verði
með nokkuð öðru sniði nú en vana-
lega. „Ég mun eyða öllu sumrinu í
Þýskalandi, nánar tiltekið í Berlín.
Það er auðvitað algjör synd að missa
af íslensku sumri og þetta er und-
antekning frá reglunni að vera
heima yfir sumartímann. Við fjöl-
skyldan ætlum að búa í Prenzlauer
Berg-hverfinu og sinna vinnu, auðga
andann og kynna Þjóðverjum verk-
efni mitt Float.“
Spurð nánar út í verkefnið segir
hún það snúast um fljótandi djúp-
slökun með Float-vörulínu hennar,
flothettu og fótaflot, sem þróaðist
út frá verkefni við Listaháskóla Ís-
lands og hún vinnur að markaðs-
setningu á, bæði hérlendis og er-
lendis. „Hugmyndin byggist á því
að nýta vatnið okkar dýrmæta til
heilsubótar og auðga um leið bað-
menningu okkar Íslendinga, sem
og annarra þjóða.
Það er engin tilviljun að ég valdi
að verja sumrinu í Berlín, raunin er
sú að í Þýskalandi líkt og á Íslandi
er horft til vatnsins í lækningar- og
endurnæringarskyni. Þjóðverjum
þykir mjög forvitnilegt að stunda
fljótandi slökun, sem má segja að sé
nýjasta viðbótin í baðmenningu okk-
ar Íslendinga. Það er ótrúlega
áhrifarík slökun og mögnuð upplifun
að fljóta um í fullkomnu þyngd-
arleysi, umvafinn vatni. Margir af
sjúkdómum nútímans eru taldir
tengjast streitu og álagi og æ fleiri
gera sér grein fyrir mikilvægi hug-
leiðslu og slökunar í því sambandi,
bæði lærðir og leikir.“
Vestfirskar laugar
Hún segir óneitanlega gaman að
geta miðlað af reynslu sinni og fá
tækifæri til að kynna Float-
verkefnið og dásemdir íslenskrar
baðmenningar á erlendri grundu.
„Við búum í landi vatnsauðlegðar og
hér er blómleg sundmenning. Það er
mjög ánægjulegt ef við Íslendingar
erum frumleg við að nýta vatnið til
heilsubótar, þannig að eftir sé tekið í
öðrum löndum.
Segja má að vatnið eigi hug minn
allan og ég er byrjuð að skipuleggja
sumarið 2015 í huganum. Við fjöl-
skyldan heillumst mest af Snæfells-
nesi og Vestfjörðum og draumurinn
er að eignast þar lítið athvarf á fal-
legum og friðsælum stað, ekki er
verra ef það er við sjóinn. Á planinu
er að fara í skipulagða göngu með
náttúrulaugahoppi um Vestfirði og
Strandir en ég á eftir að fljóta í
mörgum af dásemdarlaugunum sem
þar eru og á því enn margt eftir
órannsakað.“
Tími tilhlökkunar
Flot Unnur Valdís í fljótandi djúpslökun í sundlauginni að Gljúfrasteini.
Morgunblaðið/Golli
Hleðsla Unnur Valdís Kristjánsdóttir: „Ég finn þörfina fyrir að fara með lík-
ama og sál í ástandsskoðun því allt þarf að vera í toppstandi fyrir sumarið.“
Unnur Valdís Kristjánsdóttir hönnuður gengur á fjöll, syndir í sjónum, stundar jóga og ræktar garðinn sinn
Sumrinu verður varið í Berlín þar sem hún hyggst kynna Þjóðverjum Float-verkefni sitt með tilheyrandi slökun
SUMARIÐer tíminn