Morgunblaðið - 27.11.2014, Síða 64
64
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. NÓVEMBER 2014
BÆKUR
Fágun og látleysi eru orð sem koma
í hug margra þegar rætt er um verk
Gunnlaugs. Byggingarlist hans er
funksjónalismi með mýkt, laus við
sýndarmennsku, tilgerð og sér-
viskuleg formeinkenni. Þessir eig-
inleikar eiga rætur í mann-
eskjulegum áherslum hins danska
funksjónalisma og þarlendri hefð í
byggingarháttum (d. den funktio-
nelle tradition) þar sem áhersla var
lögð á hagsýni, einfaldleika í formi
og vandað handverk. Hið agaða og
hógværa yfirbragð sem Gunnlaugur
tileinkaði sér á námsárunum í Dan-
mörku var nokkuð á skjön við
ríkjandi tískur í íslenskri húsagerð:
sögustíl og þjóðernishyggju 3. ára-
tugarins og tildurslegan skrautstíl
eftirstríðsáranna. Yfirlætislaus verk
hans hreykja sér ekki. Þau hafa því
tilhneigingu til að hverfa í skugga
nálægra bygginga sem frekari eru í
formi, stíl og mælikvarða.
Gunnlaugur Halldórsson kaus að
starfa sjálfstætt alla tíð og skreytti
ekki nafn sitt með öðrum titli en
starfsheitinu arkitekt. Hann var
aldrei opinber embættismaður, en
slíkir nutu pólitískrar verndar og
höfðu forgang að öllum mikilvæg-
ustu verkefnum á sviði skipulags- og
byggingarmála allt fram undir lok 6.
áratugarins. Þetta átti við flestar
opinberar byggingar ríkis og bæja
sem og hönnun húsnæðis fyrir al-
menning til sjávar og sveita. Fram-
an af starfsævinni buðust honum fá
tækifæri til að teikna áberandi stór-
hýsi, enda þótt enginn efaðist um
faglega hæfni hans og listræna yf-
irburði. Til að mynda bauðst honum
aldrei að teikna kirkju. Tækifæri
hans lágu í samkeppnum arkitekta
og á þeim vettvangi sannaði hann
snemma hæfni sína.
Gunnlaugur var að því leyti
óheppinn að nokkur stór verkefni
sem hann vann að í mörg ár urðu
ekki að veruleika. Þar má nefna
Matthíasarbókhlöðu á Akureyri,
náttúrufræðisafn á háskólalóðinni,
skautahöll í Reykjavík, höf-
uðstöðvar ÁTVR við Suðurlands-
braut og Borgarbókasafn Reykja-
víkur. Þá nýtur hann ekki
sannmælis fyrir afstöðu sína til
sögulegra bygginga. Framlagi hans
við mótun þjóðhöfðingaseturs á
Bessastöðum hefur lítið verið haldið
á lofti á meðan Landsbankastækk-
unin er iðulega nefnd sem dæmi um
einstrengingsleg viðhorf funksjón-
alismans í garð eldri bygging-
arlistar. Staðreyndin er sú að Gunn-
laugur var sá arkitekt af sinni
kynslóð sem áhugasamastur var og
mest lesinn um íslenskan bygging-
ararf og bar varðveislu hans mjög
fyrir brjósti á seinni árum. Nægir
þar vitna í viðtal sem birtist í Les-
bók Morgunblaðsins í júní 1975.
Gunnlaugur leit á arkitektastarfið
sem listræna köllun þar sem afkom-
an var ekki aðalatriði. Trúr þeirri
skoðun helgaði hann líf sitt því að
vera góður fagmaður og leysa verk
sín af trúmennsku og vandvirkni.
