Frjáls verslun - 01.04.2010, Blaðsíða 28
28 F R J Á L S V E R S L U N • 4 . T B L . 2 0 1 0
Eitt frægasta orðið í orðabók viðskiptalífsins eftir hrun var forsendubrestur. Átt var við brostnar forsendur hjá þeim sem tóku lán í íslenskum krónum en sem bundin voru í erlendri mynt. Í júní mun Hæsti réttur dæma um það hvort þessi lán hafi verið ólögleg líkt
og Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi. Fari svo springur bomba
sumarsins og Hæstiréttur sker þúsundir Íslendinga úr skulda snör
unni – en setur bankana í bobba.
Þetta eru lántakendur, fólk og fyrirtæki, sem héldu að þeir væru
gjaldþrota vegna þess að lánin tvö til þrefölduðust í hruninu. Þetta
er fólk sem hefur bölsótast út í sjálft sig fyrir að vera svo vitlaust að
taka svonefnd myntkörfulán í krónum í von um lægri vexti og hag
stæða fjármögnun.
Hæstiréttur hefur gefið það út að hann ætli að dæma í þessu máli
áður en rétturinn fer í sumarfrí. Málið er því að komast á dagskrá.
Margir lántakendur bíða með öndina í hálsinum yfir niðurstöðunni.
Þess vegna vekur það furðu mína hvað bankarnir auglýsa núna
grimmt að núna geti fyrirtæki með lán í erlendri mynt sótt um höf
uð stólslækkun.
Ég sé t.d. í auglýsingum dagsins að Landsbankinn auglýsir 25%
lækkun höfuðstóls og takið eftir; að það verði að vera búið að ganga
frá breytingunni fyrir 30. júlí næstkomandi. Hvers vegna að hafa
tímamörk á þessu? Íslandsbanki auglýsti grimmt um daginn.
Hvað liggur eiginlega á þegar allir bíða eftir dómi Hæstaréttar í
málinu? Væri ekki nær að bank arnir settu svona skuld breyt ingar á
bið þangað til dómur er fallinn? Til hvers eiga fyrirtæki að drífa sig
að skuldbreyta fyrir 30. júlí ef þessi lán reynast kolólögleg?
Og hvað með þá sem skuldbreyta – afsala þeir sér þá réttindum
sínum dæmi Hæstiréttur þeim í hag? Verður ekki að setja klásúlur
þar um í öllu óðagotinu?
Bankarnir hafa frá hruni þjarmað að fyrirtækjum með gengis
tryggð lán – sem og einstaklingum – og verið fullir sjálfstrausts (og
sumir segja hroka) um að viðkomandi lántakendur væru með allt
niður um sig og að veðin dygðu ekki lengur eftir að lánin hefðu tvö
til þrefaldast í hruninu. Japanska jenið og svissneski frankinn, sem
mörg þessara lána voru bundin við, nær þrefölduðust í verði.
Margir hafa greitt vexti af tvö og þreföldum höfuðstól og þolað
hótanir bankanna um að verða settir í gjaldþrot. Hvað gerist ef
Hæsti réttur dæmir þessi lán ólögleg? Þá eru lántakendur búnir að
greiða allt of háa vexti í eitt og hálft ár og eiga orðið inni vexti hjá
bönk unum. Og suma lántakendur er eflaust búið að gera gjaldþrota.
Þetta kemur ofan á þá staðreynd að nýju bankarnir hafa dregið
þessi lán (húsnæðis og bílalán) yfir til sín úr gömlu bönkunum á
hálfvirði – sem og öll önnur lán. Samt rukka þeir þau með allt að
þrefaldri hækkun höfuðstóls.
Þetta er eins og bankarnir séu að vinna þrefaldan pott í lottói. Svo
þykjast þeir mjög góðir og umhyggjusamir þegar þeir breyta lánum
í svonefnd 110% höfuðstólslán og bjóða fyrirtækjum 25% lækkun
höfuðstóls. Hvað ef Hæstiréttur dæmir þessi myntkörfulán ólögleg?
Ég sé í Morgunblaðinu á forsíðu haft eftir félagsmálaráðherra, Árna
Páli Árnasyni, að hann ætli að leggja fram frumvarp eftir sveitar stjórn
arkosningar um lækkun bílalána í erlendri mynt. Hann segir að það
feli í sér algenga lækkun höfuðstóls bílalána um 25 til 30% en þó verði
hámarkslækkunin þrjár milljónir.
PISTILL Á HEIMUR.IS 21 MAÍ
VERÐUR
DÓMURINN
BOMBA?
MYNTKÖRFULÁNIN TVÖ TIL ÞREFÖLDUÐUST
TEXTI: JÓN G. HAUKSSON MYNDIR: GEIR ÓLAFSSON