Læknablaðið - 01.12.2014, Side 60
700 LÆKNAblaðið 2014/100
Ú R S Ö G U l æ k n i S F R æ ð i n n a R
Í grein Geirs W. Jacobsens, Erlendar Hem og Jóhanns Á. Sigurðs-
sonar1 í Læknablaðinu um baráttuna við ginklofa í Vestmanna-
eyjum er fjallað um samstarf Peters Antons Schleisner læknis og
Solveigar Pálsdóttur ljósmóður.
Solveig fæddist í Vestmannaeyjum árið 1821 og var ein af 13
börnum Páls Jónssonar prests á Kirkjubæ og Guðrúnar Jónsdóttur
ljósmóður. Um tvítugt ákvað Solveig að mennta sig og verða ljós-
móðir. Guðrún móðir hennar hafði starfað sem ljósmóðir en ekki
hlotið til þess formlega menntun.
Miklar líkur eru á að danski héraðslæknirinn í Vestmanna-
eyjum, dr. Andreas Haaland (1814-1855), hafi hvatt Solveigu til
að læra ljósmóðurfræði í Kaupmannahöfn. Solveig var ógift og
barnlaus og þurfti að fá undanþágu til náms en engin stúlka
hafði fengið námsvist í Fæðingarstofnuninni í Kaupmannahöfn
nema hafa sjálf fyrst alið barn.
Undanþága fékkst sem var staðfest með svokölluðu kansellí-
bréfi dagsettu 9. desember 1841. Í bréfum Haalands kemur meðal
annars fram að fyrsta skilyrði til að uppræta ginklofa í Vest-
mannaeyjum sé að fá lærða ljósmóður til að sinna sængurkonum.
Taldi hann orsök ginklofans vera óhreinindi, mataræði og með-
höndlun á naflastreng. Allar konur skyldu fæða börn sín á sér-
stökum fæðingarstofnunum þar sem ljósmóðir og læknir sæju um
umönnun þeirra fyrstu vikurnar. Mæður skyldu hafa börn sín á
brjósti í stað þess að gefa þeim kúamjólk og vatn.1 Á þessum tíma
var ungbarnadauði mikill og sýndu tölur að 95% var af völdum
ginklofa.
Fátækt var mikil í Vestmannaeyjum á þessum árum og húsa-
kynni léleg. Þekkingarleysi og fáfræði ríkti um almennt hrein-
læti. Um 7 af hverjum 10 börnum sem fæddust í Vestmannaeyjum
létust á fyrstu 5-12 dögum ævinnar.2
Solveig fór til Kaupmannahafnar árið 1842 til eins árs náms.
Haaland hélt áfram að berjast fyrir því að sérstök fæðingarstofn-
un yrði reist í Vestmannaeyjum. Árið 1847 fólu dönsk yfirvöld
Schleisner lækni að reisa slíka stofnun og hefja rannsóknir á or-
sökum ginklofa. Fæðingarstofnunin tók til starfa í september 1847
og var fæðingarstofan flutt á heimili Solveigar 1848 en Matthías
Markússon smiður og eiginmaður Solveigar byggði húsið.
Á fyrsta ári eftir að stofnunin tók til starfa lækkaði dánartíðni
nýbura um helming.1 Strangar kröfur voru gerðar um hreinlæti
og mataræði. Börnin fengu pela heim með sér ásamt barnafötum
og þvottasvampi. Áhersla var lögð á brjóstagjöf og aukið græn-
meti í fæðu. Skráning á dánarorsökum nýbura var bætt.2 Eftir að
Schleisner fór frá Eyjum hélt Solveig áfram að starfa með sama
hætti.1 Árið 1848 fór Schleisner aftur til Danmerkur og var Sol-
veigu falið að sinna læknisstörfum í Eyjum til ársins 1852 en þá
kom Davidsen til starfa til ársins 1860. Solveigu var enn á ný falið
að gegna læknisstörfum næstu þrjú árin. Magnús Stephensen
gerðist héraðslæknir í rúmt ár árið 1863 og var Solveigu í þriðja
sinn falið að annast læknisstörf í héraðinu frá árinu 1864 til 1865
en þá tók Þorsteinn Jónsson læknir til starfa.
Solveig giftist Matthíasi Markússyni trésmið árið 1845 og
eignuðust þau 9 börn. Þau byggðu hús sitt, Landlyst, árið 1848
og tveimur árum síðar létu dönsk yfirvöld byggja yfir fæðingar-
stofnunina sem var í vesturenda húsins. Húsið er nú safn og stað-
sett á Skansinum í Eyjum. Í safninu er ljósmóðurtaska Solveigar
og ýmis áhöld sem hún notaði við fæðingar og aðhlynningu.
Hjónin fluttu til Reykjavíkur árið 1867 og byggðu sér íbúðar-
hús við Skólavörðustíg sem þau nefndu Holt. Solveig starfaði í
Reykjavík til 1886 er hún lést.2
Ég kann Læknablaðinu bestu þakkir fyrir að fá tækifæri til að
greina lítillega frá ævi Solveigar og starfi sem afkomandi hennar.
Heimildir
1. Jacobsen GW, Hem E, Sigurðssonar JÁ. Baráttan við ginklofa í Vestmannaeyjum.
Læknablaðið 2014; 100: 90-6.
2. Víglundsson Þ. Blik, ársrit Vestmannaeyja.1967.
Solveig Pálsdóttir
ljósmóðir (1821-1886)
Guðrún Úlfhildur Grímsdóttir
hjúkrunarfræðingur
gudrgrim@landspitali.is
Á myndinni er langalangamma greinarhöfundar, Solveig Pálsdóttir ljósmóðir. Meðal
afkomenda hennar í læknastétt eru Páll Torfi Önundarson og Úlfur Ragnarsson.
Uppruni myndarinnar og ljósmyndari er óþekktur.