Hann skrifaði lítið í blöð og gaf
sjaldan færi á viðtölum nema til að
veita faglegar upplýsingar um ein-
stök verk. Þá sjaldan hann tók þátt í
opinberi umræðu talaði hann al-
mennt fyrir málstað arkitekta og
byggingarlistar í landinu. Það var
ekki í hans anda að miklast af eigin
verkum. Gunnlaugur leit á arkitekt-
úr sem listgrein sem þó hefði annað
gildi því hún væri hagnýt og þar af
leiðandi ekki eins óháð og aðrar list-
greinar. Aðspurður um listgildi
arkitektúrs svaraði hann svo í við-
tali árið 1975: „„Það gagnlega er
fallegt“, ku Sókrates hafa sagt, og
það mætti túlkast þannig, að það sé
agaður strangleiki í mótun, sem öðl-
ist þann sess í vitund okkar að við
köllum hann list.“
Í byggingum sínum gerði Gunn-
laugur þá kröfu að þær væru sannur
vitnisburður um samtíð sína. Jafn-
framt var hann næmur á þau tíma-
lausu gildi sem góður nútímarki-
tektúr á sameiginlegan með því
besta í byggingararfleifð fyrri alda.
Hann gaf lítið fyrir þjóðlegar skír-
skotanir í nýrri byggingarlist en bar
engu að síður virðingu fyrir fornri
byggingarhefð sveitasamfélagsins.
Hann leit hefðina með augum funk-
sjónalistans. Í því sambandi vitnaði
hann til orða Guðmundar Hann-
essonar læknis, sem dáðist að feg-
urð torfhúsanna tilsýndar í lands-
laginu og því hvernig mönnum hefði
„… á mörgum öldum […] lærtst að
fara svo hyggilega með lítilfjörleg
byggingarefni, – torf og baggatæk-
ar spýtur, – að húsin stóðust, öllum
vonum framar, óblíðu veðráttunnar,
stórrigningar og grimdarfrost. Það
fór hjer sem oftar að þá urðu húsin
sjálfkrafa fögur, þegar vel var á
byggingarefninu haldið, og alt svo
hentuglega sniðið sem ástæður
leyfðu. Minna hefur verið um það
talað, að húsakynnin inni í bæj-
unum, – baðstofan, – væru fögur og
hentug. Og þó stóð hún ekki ytra út-
litinu að baki. Þegar inn í hana var
komið, blasti öll gerð hússins þægi-
lega við auganu, svo einföld sem hún
var, og auk þess allir lifnaðarhættir
fólksins svo að engin nútíðarlist get-
ur betur gert.“
Í viðtalinu í Sunnudagsblaði Tím-
ans kallaði Gunnlaugur bygging-
armenningu sveitanna „… sameig-
inlegt átak heillar þjóðar við að
skapa ramma um hið daglega líf“ og
átti þar við torfbæina og torfkirkj-
urnar. Ágæti þessarar arfleifðar
væri hvating fyrir íslenska bygging-
arlist í samtímanum, en efnin sem
notuð væru ólík og lifnaðarhættir
breyttir. „Hver kynslóð verður að
byggja í samræmi við sína menn-
ingu. Notkun stíltegunda genginna
kynslóða ber ekki vitni um menn-
ingarafrek okkar kynslóðar, og þess
vegna verður „arkitektúr“ að standa
á báðum fótum í nútímanum. Ann-
ars dagar hann uppi sem nátttröll.“
Ljósmynd/Vigfús Sigurgeirsson
Höfuðstöðvar Aðalbygging Búnaðarbankans, byggð 1945-48.
Fyrsti módernisti íslenskra sjónlista
Arkitektinn Gunnlaugur Halldórsson, sem oft hefur verið fyrsti módernisti íslenskra sjónlista, er viðfangsefni samnefndrar bókar sem
ritstýrt er af Pétri H. Ármannssyni, arkitekt. Saga Gunnlaugs er hér rakin í myndum og máli, ásamt því að bókinni fylgir verkaskrá og
fjöldi teikninga af verkum arkitektsins. Hér er gripið niður í lokakafla bókarinnar, þar sem fjallað er um einkenni byggingalistar hans,
en ungur kynntist hann hugsjón módernismans og var hann stefnunni trúr alla sína tíð. Hið íslenska bókmenntafélag gefur út.
Ljósmynd/Vigfús Sigurgeirsson
Landsbankinn Viðbygging og breyting bankans 1934-40.
Arkitekt Pétur H. Ármannsson rit-
stýrir bókinni um Gunnlaug.
Verkamannabústaðir Byggingarfélag alþýðu byggði við Hringbraut á
árunum 1936-37. Húsin eru hönnun Gunnlaugs Halldórssonar.